19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

71. mál, fiskimatsstjóri

Magnús Guðmundsson:

Ég sé á brtt. meiri hl. n., að hann ætlast til, að þetta starf verði falið fiskifulltrúanum á Spáni. En ég veit ekki, hvort n. hefir leitað sér upplýsinga um það, hvort bankarnir vilja halda áfram að borga honum þann hluta, sem þeir hafa borgað, ef hann verður gerður að fiskimatsstjóra. Það er vitað, að þessi sendimaður er ákaflega dýr. Hann kostar okkur 30 þús. kr. á ári. Af þessari upphæð greiða bankarnir 1/3 hvor. Ef nú bankarnir vilja ekki greiða honum þetta, þegar búið er að gera hann að fiskimatsstjóra, þá er auðsætt stórt tap við að skipa ekki sérstakan mann í það starf. Ég vildi vita, hvort meiri hl. n. hefir athugað þessa hlið málsins.

Ég er sammála hæstv. atvmrh. um það, að nauðsynlegt er að gera einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi matinu, svo að Spánverjar geti verið ánægðir. Á meðan Þorsteinn Guðmundsson stjórnaði matinu, var engin óánægja á Spáni. Það var hans verk, að Spánverjar viðurkenndu okkar mat sem fyrirmynd. Á síðustu árum hefir á Spáni myndazt óánægja út af fiskimatinu, og er það vafalaust mikið að kenna yfirmatsmönnunum. Þessar kvartanir eru sjáanlega á rökum byggðar, sumar þeirra, og fara vaxandi. Það er því sjálfsagt að gera allt, sem unnt er, til þess að fyrirbyggja frekari óánægju. Ég tek hér alveg í sama streng og hæstv. atvmrh.

Hér er um stórt mál að ræða, ef það sýndi sig, að við værum að spila úr höndum okkar markaði fyrir aðalframleiðsluvöru okkar, en um það skal ég ekkert fullyrða að svo stöddu.

Það þarf ekki að ræða um það, hvaða maður verði fenginn í þetta starf, en ég veit, að mörgum dettur í hug fiskimatsmaðurinn frá Seyðisfirði. Ég held fyrir mitt leyti, að sá maður myndi vera færastur. En ég skal ekki fara út í það frekar. Ég vil benda á það, að þó að sendimaðurinn á Spáni sé kunnugur kröfum neytenda, þá vantar hann annað, sem þarf til þess að vera fiskimatsstjóri. Fiskimatsstj. þarf t. d. að geta gefið leiðbeiningar um meðferð fiskjarins frá byrjun, svo að hægt sé að fyrirbyggja, að skemmdir geti komið fram síðar. Þetta er ómótmælanlegt, enda lítur H. Briem sjálfur svo á, að sitt verkefni sé að gefa leiðbeiningar um kröfur neytendanna. En hann segist ekki geta gefið upplýsingar um það, hvernig eigi að meðhöndla fiskinn frá byrjun, svo að hann verði eins og neytendurnir óska, að hann sé.