27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það var nú ekki beinlínis það, sem ég sagði, að fiskur okkar Íslendinga væri 3. flokks vara á markaðinum, heldur sagði ég það, að við, í stað þessa að vera hinir fyrstu, þá værum við hinir þriðju í röðinni af þeim þjóðum, sem flytja fisk til Suðurlanda, eftir vörugæðum. Nei, ég vil biðja hv. 1. þm. Rang. að taka eftir því, að það var ekki mín meining, að okkar fiskur væri yfirleitt 3. flokks vara. Ég vil gjarnan hlýða hans og annara góðra manna ráðum og leggja mitt lið til þess, að við gætum náð aftur því sæti í þessu tilliti, sem við höfðum um eitt skeið. Þótt að því liggi engin ein örugg leið, gæti það þó tekizt.

Fiskframleiðsla okkar er nú orðin þannig, að fiskurinn berst að á tiltölulega mjög skömmum tíma, og vandvirkni um meðferð hvers einstaks fiskjar ekki eins mikil og var oft áður, á meðan minna var aflað. Þá gátu menn fremur nostrað við fiskverkunina eftir vild.

Þá var það rétt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um matið. Matið er í framkvæmdinni mikið álitamál. Það mun víðast vera framkvæmt þannig, að sami maður, sem látinn er fara til 2 fiskeigenda, og ef annar hefir góðan fisk, en hinn yfir höfuð illa verkaðan, þá framkvæmir fiskimatsmaðurinn matið þannig relativt, að sá, sem hefir illa verkaðan fisk, fer tiltölulega betur út úr því. Þetta verður þannig, að það mun mjög oft vera svo, að matsmaður, sem kemur að slæmum fiski, sem hann er óánægður með, flokkar þó fiskinn þannig, að fiskinn, sem hann þar af getur bezt forsvarað, lætur hann í 1. flokk og svo hitt tröppu af tröppu í flokka eftir gæðum. Á sama hátt fer matsmaðurinn með fisk þess manns, sem hefir vel verkaðan fisk. Hann flokkar hann líka þannig relativt. En niðurstaðan af þess háttar mati getur orðið sú, að það, sem lendir í 1. flokki hjá þeim, sem hefir yfirleitt illa verkaða fiskinn, er samskonar fiskur og lendir í 2. flokki hjá þeim, sem hefir yfirleitt vel verkaða fiskinn.

Ég veit ekki, hvort það hefir komið til tals á fiskiþinginu, hvort nokkur leið sé að því að „standardisera“ þessa vöru, þannig, að setja fastar reglur fyrir því, hvernig eigi að flokka hana, t. d. hvernig 1. flokks línufiskur eigi að vera, hvernig 2. flokks fiskur o. s. frv. Við Íslendingar erum ákaflega langt frá því marki að hafa fiskflokkunina standardiseraða. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort hv. 1. þm. Rang. er þeirrar skoðunar, að það væri ráðlegt að gera eitthvað í þessu efni. Og ef svo er, þá væri málið honum þess vert, að þetta væri athugað. Þetta mundi, ef að framkvæmd yrði, koma ákaflega miklu samræmi á fiskimatið. Því að nú er það þannig, að mikill munur er á meiningu sjálfra fiskimatsmannanna um það, hvernig fiskur eigi að vera í 1., 2. og 3. flokki. Það væri ef til vill réttast að halda námskeið eða skóla fyrir fiskimatsmenn til að veita þeim staðgóða þekkingu á þessum hlutum, sem mundi án efa leiða til meiru samræmis um fiskimatið.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um sameining starfs fiskifulltrúans á Spáni við nokkuð af því starfi, sem matsstjóra er ætlað að hafa á hendi samkv. frv., verð ég að segja það, að þetta hefir ekki sérstaklega verið athugað í sjútvn. Hinsvegar tel ég víst, að ef einhverjar brtt. koma fram við frv. um þetta atriði eða önnur, þá muni n. vera fús til þess að ræða þau mál við þá, sem brtt. kynnu að flytja, og yfir höfuð mun n. vera fús til að ræða allt, sem snertir frv. í heild sinni og gæti orðið til þess að bæta úr fiskimatinu.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Rang. að því er snertir starf fiskifulltrúans á Spáni, að viðhorfið er allt öðruvísi nú um fisksölu okkar Íslendinga þar syðra heldur en það var áður en fiskifulltrúastarfið var stofnsett. Þá var verzlunin með fiskinn þar frjáls og fiskútflytjendur höfðu hver sinn umboðsmann. En allur almenningur í landinu hafði engan sérstakan fyrir sig. eins og nú á sér stað, til þess að kynna sér markaðshorfur. Þá var miklu brýnni þörf á því að hafa slíkan fulltrúa heldur en nú, þegar verzlunin með fisk á Spáni er svo að segja öll komin á eina hönd hér hjá okkur og innflutningur á fiski á Spáni svo mjög takmarkaður sem hann er nú. Það mun þó ekki vera hyggilegt, að við höfum engan erindreka á Spáni a. m. k. hluta úr árinu, jafnvel miðað við ástandið, sem nú er.

Ég endurtek það, að ef hv. 1. þm. Rang. vildi eiga tal við n. um þetta mál, þá fullyrði ég, að hún muni vera fús til að ræða við hann brtt. við frv.