30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

71. mál, fiskimatsstjóri

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil einungis vekja athygli á því, að hv. þm. G.-K. hefir skotið sér undan því að gera þann samanburð, sem ég benti honum áðan á, að lægi nærri að gera, þegar hann er að gera samanburð á launum matsstjórans eftir till. okkar hv. 2. þm. Skagf. og launum ýmsra starfsmanna ríkisstofnana, sem sé samanburð á launum forstjóra Kveldúlfs og verkamannanna, sem hjá því fyrirtæki vinna, og láta okkur heyra niðurstöðuna, og komast að raun um, hvort mismunurinn þar væri réttur. Hv. dm. hafa veitt því athygli, að þm. gerði þetta ekki, heldur gerði hann samanburð á launum sjómanna hjá Kveldúlfi og annara sjómanna. Annars fer hv. þm. alltaf jafnilla út úr því, þegar hann er að reyna að sýna fram á afstöðu sjútvn. til brtt. þeirra, sem hér hafa verið fram bornar, því að hv. þm. Vestm. gat ekki tekið til greina till. hv. 1. þm. Rang. af því, að hann hafði sjálfur gerzt meðflm. að frv. Ef þetta er svona hjá Sjálfstfl., þá gildir líka hið sama um framsóknarmennina í n. og sósíalistana, þar sem þeir hafi þegar verið búnir að taka ákveðna afstöðu gagnvart frv. með þeim breyt., sem n. hafði á því gert. Þetta er alveg ljóst mál, og hv. þdm. geta séð, hve gersamlega hv. þm. G.-K. hefir orðið að gefast upp við að halda fram þeirri firru, sem hann kom með viðvíkjandi till. okkar hv. 2. þm. Skagf. í þessu máli.

Ég skal svo ekki um þetta segja öllu meira.

Ég tel bæði till. okkar 2. þm. Skagf. og till. hv. 1. þm. Rang og V.-Ísf. til bóta frá því, sem frv. nú er, og ég vænti þess, að á frv. verði gerðar nauðsynlegar breyt., og þá teknar til greina till. okkar hv. 2. þm. Skagf., því að ég er þeirrar skoðunar, að þar sé lagt inn á heilbrigðan grundvöll í þessu máli, þar sem lögð er áherzla á að bæta fiskimatið innanlands, en talið, að fyrir hinn sé sæmilega séð, að fiskifulltrúinn á Spáni kynni sér kröfur neytendanna í markaðslöndunum.

Ég ætla ekki út í frekara karp við hv. þm. G.-K. en hér er orðið. Hv. þm. hefir alveg einkennt sig í þessu máli vegna framkomu sinnar. Hann hefir gengið fram fyrir skjöldu í því ósæmilega athæfi að gera sér leik að því að brjóta þingsköp og það velsæmi, sem hér á að ríkja. Þm. hefir hvað eftir annað óhlýðnazt forseta og virðist setja sinn metnað í að haga sér sem strákslegast. Það er því ekkert tiltökumál, þótt umr. frá hans hendi séu nokkuð á ýmsa vegu, og ætla ég mér ekki út í þá sálma við hann að þessu sinni. En ég vil gefa honum það fyrirheit, sem ég mun efna, þótt hann efndi ekki sitt loforð áðan í minn garð, að ég mun tala við hann síðar.