02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. um það, hvort till. launamálan. verði lagðar fyrir þetta þing í einhverju formi, skal ég skýra frá því, að eftir því sem mér er frekast kunnugt, hefir n. ekki ennþá lokið störfum. En hún mun vera langt komin, og eru því líkur til, að bráðlega komi eitthvað frá henni af till. Hvort stj. muni eitthvað af þeim leggja fyrir þingið, er ómögulegt að segja um fyrr en hún hefir farið yfir þær. En eins og málum er nú komið, þykir mér ekki líklegt, að hægt verði að leysa þessi mál í heild á þessu þingi.

Það má náttúrlega segja um þetta mál, sem hér liggur fyrir, að það gæti beðið þangað til launamálunum verður skipað í heild; mun hv. n., sem fær málið til athugunar, segja sitt álit á því. Ég hefi ekki kynnt mér málið svo í einstökum atriðum, að ég geti dæmt um það. Vildi ég aðeins gefa þessar upplýsingar um starf launamálanefndar.