02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Páll Þorbjörnsson:

Það liggur aðallega til grundvallar þessu frv. að samrýma launakjör á öllum skipum ríkisins þannig, að þau séu hin sömu á strandferðaskipunum og strandvarnarskipunum. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál, en það er alkunna, að frá því fyrsta að farið var að starfrækja varðskipin hefir viljað brydda á sérstakri kúgunarstarfsemi gagnvart skipverjunum, bæði með því að sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir þessa menn, bæði yfirmennina og aðra skipverja, og eins með því, að þeim hafa verið ákveðin miklu lægri laun en gerzt hefir hjá hliðstæðum starfsmönnum hér á skipum. Laun háseta og kyndara voru fyrir nokkru síðan gerð jöfn á varðskipunum og strandferðaskipunum. Þetta frv. fer ekki fram á annað en að jafna laun annara starfsmanna á þessum skipum. Ég vil taka það fram, að stundum hefir þótt æskilegt að flytja yfirmenn af strandferðaskipunum yfir á varðskipin, en þetta hefir gengið illa vegna hinna misjöfnu launakjara. Ég býst þó við, að það sé af flestum talið, að störf skipverja á varðskipunum séu ekki vandaminni en á strandferðaskipunum. Því er það skiljanleg krafa, að laun þar séu ekki lægri en á strandferðaskipunum. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni, sem að sjálfsögðu mun verða vísað til sjútvn.