30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Hv. 2. þm. Skagf. kannaðist við, að hann hefði ekki mikla þekkingu á þessu máli. Án þess að fara frekar út í það, þá tel ég, að hv. þm. hafi þar rétta þekkingu á sjálfum sér. Sama máli gegnir um hv. þm. N.-Þ. Hann virðist líka allófróður um þessi mál. Mun ég því ekki hafa fyrir því að svara ýmsum ummælum hans, sem hann þyrlaði upp án minnstu þekkingar á því, sem hann var að tala um. Hann sagði eins og margir fleiri, að fiskimatinu væri mjög ábótavant. En vilji hann nú og þeir, sem þessu hafa haldið fram, líta svo sem 10—15 ár aftur í tímann, þá hljóta þeir að viðurkenna, að á þessu tímabili höfum við Íslendingar rýmt Norðmönnum út af saltfiskmarkaðinum í Barcelona og Norður-Spáni. Sömuleiðis höfum við unnið af þeim markaðinn í Portúgal. Þessir miklu ágallar á fiskimatinu eru því mest ryk, sem verið er að blása upp, sérstaklega út af mati fiskimatsmannsins á Eyrarbakka. Mann þann þekki ég vel og veit, að það er mesti heiðursmaður, sem ekki má vamm sitt vita. Þó að honum hafi ef til vill orðið einhver skyssa á í þetta eina sinn, þá er sízt gerandi slíkt veður út af því sem þetta. Á þessum tíma, sem við höfum einmitt verið að vinna fiskmarkaðinn af Norðmönnum, hafa oft komið fyrir slík mistök sem þessi. Hafa Norðmenn þó haft sinn yfirfiskimatsstjóra allan þann tíma. Að vera að tala hér um svik o. fl. í þessu sambandi, eins og gert var á fiskiþinginu og víðar, er því með öllu óviðeigandi. Annars hefir það farið svo í þessu máli, sem oft vill verða, að þeir hafa talað hæst og haft stærst orðin, sem minnst vit hafa haft á málinu.

Hv. þm. G.-K. vil ég segja það, út af ummælum, sem hann hafði um afskipti fiskifulltrúans á Spáni af matinu hjá okkur, að ég get lánað honum tvennar leiðbeiningar um fiskverkun og fiskimat, sem samdar voru á fiskimatsmannafundi 1933, þar sem fiskifulltrúinn var mættur. Bera þær leiðbeiningar sízt keim af vanþekkingu á þessum málum. Þvert á móti tel ég þar saman koma mikla þekkingu, sem á megi byggja. Reglur þessar og leiðbeiningar hafa ekki verið staðfestar af stjórnarráðinu, og er því ekki eins skylt að fara eftir þeim sem skyldi. Úr því er aftur bætt með brtt. okkar hv. þm. V.-Ísf.

Hv. þm. Vestm. lagði mikið upp úr eftirlitsferðum, sem þessi matsstjóri ætti að fara út um land. En ég hefi ekki mikla trú á, að þær komi að því gagni, sem til er ætlazt. Það er nefnil. engin vissa fyrir, að honum verði sýnd öll sú vara, sem til er á hverjum stað. Hann getur því ekki dæmt um nema það eitt, sem hann sér. Setjum svo, að hann segi, að varan sé góð, en svo komi matsmaðurinn og segi hið gagnstæða. Eigandinn ber þá vitanlega álit matsstjórans fyrir sig og vill ekki gera sig ánægðan með dóm matsmannsins. Á þennan hátt er hægt að láta fjórðungsmatsmennina missa ábyrgð fyrir starfi sínu. Þetta tel ég ókost við ferðir matsstjórans út um land.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að matsstjórinn þyrfti að hafa þekkingu á fiski hér heima, til þess að vita, hvernig hann ætti að vera þegar hann kæmi til neyzlulandanna. Við þetta er það að athuga, að sá fiskur, sem fluttur er hér um borð og lítur vel út eftir langa geymslu, breytist mjög er hann kemur í heitara loft og getur verið orðin óþekkjanleg vara, er hann kemur til Suðurlanda.

Það hefir legið orð á því, að fiskifulltrúinn hefði ekki nægilegt fé til þess að starfa með suður á Spáni, og mikið verið talað um það, að þar þyrfti hann að dveljast mikið til á sama stað, vegna þess að hann fengi hér um bil ekkert fé til ferðakostnaðar. En hvað mundi þá fást af ferðapeningum handa tveim mönnum suður á Spáni, matsstjóranum og fiskifulltrúanum? Ég er hræddur um, að það yrði eitthvað lítið úr þessum ferðapeningum, sem líka væri eðlilegt, því það væri alveg óforsvaranlegt að hafa þá tvo á ferðalagi þar fyrir sunnan, sem yrði, ef þetta frv. verður samþ.

Ég get sagt hv. þm. Vestm., að þetta er alvarlegt mál, ekki fyrst og fremst fyrir það, að matinu sé ábótavant, en það er alvörumál, að vöruvöndun og vörugæði hjá okkur eru í afturför nú á allra síðustu árum. Og ég get sagt hv. þm. eitt dæmi upp á það. Ein tegund skipa í fiskiflotanum hefir nú í seinni tíð breytt mikið sinni veiðiaðferð, — það er línubátarnir. Nú hafa þeir þá aðferð að byrja að leggja línuna um kl. 11 á kvöldin, og eru svo ekki búnir að leggja hana fyrr en k1. 4 um nóttina. Þegar þeir fara svo að draga hana aftur, byrja þeir á þeim enda línunnar, sem þeir enduðu á, og koma því ekki að fyrri endanum á línunni fyrr en síðast, og er þá mestöll línan búin að liggja frá 8 til 10 klst., þegar hún er dregin. Þá er fiskurinn á línunni fyrir löngu dauður, en þá er hann eins og kunnugt er langtum verri vara heldur en þegar hann er dreginn lifandi. Þannig er línufiskurinn nú langtum verri vara en áður. Áður, meðan lóðirnar voru stuttar, var línufiskurinn ein af beztu sjávarvörunum. Ég tel víst, að af þessari breyt. á vörunni stafi mikil hætta og að hún eigi mikla sök á minnkandi vörugæðum.

Hv. sjútvn. hefir ekki séð sér fært að taka neitt af mínum till. til greina. Ég gæti sætt mig við það, ef það stafar af því, að þær komu það seint fram, að hv. n. var búin að skila sínu áliti, ef til vill án þess að leggja mikla vinnu í málið, og er það fyrirgefanlegt, þó n. haldi fast við sitt álit og sé treg til að breyta því. En þess er þá meiri von, að hv. Ed. hugleiði og rannsaki málið og athugi, hvort ekki er hægt eitthvað að færa saman af þeim till., sem fyrir liggja, þó svo, að hið bezta í þeim öllum sé fullnotað. Ég er sannfærður um, að fiskifulltrúinn á Spáni getur tekið þetta starf að sér. Hitt er annað mál, hvort hann er starfinu vaxinn, því það er ég ekki alveg viss um.