29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Ólafsson:

Ég og hv. samþm. minn (PM) eigum tvær smábrtt. á þskj. 602 rómv. 8. Fyrri brtt. er um það, að veittar séu 15000 kr. í stað 7000 til Eyjafjallavegar, og er það aðeins fært í sömu upphæð og vegamálastjóri leggur til. Hin brtt. er um það, að veita 10 þús. kr. til Hvolhreppsvegar, en það er spottinn milli Garðsaukanna og niður að Þverárbrú. Það hefir nú á síðustu árum verið lagt í mikil mannvirki í Rangárvallasýslu, þar sem brýrnar eru á Þverá, Affalli og Markarfljóti, og hafa Rangæingar þannig á síðustu árum bætt ótrauðir úr þeirri vanrækslu, sem átti sér stað áður í því efni. Meðan vötnin voru óbrúuð fundu menn ekki til þess, hvað vegirnir voru vondir milli ánna, því þær voru nær alla tíma ársins ófærar bílum og vögnum. Þetta fundu menn ekki fyrr en brýrnar voru komnar. Þegar nú búið er að leggja svo mikið fé í brýrnar, þá vilja menn auðvitað, að af þeim verði sem bezt not. Eins og allir vita, verður á næsta sumri lokið brúargerð á Múlakvísl, og eru þá öll stórvötn brúuð austur á Síðu, en það gerir það að verkum, að bílar fara alla leið austur um Skaftafellssýslu og er því næsta aðkallandi að gera við þá farartálma, sem eru milli brúnna, svo að héruðin hafi full not af hinum dýru brúm. Það er óhætt að segja, að þó að það sé góður vegur að Garðsauka, þá eru traðirnar við Garðsauka oft ófærar í snjóum og mynda því farartálma, svo að bílar komast ekki í gegn, nema hinar löngu traðir séu mokaðar. Það er því nauðsynlegt, þó að þröngt sé í búi, að veita fé til þessa vegarspotta og vinna þar með að því að taka þennan farartálma af og koma veginum á það svæði, sem ekki festir snjó á á vetrum. Þessi liður er að vísu nýr, og vegamálastjóri hefir ekki ætlað til hans, en ég tel ófært að veita ekki fé til þess að losna við þennan farartálma. Þegar kemur svo austur fyrir Þverárbrú, er sæmilegur vegur milli Affalls og Ála, og þó að hann verði ekki talinn góður, þá er meginhluti hans venjulega fær á hvaða tíma árs sem er. Sama má segja um veginn alla leið austur fyrir Seljaland, að hann er fær flesta tíma árs. En svo er kafli austur með fjöllunum, sem erfitt er að komast yfir hindrunarlaust bæði vetur og sumar. Ég var á ferð þar síðastl. júlí, og mátti þá heita algerlega ófært austur með fjöllunum. Þessir gömlu vegaspottar voru ófærir, og það varð að fara krókaleiðir, sem ekki er hægt að fara nema með kunnugra manna leiðsögn. Þá stóðu bílar þar fastir, sem við urðum að bjarga og var það daglegur viðburður. Það er því ekkert undur, þó vegamálastjóri hafi lagt til, að 15 þús. kr. væru veittar til vegagerðar á þessum kafla, því honum er allra manna kunnugast um það, hvílík vandræði það eru, þegar bílar standa fastir og enga hjálp er að fá á næstu klukkutímum. Mín skoðun er sú, að þegar búið er að leggja mikið fé í mannvirki, sem eiga að gefa arð —en svo er með brúargerðir, því þær eiga a. m. k. að gefa arð héruðum þeim, er að þeim liggja, — að þá sé sjálfsagt að bæta við því fé, sem þarf til þess, að þær komi að tilætluðum notum. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé líka áhugamál Skaftfellinga, því þeir njóta einnig þessa vegar.

Ég ætla ekki að fara inn á samanburð um það, hvað Rangárvallasýsla á að fá samanborið við aðrar sýslur. Ég veit, að þörfin kallar að víðsvegar, og er sennilega eins mikil og þar. En það er ákaflega illt til þess að vita, þegar búið er að leggja fram mikið fé, að hætta þá við hálfnuð verk. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en vona, að þessum till. verði vel tekið, því þær eru hin mestu nauðsynjamál.