19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

71. mál, fiskimatsstjóri

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. þm. N.-Ísf. tók fram, að komið hafa fram talsvert miklar kvartanir, bæði á þessu ári og áður, frá Spánverjum sérstaklega, um það, að á fiski, sem héðan hefir verið fluttur til Spánar, hafi komið fram undirvigt, og einnig að hann hafi ekki verið nógu góð vara. Mér er ekki vel kunnugt um það, hve mikið hefir kveðið að þessum kvörtunum undanfarið, og ég get því ekki gert fullnægjandi samanburð á því, hvernig ástandið er nú í þessu efni, miðað við það, sem verið hefir undanfarið. En mér er nær að halda, að öllu meira hafi kveðið að þessum kvörtunum nú á síðasta ári heldur en á nokkrum árum þar á undan. Það er einnig rétt, að frá fiskkaupmönnum á Spáni — að ég ætla frá félagi smásala þar — kom allrækileg kvörtun í fyrrahaust, og þar með ósk um, að sú breyt. yrði gerð, að fenginn yrði sérstakur maður með sérþekkingu á fiski og fiskverkun, og spánskir fiskinnflytjendur skyldu samþ. þennan mann, og hann skyldi svo sitja á Spáni og skera úr öllum deilumálum út af fiskinnflutningi okkar á Spáni. Með þessari ósk þótti mörgum hér býsna langt gengið. Ég held, að það sé álit allra hér, sem við fiskverzlun fást, að alls ekki sé hægt fyrir okkur að sinna þessari kröfu, því að það væri sama sem að leggja niður fiskimatið hér og leggja það undir Spánverja.

Þegar gengið var frá samningum við Spánverja á síðasta vori, mun hafa verið gengið út frá því, að sá ágreiningur, sem risið hafði út af fisksölunni, og þar á meðal þetta um fiskimatið, mundi niður falla, þegar samningarnir væru gerðir, og var því þessu máli ekki hreyft frekar hér heima og ekki svarað því erindi, sem ég drap á áðan frá spánverskum fiskikaupmönnum í fyrrahaust. Nú fyrir skömmu kom kvörtun frá félagi smákaupmanna þar syðra, þar sem ítrekuð var hin sama krafa um, að þeir samþykktu mann, sem ætti að sitja á Spáni og skera úr öllum deilumálum út af fiskinnflutningi okkar þangað. Ég sendi símskeyti til Helga Briems og tjáði honum, að nú lægi frv. fyrir þinginu um fiskimatsstjóra, og að ákvæðum matsl. myndi verða framfylgt og að þeir, sem vanræktu starf sitt, myndu verða settir frá starfi, og hefir það verið gert t. d. á Stokkseyri. Það kom svo símskeyti frá Helga Briem, þar sem hann segir, að þetta muni verða til þess, að Spánverjar sætta sig í bili við það að bíða átekta. Og konsúlatinu hérna hefir verið gefin greinileg skýrsla. Að þessu hvorutveggja athuguðu, að misfellur hafa komið fram á matinu, og þær eru jafnvel meiri nú en undanfarið, og að það hafa komið fram ákveðnar kröfur frá Spánverjum, þá held ég, að sé hyggilegt að setja þessi l. um fiskimatsstjóra. Ég fullyrði ekkert um það, hvort það veldur breytingu, að hafa þetta sérstakt embætti, eða velja hina leiðina, og láta fiskifulltrúann á Spáni gegna þessu starfi jafnframt fulltrúastarfinu þar, en þá verður auðvitað eitthvað að draga úr starfi hans niðri á Spáni. Það er gert ráð fyrir því, að Helgi Briem komi heim einu sinni eða tvísvar á ári og haldi fund með yfirmatsmönnum og ræði við þá um allt, sem gera þarf til þess að fiskurinn sé sem bezt úr garði gerður. Ég get ekki séð, þó að þessi heimild sé í l., að þá megi ekki gera annað af tvennu, að skipa sérstakan mann í þetta embætti, eða láta fiskifulltrúann á Spáni gegna því jafnframt sínu starfi þar. Ég sé ekki, að það þurfi neitt að óttast, að þessi heimild rýri gildi l. Ég segi fyrir mig, að ég myndi ekki nota heimildina nema að hafa kynnt mér sérstaklega, hvort það myndi horfa annan veg við á Spáni heldur en ef skipaður væri sérstakur maður. Ef það sýndi sig, að Spánverjar yndu því betur, þá er sú upphæð, sem hér er um að ræða, svo smávægileg, að ekki dugir í það að horfa. Ég skal ennfremur upplýsa, að það hittist nú svo vel á, að Helga Briem er von heim um þann 25. þ. m., og um sama leyti mun Sveinn Björnsson sendiherra koma, og tel ég rétt, að ekki verði gengið frá frv. fyrr en þeir eru komnir. Það má vel vera, að þeir geti gefið einhverjar upplýsingar, sem vert sé að taka tillit til áður en frv. er afgr. Það er ekki gott að segja neitt ákveðið um það, hversu auðvelt muni vera að fá mann, sem hefir til að bera þekkingu á þessu sviði. Ég býst við, að það verði torvelt að fá mann, sem segja má um, að hafi fullkomna þekkingu á báðum hliðum málsins, bæði verkun fiskjarins og hverjum breytingum hann tekur við flutninginn til Spánar, þar sem hann kemur í annað loftslag, og þekki jafnframt kröfur neytendanna á Spáni. Ég held, að maðurinn þurfi sérstaklega að vera kunnugur kröfum neytendanna og því, hverjum breytingum fiskurinn tekur við flutninginn til markaðslandanna. Hér heima er sem sé fjöldi manna, sem kann nokkuð til verkunar, án þess að vita um kröfur neytendanna á Spáni. Með þetta fyrir augum gæti verið heppilegra að fela fiskifulltrúanum þetta starf. En eins og ég hefi tekið fram, þá mun ég ekki gera það, nema rannsakað hafi verið sérstaklega, hvort Spánverjar vilja heldur.