27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (2817)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég þarf litlu við það að bæta, sem hv. 1. flm. frv. hefir sagt. Þó að ég sé mjög sammála mörgu af því, sem hv. 1. þm. Rang. hefir sagt hér, þá var það nú einróma álit okkar í sjútvn., að það væri ekki rétt að leggjast á móti því, að gerð sé þessi tilraun til þess að koma matinu í betra horf, sem sé að skipaður verði maður til að hafa yfirlit með matinu, sem til þess þætti hæfur og hefði fulla siðferðislega ábyrgð á því, hvernig matið er framkvæmt um landið. Það er að vísu rétt, að sá maður hefir ekki aðstöðu til þess að dvelja langdvölum á þeim stöðum, þar sem fiskur er metinn. Samt sem áður efast ég ekki um, að ötull maður og greindur á þessu sviði, sem hefði þann lagalega rétt, sem hér á að veita, til þess að leiðbeina fiskimatsmönnum og útgerðarmönnum og veita þeim áminningar þegar þörf krefur, mundi hafa talsverð áhrif í þá átt að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir.

Ég greip hér ofan í umr., sem urðu um þetta mál á þinginu 1927, þar sem hv. 1. þm. Rang. lagði líkt til málanna og nú. Ég rak mig þar á, að hv. 1. þm. Rang., og ég held fleiri, sem þó voru á móti fiskimatsstjórastarfinu á því þingi, tala um það, að ferð ákveðins fiskimatsmanns til Vestmannaeyja hafi borið árangur. Það er að segja, að þar í Eyjum hafi meðferð fiskjarins batnað við það, að þessi fiskimatsmaður — ég held héðan frá Faxaflóa — fór þangað til að leiðbeina mönnum og koma betra lagi á fiskimatið. Ég bendi á þetta sem örlítið dæmi því til sönnunar, að þó fiskimatsstjóri geti ekki orðið staðbundinn á neinum einum stað á landinu, þá er ekki annað líklegt en að hann geti í mörgum tilfellum haft bætandi áhrif á fiskimatið. Það er hverju orði sannara hjá hv. 1. þm. Rang., að það getur enginn fiskimatsstjóri gert góða vöru úr fiski, sem sjómenn eða þeir, sem taka við fiskinum úr þeirra hendi og verka hann, hafa gert slæman. Það getur enginn breytt skemmdum fiski í góðan fisk. En hinsvegar eru strangar matsreglur öflugasti krafturinn til þess að knýja framleiðendurna, frá þeim fyrsta til hins síðasta, til að vanda vöruna. Ef við fáumst ekki til að vanda vöruna þegar hert er á matinu og við vitum, hvað við liggur, þá sé ég ekki, að auðvelt sé að koma þessu í lag. A. m. k. sé ég ekki, að löggjöfin geti gengið að þessu á annan veg, því þó farið væri að lögbjóða, að svona og svona ætti að fara með fiskinn, þá mundi því ekki fremur verða hlýtt heldur en reglum fiskimatsmannanna, sem verið er að setja bæði í ræðu og riti. Það langáhrifaríkasta er það, hver útkoman verður á matinu hjá hverjum einstökum manni, og það knýr hann helzt til vöruvöndunar.

Ég hefi verið að spyrja sjálfan mig að því að undanförnu, síðan opinberar urðu þessar stórkostlegu misfellur á fiskimatinu, sem mér skilst, að stjórn fisksölusamlagsins hafi gert opinskátt um á fiskiþinginu, hvernig á því stendur, að stjórn fisksölusamlagsins hefir getað vitað um þetta ástand og þó ekki gert neina verulega gangskör að því að fá úr því bætt. Það er allt í einu skýrt frá margra mánaða gömlum misfellum, og því fylgir ekki annað en svona almenn ábending til allra framleiðenda um að vanda vöruna. Ég veit ekki, hvað mikið er leggjandi upp úr áliti fiskiþingsins á svona málum, og ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvað mikið málið hefir verið athugað þar. Það var a. m. k. flutt þar, og ég sé af því, sem birt hefir verið í blöðunum, að fiskiþingið hefir hallazt mjög að því að skipa matsstjóra á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í þessu frv. Þetta þing sækja sjávarútvegsmenn víðsvegar af landinu, og þeim hefir þá líka dottið þessi leið í hug.

Hv. þm. G.-K. hefir svarað fyrirspurn hv. 1. þm. Rang. um það, hvort ætlazt væri til, að matsstjórastarfið væri sameinað fiskifulltrúaembættinu á Spáni. Málið hefir nú ekki verið flutt fram þannig, að til þess væri ætlazt, að þessi tvö embætti yrðu sameinuð. Hinsvegar er ekki óhugsandi, að það gæti komið til mála, að maður, sem er búinn að dvelja árum saman í neyzlulöndunum, þekkir mörg tilfelli um umkvartanir og á hvaða rökum þær hafa verið byggðar, og hefir mikla þekkingu á, hvernig farið er með fiskinn hér heima, hefði einmitt góð skilyrði til þess að skipa sæti fiskimatsstjóra. En hvað sem því liður, þá er það víst, að það er ákaflega mikið vandaverk og ábyrgðarmikið starf, sem fiskimatsstjóranum er ætlað að hafa með höndum. Og hvað sem því líður, hvort þessi ráðstöfun er hin rétta, eða það er eitthvað annað, sem gera þarf til þess að vanda betur fiskinn og hækka hann aftur í áliti, þá er það víst, að við Íslendingar höfum ekki efni á að liggja lengi undir því óorði, sem er að komast á einmitt okkar fiskimat. Þetta kveður við úr öllum áttum. Norðmenn, sem urðu á sínum tíma að senda hingað menn til þess að læra að meta fisk, eru nú, að því er sagt er, mjög að komast fram úr okkur í því verki. Og Færeyjafiskurinn er nú álitinn miklu betri vara á útlenda markaðinum heldur en sá íslenzki. Svona er nú komið, að við, sem vorum taldir upphafsmenn að vandaðri fiskframleiðslu, erum nú orðnir þeir þriðju í röðinni, eða hver veit hvað.

Ég ætla ekki að fara að deila um það við hv. 1. þm. Rang., hvort þessi ráðstöfun, sem hér er verið að efna til, er hin eina rétta, fyrr en hann eða aðrir, sem hafa á móti henni, leggja beinlínis með brtt. eitthvað annað til málanna.