30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

71. mál, fiskimatsstjóri

Sigfús Jónsson:

Það eru hér brtt. á þskj. 237, sem við höfum borið fram hv. þm. N.-Þ. og ég. Þessar brtt. eru aðallega fram komnar frá minni hálfu við það að hlusta á þær umr., sem fram fóru um þetta mál á laugardaginn. Þá töluðu þrír hv. þm., sem allir eru útgerðarmenn, og hafa þeir sjálfsagt meira til brunns að bera en ég hvað snertir þekkingu á þessum hlutum, því að ég get ósköp vel játað, að ég er fiskmeðferð ókunnugur.

En það, sem ég vil í þessu máli, er, að ekki sé stofnað sérstakt embætti, sem er háttlaunað og ég get ekki séð, að bæti neitt úr þeim misfellum, sem komið hafa fram á fiskimatinu. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir, sem eru fiskimatsmenn hér, geti orðið eins færir um það starf eins og þótt stofnað væri nýtt embætti fyrir matsstjóra.

Hvað snertir það, að matsstjórinn fari til neyzlulandanna til þess að kynna sér kröfur neytendanna til fiskjarins, þá sé ég enga ástæðu til þess, vegna þess að fiskifulltrúinn er á Spáni og hlýtur að vera þeim málum kunnugur, þar sem hann dvelur þar að staðaldri. Þess vegna álítum við, að það megi ná sama árangri með þessum brtt., en með miklu minni kostnaði en frv. gerir ráð fyrir.

Við gerum ráð fyrir, að einn af yfirfiskimatsmönnunum verði skipaður matsstjóri og laun hans hækkuð um 1300 kr., eða upp í 6000 kr. Ferðir ættu að geta sparazt, vegna þess að fulltrúinn á Spáni kemur venjulega heim og talar við fiskimatsmennina. Með þessu býst ég við, að megi spara 12—15 þús. kr., en sami árangur muni nást með þessu fyrirkomulagi eins og með hinu, að setja á stofn sérstakt embætti.

Ég fyrir mitt leyti kann betur við, að matsstjórinn sé búsettur hér heima, en ekki suður á Spáni, eins og kemur fram í brtt. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf. Frá mínu sjónarmiði lítur það einkennilega út, að yfirfiskimatsmaðurinn sé búsettur suður á Spáni. Mér finnst það muni gefa meira tilefni til tortryggni hjá kaupendunum, að það sé lítið gagn að þessum matsstjóra, sem sitji í öðru landi og viti þess vegna ekkert, hvað fram fer hér um fiskimat.