30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

71. mál, fiskimatsstjóri

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er engin von, að þessi maður geti kennt mér neitt um fiskimat. Ef hér væri um mat á hrossakjöti að ræða, væri kannske hugsanlegt, að hann gæti lagt eitthvað til málanna. Hitt er furðulegt, að hann skuli ætla að fara að kenna mér, hvernig á að meta fisk. Ég átti ekki von á, að afdalaþekkingin kæmi þar að miklu liði. En það er von, að hann þykist eiga mér grátt að gjalda eftir að ég tók svo ómjúkum höndum á þeim frv., sem hann hefir flutt hér á þingi, að þau einu frv., sem hann hefir flutt, voru afgr. í pappírskörfuna. Að ég sé ekki að fara hér með rangt mál, nægir að rökstyðja með því að vitna til þessara brtt. sjálfra; þær eru nefnil. slík fjarstæða, að ekki er hægt að taka þær alvarlega. Þá er gaman að leiða athygli hv. dm. að því, hvernig þessi hv. þm. talaði um frv. Hann sagði t. d. m. a.: „Þegar ég hafði lesið frv., var mér það þegar ljóst, að hér var tekið lausatökum á málinu.“ Og þetta álit sitt sagði hann, að hefði fengið frekari staðfestingu, þegar hann hefði lesið brtt. sjútvn., þar sem það upplýstist, að í frv. hafi vantað allt vald handa matsstjóranum. Ég veit nú ekki, hvort mér tekst að fá hv. þm. til þess að trúa, enda þótt ég sýni honum svart á hvítu, að þetta stendur einmitt í frv., því að hann er ekki vanur að þjóna sannleikanum. Í frv. mínu segir m. a.: „Matsstjóri efnir til fundarhalda með yfirfiskimatsmönnum svo oft sem þurfa þykir. Skal hann skýra þeim frá nýjum kröfum neytenda og setja þeim reglur um fiskimatið. Skal matsstjóri ferðast um landið og hafa eftirlit með allri framkvæmd matsins. Matsstjóri sker úr öllum ágreiningi, er snertir fiskimatið.“ Hvað heldur hv. þm., að þetta þýði? Heldur hann, að það eigi að brjóta þessar settu reglur, eins og ófyrirleitnir blaðamenn brjóta öll lög? Nei, það er alls ekki tilætlunin. Enda er það svo, að sjútvn. tekur það fram í nál. sínu, að brtt. hennar sé borin fram til þess að kveða skýrar á um vald matsstjórans en gert er í frv., til þess að útiloka allan misskilning. Ég vona nú, að hv. þm. skilji það, að þegar matsstjórinn setur reglur, þá á að fara eftir þeim reglum, alveg eins og borgararnir eiga að fara eftir þeim lögum, sem Alþingi setur.

Af þessum sama toga er vitanlega spunnin afstaða þessa hv. þm. til hinna annara frv., er ég hefi borið fram hér á þinginu viðvíkjandi sjávarútveginum. Það sést, að hann er hrifinn af þeim, t. d. frv. um fiskiráð, því að þau fáu atriði, sem hann ber fram til umbóta á því, eru öll tekin úr grg. frv. míns. Mér þykir ekkert undarlegt, þó að þessi hv. þm., sem er, að því en bezt verður séð, afarfáfróður um þessi mál, líti upp til mín, en það er bara leiðinlegt, að hann skuli þá vera að þessu illkvittnislega nuddi. Þá þætti mér gaman að vita, hvað hann á við með því, að það þurfi að breyta undirmatinu. Heldur hann kannske, að hver þorskhaus sé fyrst skoðaður af undirmatsmönnunum, og svo síðan af yfirmatsmönnum? Ég vil nú segja hv. þm., að þetta er ekki svo, og jafnframt gefa honum það ráð, að hætta sér ekki út á þann hála ís að ætla að fara að kenna hvorki mér eða öðrum, sem frá blautu barnsbeini hafa fengizt við þessi mál. Að breyta þessum hv. þm. í þorsk, treysti ég mér ekki til, en þó myndi það frekar mögulegt heldur en gera úr honum mann með þekkingu á þorski.

Það hljóta allir skynbærir menn að sjá, að það er engin bót á því ástandi, sem nú er, að breyta einhverjum manni frá því að vera yfirfiskimatsmaður í matsstjóra. Hinsvegar er ég þakklátur flm. brtt. á þskj. 237 fyrir það, að taka til greina bendingu þá, sem ég gaf við 1. umr., að betur myndi fara á því að nefna mann þennan fiskimatsstjóra frekar en matsstjóra. Að öðru leyti er það kaldur hugur í garð sjávarútvegsins, sem lýsir sér í þessum brtt., þegar líka þess er gætt, að fiskiþingið lýsti því yfir, að framtíð hans væri undir því komin, að það tækist giftusamlega að bæta úr þeim ágöllum, sem alkunnugt er, að nú eru á fiskimatinu, þar sem þær, að undantekinni þessari litlu nafnbreytingu, virðast fela það eitt í sér að koma í veg fyrir, að fiskimatsstjórinn komi að því liði fyrir sjávarútveginn, sem til er ætlazt. Það á að láta hann jafnframt vera fiskimatsmann, lækka laun hans frá því, sem lagt er til í frv., og útiloka það, að hann geti öðlazt þá þekkingu, sem alveg er nauðsynleg og ekki fæst nema með því að ferðast til neyzlulandanna. Það er því kaldur hugur, samfara lítilli þekkingu, sem kemur fram í till. þessum. Mér þykir þetta í sjálfu sér ekkert undarlegt, því að sjávarútvegurinn hefir ekki átt og mun ekki eiga að fagna neinum kærleika eða umhyggju frá þessum mönnum, en hins hefði maður getað vænzt, að þeir gættu þess velsæmis, að vera ekki að hafa sig í frammi í þessu máli.

Út af þeim ummælum hv. þm. N.-Þ., að till. mínar í frv. til umbóta þessum málum væru veigalitlar, vil ég geta þess, að eftir að Magnús Sigurðsson bankastjóri hafði lýst því á fiskiþinginu, hvernig ástatt væri um fiskimatið, samþ. það mótatkvæðalaust, að eina ráðið til þess að bæta úr ágöllum fiskimatsins væri að stofna matsstjóraembætti, en svo bar til, að frv. mitt var komið fram nokkru áður. Brtt. þessara hv. herra og umsögn þm. N.-Þ. er því áfellisdómur á fiskiþingið, þeim sjálfum til lítils sóma. Eins og frsm. sjútvn. tók fram, er mál þetta þýðingarmikið fyrir sjávarútveginn, eins og líka sjá má á því, að sjútvn. hefir einróma lagt til, að það verði samþ., og enginn nm. hefir treyst sér til að taka til greina till. þeirra hv. þm. N.-Þ. og hv. 2. þm. Skagf. Í þessu liggur skýlaus dómur um gildi frv. eins og það er borið fram af mér, og jafnframt yfirlýsing um það, að brtt. þeirra tvímenninganna séu einskis virði. Annars mega þeir vera þess fullvissir, að svo framarlega sem einhver snefill af viti hefði verið í þeim, þá hefðu flokksmenn þeirra í sjútvn. reynt að taka þær að sér og koma þeim á framfæri.

Um brtt. þeirra hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf. get ég verið fáorður, og það m. a. af því, að mér virtist hv. 1. þm. Rang. leggja mér upp í hendurnar sterk gagnrök gegn þeim. Hann sagði, hv. þm., að fiskifulltrúinn á Spáni hefði undanfarið haft mest eftirlit með matinu hér heima, og með þeim rökum vildi hann réttlæta það, að vel mætti fela honum að gegna matsstjóraembættinu hér, ásamt stöðu sinni í Suðurlöndum. Út af þessari röksemdafærslu hv. þm. vil ég taka það fram, að eins og það er satt, að fiskifulltrúinn hefir verið að reyna að sameina þessi störf, eins víst er það, að það hefir hrapallega mistekizt, eins og skýrslur þær, sem gefnar voru á fiskiþinginu, sanna. Ef það er aftur á móti meiningin að leggja fiskifulltrúastarfið á Spáni niður, má vera, að sá, sem gegnir því, sé hæfur til þess að gegna matsstjórastarfinu. Vilji hv. þm. bera fram frv. um að leggja starf þetta niður, sem kostar ríkissjóð og bankana 30—40 þús. á ári, þá er ég fús að ræða það við hann, en hinsvegar mun ég ekki taka fulla afstöðu til þess fyrr en ég hefi fengið umsögn stjórnar Fisksölusamlagsins um málið.

Út af þeim ummælum, sem féllu hjá þessum hv. þm., að gæta yrði alls sparnaðar í þessu efni, vil ég taka það fram, að ég fyrir mitt leyti tel það alveg rétt, sem fram kom á fiskiþinginu, að ekki megi horfa í kostnaðinn, þegar um jafnmikið þjóðþrifamál sé að ræða sem þetta.

Ég vil svo að endingu þakka hv. sjútvn. fyrir það, hvernig hún hefir tekið þessu máli. Að hún stendur óskipt um frv., ber vott um skilning hennar á ástandinu eins og það raunverulega er. Það er þeim mun hjákátlegra, að hv. þm. N.-Þ. skuli leyfa sér að telja till. mínar í frv. veigalitlar og vott um skilningsleysi mitt og lausatök á málinu.