30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Munurinn er bara sá, að í frv. er farið fram á það, að matsstjóri sé skipaður, sem hefir höfuðverksvið sitt hér heima, en sé aðeins í 2 mánuði á ári hverju erlendis. M. ö. o. ætti hann að vera 10 mánuði hér heima til þess að stunda sitt starf, ferðast um landið og ráðgast við matsmenn og fiskimenn. Þessi er hugsunin í frv. En í brtt. hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. Rang. er gert ráð fyrir, að fiskifulltrúinn á Spáni, sem hefir þar sitt aðsetur, eigi að bregða sér hingað í mesta lagi 3 mánaða tíma árlega til þess að inna af höndum starf matsstjóra. Í till. er í raun og veru ekki gert ráð fyrir nokkurri breyt. hvað matsstarfið snertir. Það er gert ráð fyrir því, að fiskifulltrúinn geti brugðið sér hingað heim til þess að gegna starfinu. Höfuðmunurinn er sá, að við viljum gera starfið hér á landi að aðalatriði, en þeir vilja, hv. flm. brtt. á þskj. 240, gera það að aukaatriði. — Það barst í tal meðan á 2. umr. stóð milli mín og hv. sessunautar míns, þm. V.-Ísf., að e. t. v. væri hægt að sameina þessi störf, fulltrúastarfið á Spáni og matsstjórastarfið. Ég tók því þá ekki fjarri, að þetta gæti komið til mála. En síðan ég sá þessa brtt. og heyrði, að alveg ætti að hafa endaskipti á hlutunum og breyta grundvelli frv., hefi ég alls ekki getað aðhyllzt þessa hugmynd í því formi, sem hún nú er. Sízt þegar það er athugað, að sjútvn. hefir borið saman ráð sín og orðið sammála um að halda fast við frv. eins og það er.