30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Það eru aðallega tvær fyrirspurnir til mín frá hv. þm. Vestm., sem ég þurfti að svara. Önnur var sú, hvort ég væri tilbúinn að setja l. um það, hvernig ætti að fara með fisk um borð í skipi. Ég verð að játa, að slíkt er mjög vandasamt að ákveða í l., og vart fær leið. En ég er viss um, að með því að setja reglur, sem leiðbeindu mönnum í meðferð fiskjar, mundi vinnast mikið á. Auðvitað er mikið aðhald í matinu, það er ég ekki í vafa um. Matið hefir verið strangt og orðið til þess, að við höfum fengið traust kaupenda og haft af því hin beztu not. — Hin fyrirspurnin var um það — og hv. þm. G.-K. spurði raunar hins sama — hvort ég vildi vera með í því að leggja niður fiskifulltrúastarfíð á Spáni. Ég verð að segja það, að ég er þess albúinn, ef það á að henda, að tveir menn verði þar á ferðinni í sömu erindagerðum. Því að vitanlega er það ekki nándarnærri nóg starf fyrir einn, hvað þá tvo menn, að kynna sér kröfur neytendanna og kvartanir þeirra. Þessir hv. þm. báðir tveir, hv. þm. Vestm. og hv. þm. G.-K., hafa slegið fram þeim höfuðmismun milli minna skoðana og þeirra, að ég vildi hafa fiskifulltrúann á Spáni 10 mánuði ársins og 2 mánuði hér heima, en þeir vildu leggja aðaláherzluna á starfið hérlendis. En ég hefi bara hvergi á þetta minnzt. Í brtt. er tekið fram, að hann eigi að vera hér heima eins lengi og talið er nauðsynlegt til fundahalda með fiskimatsmönnunum og til eftirlitsferða. (JJós: Hv. meðflm. till. lýsti því þannig, að það væri álitið, að 2—3 mánuðir myndu nægja). Hver, sem þessar brtt. les, sér undireins, að ekki er þar einn orði á þessa eða aðra tímalengd minnzt. Með brtt. okkar tel ég gerða möguleika til fullkomins eftirlits og túlkað fyllilega það, sem vakir fyrir flm. frv. og hv. sjútvn., nfl. að skipta þessu starfi milli matsmannanna hér heima og þess manns, sem á að kynna sér kröfurnar í neyzlulöndunum. — Hv. þm. Vestm. sagði, að í okkar till. fælist raunverulega engin breyt. frá núv. ástandi. Það er að vísu ekki sú breyt., sem kemur fram í frv., sem með okkar till. er gerð, en þó sú breyt., að hún nægir til þess, að við getum haft full not af þessum manni. Honum er nfl. eftir okkar till. ætlaður ferðakostnaður nægilegur, en það hefir tilfinnanlega skort hjá þeim, sem með völdin hafa farið, að fyrir því væri séð, til þess að hægt sé að kynna sér það, sem nauðsynlegt er, heima og erlendis. Þetta gekk svo langt, að þegar Helgi Guðmundsson hvarf hingað heim, gat hann þess, að vegna þess að hann hefði enga ferðapeninga fengið, hefði starf hans ekki borið fullkominn eða nægilegan árangur, og þegar Fisksölusamlagið tók til starfa, taldi hann starf erindrekans að miklu leyti orðið óþarft. Það, sem við leggjum til með okkar brtt., er ekkert annað en það, að gera þennan mann að millilið milli neytenda og seljenda, er kynni sér á báða bóga, hvernig allt, sem að þessu lýtur, má bezt úr hendi fara. Ég álít því málinu bezt borgið með því að sameina störfin. Ef ekki verður svo gert, að settur verði matsstjóri með svipuðu valdi og fiskifulltrúinn, þá að leggja fiskifulltrúastarfið niður.

Því þarf ekki að svara, sem hv. þm. N.-Þ. var að tala um, að ég hefði ekki rétt upp hendina eins og aðrir flokksmenn mínir hér í hv. d., því að hv. þm. G.-K. er réttilega búinn að svara því með því, að það séu engin handjárn á þm. Sjálfstfl. Og ég get bætt því við, að sjálfstæðismenn eru engar spiladósir, sem ekki þarf annað en láta fimmeyring í til þess að þeir geri þetta og hitt. Mér hefir sýnzt, að fimmeyringurinn, sem dugir til þess arna, hafi gert ýms skemmdarverk í þjóðfélaginu, og ég vil segja honum það, sem ungum þm., að það er ekki heillavænlegt að vera æfinlega spiladósin á Alþingi.