29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1935

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Það mun hafa verið venja, að við fjárlagaumr. komi fram sérstakt álit frá samgmn. viðvíkjandi flóabátum. Það hefir verið haldinn sameiginlegur fundur beggja samgmn. þingsins, og hefir það orðið að ráði að koma með brtt. við 3. umr. eins og venja er til. Ég vil í þessu sambandi segja það, að mér þykir hv. minni hl. fjvn. nokkuð naumur í till. sínum um samgöngumál. Mér þætti það ill afgreiðsla á þessum lið, ef hann yrði svipaður því og hv. minni hl. fjvn. leggur til, og sérstaklega ef svipaður niðurskurður yrði á framlögum til strandferða og síma. Ég geri ráð fyrir, að samgmn.menn beggja deilda taki undir þau orð, að ekki sé sanngjarnt að ætla sér að vera svo naumur á tillög til samgöngumála. Það má segja, að hjá sumum hv. þm. kenni fullmikils samúðarleysis með íbúum afskekktari héraða, sem eiga við illar samgöngur að búa. Ég skal taka það fram, að ég er einn af þeim þm., sem hafa þann ljóð á ráði sínu, að hafa ekki borið fram till. til hækkunar, og hefir þetta verið vítt af hv. frsm. minni hl. fjvn. En ég tel mér það heldur til lofs. Það hefir lengst af verið talað um það af fjvn. þingsins, að það væri lofsvert að bera ekki fram till. til hækkunar á útgjöldum ríkisins.

Ég hjó eftir því, sem hv. frsm. minni hl. (MG) sagði, þegar hann var að telja eftir framlag til vega í mínu kjördæmi. Ég get ekki látið þetta fara framhjá mér án þess að fara um það nokkrum orðum. Mig furðar á því, að maður, sem hefir setið svo lengi á þingi sem hv. 1. þm. Skagf. og er búinn að fylgjast svo lengi með málum, skuli telja eftir framlag til vega í þessu kjördæmi. Það er rétt hjá honum, að samkv. fjárlfrv. og till. meiri hl. fjvn. er nokkur hækkun frá því, sem vegamálastjóri lagði til. Þó að ég væni vegamálastjóra ekki um það, að hann sé hlutdrægur, þá er ég ekki viss um, að hans sjónarmið sé alltaf bezt, og íbúum sumra héraða mun oft hafa fundizt, að tillögur vegamálastjóra séu ekki heppilegar að öllu leyti. Hann hefir sitt sérstaka sjónarmið, hvernig verja skuli tillaginu til vega. Ég skal ekkert um það segja, en tel það ekki að öllu leyti heppilegt. Ég hefi hérna fyrir framan mig skýrslu, sem vegamálastjóri gaf fjárveitinganefndum þingsins í fyrra, þegar nýju vegalögin voru á dagskrá. Þar hefir vegamálastjóri gefið greinilegt yfirlit um það fé, sem varið hefir verið til vega og brúa af hálfu hins opinbera allt frá 1876—1930. Samkv. þessari skýrslu nemur það 15,5 millj. króna, sem varið hefir verið á þessu tímabili til vega og brúargerða. Ef þessu er jafnað á sýslur landsins koma 750 þús. kr. á hverja sýslu. Náttúrlega er þetta nokkuð misjafnt, sumar sýslur landsins hafa fengið miklu meira, t. d. Gullbringu- og Kjósarsýsla, sem hefir fengið 1876 þús. kr., Árness. yfir 2,5 millj., Mýrasýsla 1379 þús. kr., Húnavatnssýsla 1170 þús. kr. Þarna má sjá, hvað varið hefir verið til einstakra sýslna á þessu tímabili umfram meðaltal. En í N.-Þing., þessu héraði, sem hv. frsm. minni hl. var að tala um áðan, að veitt hefði verið of ríflega til, hefir á þessu tímabili, 1876—1930, ekki verið varið til vega og brúargerða nema 208 þús. kr., eða tæplega 1/3 af meðaltali hverrar sýslu. Þar við má bæta því, að við nánari athugun hefi ég veitt því eftirtekt, að mikill hluti þessa framlags var til sýsluvega, þannig að sýslubúar sjálfir hafa lagt mikið fram, svo að vegirnir yrðu slarkfærir. Þetta kemur vitanlega nokkuð af því, hvað aðalvegur sýslunnar kemst seint í þjóðvegatölu, eða ekki fyrr en 1925 eða '26. Þegar þetta er athugað, verð ég að undrast, að nokkur þm. skuli vera að telja eftir jafnlítið framlag og hér er um að ræða. Ég verð að segja það, að ég er óánægður með þetta framlag og vildi hafa það meira, en ég veit ekki, hvort ég sé mér fært, vegna þess hvernig fjárhagur ríkissjóðs er, að flytja brtt. Ég verð að taka það fram og undirstrika það, að þeir mega vel gæta þess, sumir hv. þm. þeirra héraða, sem hafa sæmilega vegi og eru í góðu sambandi, að vera ekki ósanngjarnir í garð þeirra héraða, sem eru út úr og eru aftur úr vegna þess að þau eru lengra burtu frá höfuðstaðnum, og meðfram af því, að íbúarnir í þessum héruðum eru gætnir og hafa sýnt tillátssemi við ríkið, eins og mun vera um íbúa þessa héraðs. Ættu þeir að njóta þess hér á þessu þingi fremur en gjalda, eða svo finnst mér a. m. k.