27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Eins og sjá má af þskj. 212, eigum við hv. 4. landsk. hér litla brtt. við þetta frv., sem ekki ætti að þurfa að valda ágreiningi. Er þar aðeins farið fram á, að þeim mönnum, sem skipaðir hafa verið starfsmenn á varðskipunum, verði tryggt starf þann tíma, sem skipunarbréfið hljóðar um, þó því aðeins, að landið hafi sín eigin skip til landhelgisgæzlu og björgunarstarfs.

Ef afgr. verða ný lög, sem breyta launum og öðrum kjörum skipshafnanna, mun mega líta svo á, að skipunarbréfin falli úr gildi. Flest munu þau vera gefin út 1931 og gilda til 6 ára; þó geta einhver þeirra verið nýrri. Hér er ekki farið fram á annað en að þessir menn, sem búnir eru að vera í þjónustu ríkisins, gangi fyrir öðrum svo lengi sem skipunarbréfið gildir. Ef skipum fækkar, verður vitanlega að segja starfsmönnum upp, en till. miðast ekki við það, heldur að ekki sé breytt um skipshöfn, jafnvel þó breytt væri um skip. Nú munu ekki nærri allir stýrimenn eða skipstjórar hafa skipunarbréf. Till. er borin fram eftir ósk stýrimannafél.