04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Sjútvn. hefir orðið sammála um afgreiðslu á þessu frv. í því formi, sem það er á þskj. 627. Eins og kunnugt er, var frv. upphaflega flutt af tveimur hv. þdm. í Nd. var það borið fram í þeim tilgangi, að mótoristar fengju réttindi til þess að vinna við stærri vélar en nú er, og að réttindin yrðu aukin frá 150 hestafla vél upp í 500 hestafla. En sjútvn. Nd, taldi ekki fært að ganga svo langt sem flm. fóru fram á, og lagði til, að réttindi vélstjóra yrðu aukin upp í 250 hestafla vél. Aftur á móti hefir sjútvn. þessarar d., eftir að hún hefir kynnt sér málið rækilega, álitið bæði rétt og nauðsynlegt að auka réttindi mótormanna að nokkrum mun meira en frv. ákveður, eða upp í 400 hö., og hefir n. fært ástæður fyrir því í nál. En við þær ástæður hygg ég að megi bæta því, að háværar kröfur hafa borizt um það bæði frá mótoristum og útgerðarmönnum, að þessi réttindi væru aukin fyrir vélstjóra, og þeir hafa jafnvel farið fram á, að þegar vöntun væri á vélstjórum, þá mætti ráðuneytið veita undanþágu frá lögunum, og heimila þeim mönnum, sem aðeins hafa réttindi til að stýra 150 ha. vélum, að fara með stærri vélar. En ég lít svo á, að það sé vandfarið með slíkar undanþágur og ekki viðeigandi að heimila þær í lögunum. Þó er mér kunnugt um, að það hefir verið fullkomin þörf á því undanfarið, að fá undanþágur fyrir vélstjóra til að fara með 150—400 ha. vélar. Ef til vill hefir ekki alltaf staðið á því að fá 1. vélstjóra, heldur í sumum tilfellum 2. vélstjóra. Enda hefir það komið til mála, að nauðsynlegt væri að veita útlendum mönnum leyfi til að vinna við þessar vélar í ísl. skipum. En ég er þeirrar skoðunar, og má segja það einnig fyrir munn n., að til þess eigi ekki að koma, þegar nóg er af vel hæfum mönnum í landinu til þessara starfa, sem aðeins vantar réttindi til þeirra.

Þungamiðja þessa máls er sú, hvort það veitir nægilegt öryggi, að þeir menn fari með stærri vélar en 150 ha., sem ekki hafa aðra bóklega þekkingu í þessum efnum en námskeið Fiskifélagsins veita, þó þeir hafi nokkurn verklegan kunnugleik. Samkv. till. okkar á því að herða talsvert á þeim skilyrðum, er veita vélstjórunum rétt til þess að stjórna stærri vélum en þeir hafa leyfi til nú, þannig að þeir, sem fá rétt til að fara með stærri mótorvél en 150 ha., verða — auk þess að hafa stundað vélgæzlu við samskonar vél a. m. k. í 6 mánuði — að hafa lokið verklegu og munnlegu prófi samkv. reglugerð, sem atvmrh. setur. N. lítur svo á, að með því móti megi tryggja fullkomið öryggi í þessu efni, þannig að hæfustu mennirnir geti aðeins komið til greina við hinar stærri vélar. Eins og skýrt er frá í nál., og n. hefir sannfærzt um af viðtali við sérfróða menn, þá er stækkun mótorvélanna oftast í því fólgin, að bulluhylkjum er fjölgað, svo að ekki þarf meiri kunnáttu til að meðhöndla mörg þeirra en eitt; er þá um að ræða 3—4 bulluhylki í frá 150 upp í 400 ha. vélum. Vandinn er ekki meiri, þó að hylkjunum fjölgi; það er aðeins orkan, sem eykst við fjölgun þeirra. Ennfremur halda vélamenn því fram, að það sé jafnvel vandaminna að gæta stærri véla en hinna smærri. Færa þeir ýms rök fyrir því, t. d. að smærri vélarnar séu fínni og smágerðari, og þess vegna þurfi meiri nákvæmni í meðferð þeirra.

Önnur ástæðan, sem þeir bera fram fyrir því, að vélgæzlumenn þurfi að fá fyllri réttindi, er sú, að það sé yfirleitt vöntun á mönnum, sem hafi réttindi til að fara með vélar, sem eru stærri en 150 ha. Nú er sú stefna hafin í vélbátaútveginum, að yfirleitt er farið að nota stærri mótorvélar en áður, þegar lögin voru sett 1924. Vélskipin stækka yfirleitt og þurfa þá orkumeiri vélar. Ég býst við, að því verði svarað, að til sé í landinu sú stétt manna, sem ætlazt er til samkv. 1. frá 1924, að fari með þessar vélar, þ. e. a. s. lærðir gufuvélavélstjórar. En ég hygg, að þeir hafi aðallega lært og undirbúið sig til þess að fara með gufuvélar, og að hin verklega þekking þeirra sé einkum fólgin í því að búa þá undir stjórn gufuvéla. Í hópi vélstjóra eru líka til menn, sem ekki hafa fengið verklega æfingu, en stunda þá aðra atvinnu. Nægilega margir eru vitanlega um vélstjórastöður á gufuskipum, en þeir mundu ekki vilja hverfa frá þeim störfum til þess að taka við vélgæzlu á minni skipum, oftast fyrir lægri laun. Það má því ekki reikna með gufuvélstjórastéttinni til þess að taka við þessum störfum, meðfram af þeirri ástæðu einnig, að þeir fá lakari aðbúnað, og jafnvel skemmri atvinnutíma. Ennfremur er gert ráð fyrir því í lögunum, að þeir, sem fara með vélar yfir 400 ha., þurfi að hafa gufuvélarpróf og þar koma gufuvélstjórarnar einir til greina, enda þá gert ráð fyrir, að vélarnar séu Dieselvélar af fullkomnustu gerð.

Þetta eru höfuðrök n. fyrir því, að rétt þykir að auka vélstjóraréttindin svo sem ákveðið er í till. sjútvn. Og eins og sjá má á síðustu málsgr., sem n. bætti við, þá verða vélstjórarnir að sanna, að þeir séu jafnfærir til starfsins og þeir, sem mikla undirbúningsmenntun hafa bæði bóklega og verklega samkv. lögunum og væntanl. reglugerð. Að þeir hafi þá þekkingu á byggingu vélanna og í aflfræði, að þeir viti, hvað má bjóða þeim. Fyrir þessu verða þeir að gera glögga grein, með skýrum rökum, við þá trúnaðarmenn, sem þeir taka próf hjá; annars geta þeir ekki öðlazt réttindin, sem frv. veitir, ef að lögum verður. En þeir vélstjórar, sem standast prófið, eiga að fá þau að sjálfsögðu. Á bak við þessar kröfur um aukin réttindi standa allir þeir, sem unnið hafa að vélgæzlu undanfarin ár, er mér óhætt að segja. Ég hefi hér á borðinu hjá mér áskoranir frá 44 vélgæzlumönnum á Akranesi og formönnum vélbáta; frá Vestmannaeyjum eru hér 88 áskoranir frá sömu stéttum þar, og úr ýmsum fleiri veiðistöðum hér í grennd, að viðbættum áskorunum frá vélstjórum og bátaformönnnm á Ísafirði, Akureyri og Siglufirði, sem allir krefjast aukinna réttinda fyrir vélgæzlumenn.

Ég skal játa, að till. þessara manna er dálítið mismunandi, eftir því hvaðan þær eru, en n. hefir samræmt þær hér í eina heild. Vænti ég, að hv. þd. geti fallizt á skoðanir og till. sjútvn. og skilji, að þar er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur.