30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

71. mál, fiskimatsstjóri

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Þegar ég sá þetta frv. um matsstjóra eins og það var upphaflega fram borið af hv. þm. G.-K. og tveimur mönnum öðrum, virtist mér strax, að til þessa starfs væri ekki nægilega vandað. Ég get reyndar sagt, að ég tel mig ekki neinn sérfræðing í fiskverkun og er það ekki að öðru leyti en aðrir þeir, sem einhverntíma hafa unnið að fiskverkun.

Það, sem mér fannst sérstaklega vanta, var, eins og líka kom í ljós, að fleirum fannst, að þessum matsstjóra væri ekkert vald gefið, svo að hann yrði tekinn alvarlega. Eins og frv. var, þá átti hann aðeins að vera til skrafs og ráðagerða og svo til að ferðast um til að kynnu sér kröfur neytenda, en hefði ekki vald til að gefa fyrirskipanir, sem öðrum matsmönnum bæri að hlýða. Sjútvn. sá, að hér þurfti umbóta við, og þess vegna var samþ. við 2. umr.brtt., að hann hefði þó eitthvert vald. En þetta, að skipa matsstjóra, sem hefði ekkert vald, var alveg hliðstætt þeirri till., sem hv. þm. G.-K. bar hér fram, að setja skyldi á stofn fiskiráð, sem ekki var heldur gert

ráð fyrir, að hefði neitt vald, en aðeins ætlazt til, að yrði til skrafs og ráðagerða við hina og þessa aðila. Ég verð að segja, að mér finnst þetta ekki vera veigamiklar umbótatill. um þessa höfuðatvinnugrein landsins, þegar þær koma nú frá þeim mönnum, sem hafa kynni af erfiðleikum sjávarútvegsins.

En það, sem gerði að verkum, þrátt fyrir það, að þessu hefði verið breytt við 2. umr., að við hv. 2. þm. Skagf. höfum borið fram brtt., var m. a. það, að hlýða á ræðu hv. 1. þm. Rang., sem hann flutti við 2. umr. málsins, þar sem hann gaf ýmsar merkilegar upplýsingar viðvíkjandi þessu, en hann hefir eins og kunnugt er meiri reynslu og þekkingu í þessum málum en flestir aðrir, og meiri þekkingu en hv. 1. flm. þessa frv.

Hv. þm. er kunnugt, að fram hafa komið alvarlegar kvartanir yfir því, að fiskimatinu væri ábótavant. Þetta kom sérstaklega fram nú á fiskiþinginu. Hefir það gefið tilefni til mikilla umr. Bæði af þessu og eins því, sem fram hefir komið hér á þingi í umr. um þetta mál, virðist mér ekki fyrst og fremst hægt að draga það, að hér ríki vanþekking á kröfum neytenda. A. m. k. er það upplýst, að íslenzkur saltfiskur hefir rutt sér svo til rúms, að hann hefir verið talinn beztur á markaðinum. Þetta bendir til þess, að menn hafa kynnt sér kröfur neytenda. En það, sem virðist hafa komið fram, er það, að matinu hér á landi, og þá fyrst og fremst undirmatinu, er sérstaklega ábótavant. Þess vegna virtist okkur flm. þessarar till., að það, sem sérstaklega þyrfti að gera, væri að gera ráðstafanir til að vanda matið sem bezt innanlands, svo að því mætti treysta, og eins og hv. 1. þm. Rang. tók fram við 1. umr., að við höfum mann í markaðslöndunum, sem kynnti sér þá hlið, sem að neytendunum snýr, og á að gefa mönnum hér á landi leiðbeiningar í þessu efni, og það ætla ég, að hann hafi gert.

Það, sem okkur virðist, eins og hv. 2. þm. Skagf. tók fram, er, að það, sem fyrst og fremst þurfi að leggja áherzlu á, sé matið hér á landi. Þess vegna er óþarfi að setja hér starfsmann, sem væri mestan hluta ársins af landi burt og gæti ekki gefið fyrirskipanir viðvíkjandi matinu, sem yrði að telja nauðsynlegt og sjálfsagt. Okkur virðist því, að það, sem þessi matsstjóri ætti að gera, væri að hafa skarpt eftirlit með matinu hér á landi og standa í sambandi við fiskifulltrúann á Spáni til að vita um kröfur neytenda.

Hv. frsm. sjútvn. hreyfði því, að ef fiskimatsstjórinn væri um leið yfirfiskimatsmaður í einu umdæmi, þá yrði lítið úr starfi hans sem matsstjóra. Þetta hefir ef til vill við nokkur rök að styðjast, en þó má gera ráð fyrir, að þessi maður gæti haft rýmri hendur til þessa starfs en aðrir matsstjórar, því að honum er hér ætlaður skrifstofukostnaður eftir því sem ráðh. telur nauðsynlegt.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega leggja áherzlu á það viðvíkjandi þessum kvörtunum, sem fram hafa komið um fiskimatið, að ég held, að það, sem sérstaklega þurfi að bæta, sé undirmatið á ýmsum stöðum. Ég vil skjóta því til hv. sjútvn., hvort hún vilji ekki athuga, hvort ekki sé ástæða til að endurskoða fiskimatslöggjöfina og gera umbætur til að reyna að bæta úr því, sem hér er ábótavant, nefnilega undirmatinn. Það kom fram á fiskiþinginu bending frá einum fiskiþingsmanni, uppástunga um það, hvort ekki væri heppilegt, að undirfiskimatsmennirnir framkvæmdu ekki matið þar, sem þeir eru búsettir, heldur skiptust á um það. Þessi till. skýrir sig sjálf, og þarf ekki að taka fram, af hverju þetta gæti verið heppilegt.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að taka málið af dagskrá að þessu sinni, ef vera kynni, að við, sem hér höfum borið fram mismunandi brtt., gætum komið okkur saman um till. í málinu.