27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

71. mál, fiskimatsstjóri

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég vil forðast eftir megni að vekja upp gamlar deilur um þetta mál. En í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, þykir mér rétt aðeins með örfáum orðum að rifja upp það, sem lá til grundvallar skoðunum á þessu máli á Alþ. 1927. Hann og fleiri mætir menn voru þá þeirrar trúar, að við mundum betur ná þeim tilgangi að bæta úr fyrirliggjandi þörf um betri fiskverkun á annan hátt en með því að skipa matsstjóra, fyrst og fremst með því að efla aðstöðu yfirfiskimatsmanna til að afla þekkingar á fiskverkun og koma henni í framkvæmd. Ég ætla nú ekkert að rifja upp úr þeim umr. annað en það, sem við flm. þessa máls þá töldum til ágætis því, sem hv. 1. þm. Rang. nú hefir gagnrýnt. Vil ég með leyfi hæstv. forseta, lesa umræðukafla um þetta í Alþt. frá 1927, C. bls. 1098:

„Við ætlumst til, að skipaður verði fiskimatsstjóri fyrir allt landið, og sé hann launaður af ríkissjóði. Hann skal hafa fulla þekkingu á allri meðferð fiskjar, frá því hann er veiddur og þar til hann er fullverkaður til útflutnings. Hann skal kynna sér eftir föngum kröfur neytenda og ferðast árlega til aðalneyzlulandanna í því augnamiði, alla jafna að vetrarlagi, en að sumrinu fer hann sem víðast um verstöðvar og sýnir mats- og yfirmatsmönnum, hvernig verka skuli fiskinn, svo að hann fullnægi síðustu kröfum neytenda.

Vel gæti og komið til mála, að matsstjórinn héldi námskeið fyrir mats- og yfirmatsmenn, og sýnist ekki ósanngjarnt, að þessir menn stæðust verklegt próf, áður en þeir öðlast réttindi til fiskimats. Á þennan hátt vinnur matsstjóri að því að auka þekkingu matsmanna á starfi sínu og samræma matið.

Annar og aðalþátturinn í starfi matsstjórans er eftirlitið með mats- og yfirmatsmönnum. Skal hann hafa vakandi auga með starfi þeirra, og skulu yfirfiskimatsmenn skipaðir eftir till. hans. Matsstjórinn hefir og æðsta úrskurðarvald í öllu því, er fiskimatið snertir, og skulu mats- og yfirmatsmenn sæta boði hans og banni í þeim efnum.

Að þessu sinni hirði ég ekki að draga upp skýrari mynd af því, er fyrir sjútvn. vakir, en vænti, að hv. þdm. hafi skilizt, að við teljum þrennt nauðsynlegt til þess að sæmilegt öryggi fáist um fiskimatið. Í fyrsta lagi haldbetri þekkingu matsmanna á starfi sínu. Í öðru lagi stöðugt eftirlit með því, að þeir inni af hendi störf sín eftir því sem þeir hafa bezt vit á, og í þriðja lagi, að matsmannahernum verði skipað höfuð, er hafi æðsta vald í öllum ágreiningsatriðum. Í fæstum orðum: Nefndin heimtar fræðslu, aðhald og vald.

Hv. andstæðingar hafa nú aðeins komið auga á eina hlið þessa máls, þ. e. a. s. nauðsynina á að auka þekkingu matsmanna. Að því marki stefna bæði till. um utanfarir þeirra og fundahöld, því á fundunum er matsmönnum ætlað að menntast fyrir fræðslu stéttarbræðra sinna, og þá væntanlega fyrst og fremst þess, er síðast hefir farið utan.

Ég skal nú leiða rök að því, að einnig þessu marki ná hv. andstæðingar fyrr og betur, ef þeir fylgja okkur nefndarmönnum. Ég skal þá byrja með að ráðast á sterkasta vígi andstæðinganna. Þeir munu halda því fram, að yfirmatsmönnum sé nauðsyn á því að fara utan, svo að þeir megi sjá og heyra kröfur neytenda. Í þessu hafa hv. andstæðingar okkar nokkuð til síns máls. En þó er þeim hentast að halda varlega á þessu. Í fyrsta lagi bendi ég á, að sjútvn. hefir ekkert um það sagt, að hún ætlist til, að slíkar ferðir falli með öllu niður, en þar næst leiði ég athygli að höfuðatriðinu, með því að biðja hv. þdm. að fylgja mér út í veruleikann, athuga matið eins og það er nú í framkvæmdinni. Hverjir meta fiskinn? Undirmatsmenn. En hvað gera þá yfirmatsmenn? Leggja matsmönnum lífsreglurnar, segja fyrir og sýna, hvernig meta skuli fiskinn. En nú er það einmitt yfirmatsmaðurinn, þ. e. a. s. sá, sem leiðbeinir, sem hv. andstæðingar vilja mennta, en ekki þann, sem matið framkvæmir, undirmatsmanninn. — Hvaða játningu höfum við nú lokkað út úr hv. andstæðingum okkar með þessu? Í fyrsta lagi þá, að þeir meta mest kunnáttu þess, sem leiðbeinir, og í öðru lagi, að af slíkri kunnáttu er auðvelt að miðla öðrum. Eða með öðrum orðum, að betri er matsstjóri, sem fer árlega til neyzlulandanna, en yfirmatsmenn, sem þangað fara tíunda hvert ár. Því að hann menntast betur og getur miðlað yfirmatsmönnum, á sama hátt og þeir miðla undirmatsmönnum nú. Mönnum þykir kannske, að ég eigi ósannað, að matsstjórinn verði betur menntaður en yfirmatsmenn. En mér þykir augljóst, að úr því að gagnsemi utanfarar er viðurkennd, hljóti sá að standa betur að vígi, sem fer árlega, en hinn, sem aðeins fer tíunda hvert ár. Og í þessu sambandi vil ég benda á það, að yfirmatsmenn, sem ætlað er að fara utan tíunda hvert ár, fara margs á mis í för sinni, sem fellur í skaut þess, sem vanur er ferðalögum og kunnugur orðinn, eins og matsstjórinn mundi verða. Hinir fyrri eru alla jafna máttlausir og vinafáir í ókunnu landi, skylduræknir, en þeirri stundu fegnastir, er lagt er af stað heim. Matsstjórinn aftur á móti lærir málið, kynnist smátt og smátt höfuðfiskinnflytjendum. Í hvert skipti, er hann kemur til neyzlulandanna, tekur hann upp þráðinn þar, sem hann sleppti honum, hverfur að starfinu þar, sem það féll niður. Hann heilsar fornkunningjunum, þakkar þeim fyrir síðast og spyr nýrra tíðinda. Á skömmum tíma kynnist hann nýjungunum, frá því hann síðast var á ferðinni, kveður og fer. — Hann fær á skömmum tíma margfalt meiri fræðslu en fiskimatsmenn mundu geta öðlazt á löngum tíma. Svona mikill er aðstöðumunurinn. Það yrði því vafalaust ríkissjóði miklu ódýrara, að matsstjóri færi árlega utan en þótt yfirmatsmenn færu annaðhvert ár. Þetta veit ég, að allir skilja, sem fundið hafa mun þess, að fara sjaldan utan, og hins, að vera þar tíður gestur.

Okkur nefndarmönnum sýnist því, að með matsstjóranum sé skapaður lifandi tengiliður á milli framleiðenda og neytenda, stöðugur boðberi á milli kröfu neytandans og þeirrar viðleitni, sem framleiðandinn æfinlega í eiginhagsmunaskyni hlýtur að vera reiðubúinn til að sýna til að fullnægja henni. Okkur sýnist þetta vera hægasta leiðin til að flytja inn þá þekkingu, sem nauðsynleg er til að geta flutt út þá vöru, sem neytandinn óskar, en að því verðum við Íslendingar að keppa, ef við eigum ekki að verða undir í bardaganum við áhugasama keppinauta.“

Þetta hefi ég nú framfært til rökstuðnings því, að matsstjóri standi vel að vígi um að afla sér þekkingar á kröfum neytenda til fiskverkunar. Sömu rök eru færð fyrir því, að með aukinni þekkingu sé betur séð fyrir vandaðra mati heldur en við eigum nú við að búa.

Að öðru leyti vil ég aðeins koma með aths. út af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði áðan, að það er alveg rétt hjá honum, að skipun matsstjóra skapar ekki fullkomið öryggi fyrir því, að matið fari svo úr hendi sem nauðsynlegt er. Ég hefi alltaf viðurkennt það, að við megum ekki láta undir höfuð leggjast að gera einnig aðrar nauðsynlegar ráðstafanir þessu til tryggingar. Samt sem áður er það skoðun mín, að þetta öryggi yrði verulega aukið, ef matsstjóri yrði skipaður til viðbótar því fyrirkomulagi, sem nú er.

Það eru ekki sterk rök hjá hv. þm., sem hann færir fram til afsönnunar ágæti þessa fyrirkomulags, að það hafi komið fyrir, að ljóður hafi orðið á ráði undirfiskimatsmanna, eins og skeð hefir um mat á fiski á Stokkseyri. Þetta eru ekki rök, segi ég, af því að afleiðingin af þessari rökfærslu yrði óhjákvæmilega sú, að í raun og veru væri ástæðulaust að vera að kosta til mats á fiski. Góður yfirmatsmaður getur ekki afstýrt því, að lélegt mat á fiski geti komið fyrir. Mönnum getur skotizt, þó skýrir séu, á meðan enginn okkar er alveg laus við að geta mistekizt. Ef við þess vegna ætluðum að fara að rökræða málið út frá þessu tilfelli, þá sýnist mér, að við mundum geta fljótt komizt inn á þá braut, að halda því fram að afnema matið með öllu.

Ég hefi leitazt við að tala um málið þannig að ræða mín yrði ekki til ýfinga. Hv. 1. þm. Rang. talaði með talsverðri sanngirni um málið og sagði m. a. og réttilega, að ekki mætti kasta öllum áhyggjum vegna fiskimatsins upp á matsstjóra.