04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Magnús Guðmundsson:

Ég tók svo eftir í ræðu hv. frsm., að hann væri á móti því að veita nokkrar undanþágur frá vélgæzlulögunum, en tók það hinsvegar fram, að slíkt hefði áður verið gert, og er það rétt. En þegar undanþágur hafa verið veittar, hefir það verið eftir tillögum Vélstjórafél., og einungis til þess að fyrirbyggja, að útgerðin biði tjón af. Nú vil ég spyrja hv. frsm., hvort það sé meiningin að taka með öllu fyrir slíkar undanþágur. Ég vil leiða athygli að því, að verði það gert, þá getur það haft í för með sér stórskaða fyrir útgerðina og einnig þá, sem á skipunum vinna. Ég get því ekki verið því meðmæltur, að fyrir þetta sé alveg tekið, því að alltaf geta komið fyrir tilfelli, sem brýn nauðsyn krefur, að hægt sé að taka tillit til, og veita undanþágu, ekki sízt þegar verið er að setja ný l., og menn ekki í einu vetfangi búnir að öðlast réttindin samkv. þeim.