30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

71. mál, fiskimatsstjóri

Sigfús Jónsson:

Ég þarf ekki að taka mér nærri, þó mér sé borið það á brýn, að ég hafi ekki vit á þessum málum. — Annars sagði hv. þm. G.-K., að matið væri slæmt, en hv. 1. þm. Rang. sagði aftur á móti, að matið væri gott, fiskurinn væri bara illa verkaður í hendurnar á matsstjórunum. Þarna stangast þeirra röksemdir greinilega.

Hv. þm. G.-K. segir, að þessar till. okkar séu fjarstæða ein. Ég verð að halda því fram, að ef yfirfiskimatsmaður getur ekki haft það gott vit á þessum hlutum, sem nægir til þess að vel fari, þá efast ég um, að matsstjóri hafi frekar aðstöðu til þess að afla sér þeirrar þekkingar, sem nauðsynleg er.

Hv. þm. sagði líka, að ef matsstjórar hefðu lág laun, þá hefðu þeir ekki aðstöðu til þess að afla sér þekkingar. En hafa þá fiskimatsmenn aðstöðu til þess? Hvernig eiga þeir að afla sér þekkingar með þeim lágu launum, sem þeir hafa? Annars er ég ekki á því, að há laun séu skilyrði fyrir því, að menn ræki vel stöður sínar. Ég þekki mörg dæmi þess, að menn með lágum launum rækja eins vel stöðu sína eins og hálaunamenn, svo það er engin trygging fyrir því, að maðurinn sé trúr, þó hann sé á háum launum.

Ástæðan til þess, að ég gerðist meðflm. að þessari brtt., var sú, að ég féllst á þá skoðun, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Rang., að það mundi ekki verða verulegt bjargráð að stofna þetta nýja embætti. En það má vel vera, að mér hafi skjátlazt, því mér fannst hv. 1. þm. Rang. vilja líka hnýta í okkur fyrir þessa brtt., sem gengur þó í þá átt, sem mér heyrðist á ummælum hans, að hann vildi að málið snerist um, að kostnaðurinn yrði ekki mikill til þessa embættis, sem ætti að vera nokkurskonar topphúfa eða auglýsing til að flagga með framan í neytendurna.

Hv. þm. Vestm. var að tala um það, að utanfarir fiskimatsmanna væru nauðsynlegar, til þess að þeir fengju nasasjón af þeim kröfum, sem neytendurnir gerðu. Ég býst við, að fulltrúinn á Spáni, sem dvelur þar að staðaldri, ætti að geta gefið allar nauðsynlegar upplýsingar, svo það ætti að vera næg trygging fyrir því, að yfirmatsmennirnir gætu vitað, hvers neytendurnir krefðust.

Ég skal taka það fram, þar sem talað hefir verið um kala til sjávarútvegsins í sambandi við þessa brtt., að hún er einungis fram komin af því, að við höfum ekki trú á því, að þetta embætti komi að því gagni, sem til er ætlazt, og viljum því ekki ausa miklu fé í það að óþörfu. — Ég skal svo ekki lengja umr. um þetta mál meira að sinni.