04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. 1. þm. Reykv. leit svo á, að hér væri of langt gengið í réttindaukningunni, og vitnaði máli sínu til stuðnings í sjútvn. Nd. Ég dró enga dul á það, hver hefði verið skoðun þeirrar hv. n., en hinsvegar er mér ekki grunlaust um það, að nokkur hluti hennar — eða e. t. v. meiri hl. hennar — líti nokkuð öðruvísi á málið nú, eftir að hafa kynnt sér það nánar en hún gerði þegar hún afgr. sínar till. Í umr. innan n. og í viðtali við ýmsa menn upplýstist það, sem e. t. v. hefir breytt áliti n. á málinu. Hv. þm. minntist á, að Vélstjórafél. myndi ekki fylgjandi þessari till. Ég býst við, að hann hafi rétt fyrir sér í því, að yfirleitt sé Vélstjórafél. mótfallið réttindaaukningu á þennan hátt, upp að svona háu marki, því að það er ekki svo, að félagið vilji alls enga réttindaaukningu frá því, sem nú er. Ég ætla ekki að fara að rökræða það við hv. þm., hvað hér getur legið á bak við hjá félaginu. Ég býst við, að þeir vilji tryggja öryggið við vélgæzluna sem allra mest, og því er ég fullkomlega sammála. En við þykjumst hafa gengið svo frá okkar till., að ástæðulaust sé að óttast, að þess verði eigi fyllilega gætt, og það eins fyllilega og þótt lærðir gufuvélavélstjórar væru að verki, því að hin langa verklega æfing á að vera höfuðþekkingin í þessu atriði, en ekki bóklega þekkingin. Og ég býst við því, að þótt hér væri vélstjóri að tala við mig, þá myndi hann játa, að við gæzlu gufuvélar kemur verkleg þekking ekki síður að notum en hin bóklega þekking. En ég drap lauslega á það áðan, að þótt vélstjórar yfirleitt fái nokkra fræðslu um mótora í vélstjóraskólanum, þá er hún næsta lítil samanborið við þá fræðslu, sem þeir fá í meðferð gufuvéla, því að í prófreglugerðinni er gert ráð fyrir einni spurningu í verklegu og einni í bóklegu viðvíkjandi mótorvélum. Og þegar allt kemur til alls, hygg ég þar ekki meiri bóklega fræðslu en á námsskeiðum Fiskifélagsins. Að vísu skal ég játa, að þeirra þekking á vélum í heild er stórum meiri og á þeim lögmálum, sem á bak við allar vélar liggja, en í raun og veru er það hin verklega æfing hjá hverjum sæmilega starfhæfum manni, sem mest gildir í þessu efni. Og það er ekki hægt að neita því, að hjá öllum þjóðum — að svo miklu leyti sem ég hefi þar kunnugleika — þá er mjög mikið lagt upp úr verklegu æfingunni, sem menn hafa öðlazt gegnum margra ára starf og reynslu. Ég skal taka það fram, að eftir að vélarstærðin er orðin 400 hestöfl, þá er svo til ætlazt, að hin almenna vélfræðiþekking komi þar til skjalanna, en hestorka véla upp í 400 getur orðið nokkuð almenn í fiskiflotanum okkar eins og nú horfir við. Ég segi ekki, að það verði e. t. v. meiri hl., sem fer svo hátt, en búast má við mikilli notkun 300 hestafla véla. Um annað atriðið vil ég ekki ræða mikið hér, nfl. muninn á glóðarhausvélum og dieselvélum, en vil einungis geta þess, að við 150 hestafla dieselvélar hafa mótormenn unnið, og lögmál vélanna breytast ekki þótt stærðarhlutföllin aukist nokkuð. Þetta gildir jafnt um vélar á landi og sjó. Við gæzlu þessara véla í landi eru notaðir menn, sem jafnvel hafa ekki það próf, sem mótormenn hafa almennt. Þeir hafa reynzt vel. Ég gæti bent á ýmsa staði, þar sem þetta á sér stað. Um öryggið á sjónum, þá hefi ég svarað því með því, sem ég hefi áður sagt og skal fúslega endurtaka, að ég tel aldrei of mikið að því gert, sem verða má til öryggis á sjónum. Og þegar á það er litið, að einungis þeir koma til greina með að fá þessi réttindi, sem hafa verklega reynslu, þá tel ég örygginu fullkomlega borgið. Ég skal einungis tilfæra lítið dæmi. Nýlega kom hingað til lands skip með 400 hestafla mótorvél. Sem 1. vélstjóri vinnur á skipinu útlærður maður, sem um langt skeið hefir unnið við slíkar vélar, bæði áður en hann lauk vélstjóraprófi og síðan. Sem 2. vélstjóri er þar aftur á móti mótorlærður maður, sem varð að fá undanþágu til starfans. Og hinn lærði vélstjóri vill fyrir engan mun missa þennan mann úr þjónustu sinni, og sama er að gegna um skipstjórann; hans álit er eins. Ég geri ráð fyrir, að þessir menn hafi rétt fyrir sér. Hin langa verklega reynsla hefir gert þennan próflausa mann fullkomlega hæfan til starfans, og það hæfan, að 1. vélstjóri þykist ekki geta á það treyst, að jafnlærður maður og gegn fáist úr hinni lærðu vélstjórastétt. Ég skal taka annað dæmi. Það er skip hér nú í okkar lögsagnarumdæmi, sem hefir fyrir 2. vélstjóra venjulega mótorlærðan mann, og 1. vélstjóri, sem hefir próf í gufuvélafræði, vill alls ekki missa hann frá starfinu, og hans traust er það mikið, að þegar 1. vélstj. á sumarfrí, treystir hann engum betur til að fara með vélina en þessum próflausa manni. Að vísu má segja, að hér sé um sérstök dæmi að ræða, en ég hygg, að þessi tvö dæmi séu ekkert einstæð, að innan mótormannastéttarinnar séu margir menn, sem standa lærðum vélstjórum fyllilega á sporði í meðferð véla.

Ég skal beina örfáum orðum til hv. 1. þm. Skagf. út af orðum hans um undanþágurnar. Ég skal ekki bera á móti því, að nauðsyn geti verið til undanþágu í einstaka tilfelli, en um leið og alm. mótormenn öðlast réttindi til að fara með vélar allt að 400 hestöfl, þá er þörfin fyrir undanþágur sennilega horfin með öllu, því að til þess eru ekki mikil líkindi, að í okkar fiskiflota verði notaðar stærri vélar. Því að það er mér fullljóst, að gufuvélalærðir vélstjórar munu nú fara að leggja stund á að starfa við mótora, ekki sízt vegna þess, að notkun olíu í stað kola mun stórum aukast, og það jafnvel í stórum skipum. Þetta er fullkomin ástæða til þess, að hinir lærðu gufuvélstjórar fari að leggja sig eftir mótorgæzlunni meir en verið hefir. Mér er sagt af vélstjórum sjálfum, að í Danmörku sé það svo, að sá, sem ætli sér að vinna við dieselvél eða mótorvél með mikilli hestorku, verði að byrja að vinna við þessar vélar og hafa fullkomið próf í þeirri grein. Það dugir ekki að byrja sem kyndari eða annað við gufuvél, heldur verður að byrja við mótorvél til þess að öðlast hina fullkomnustu verklega þekkingu, sem þarf til þess að geta orðið mótormaður. Hið sama geri ég ráð fyrir að komi á daginn hjá okkur, og að hinir lærðu gufuvélastjórar komi þá inn í þetta starf eins og hverjir aðrir, þegar verklega þekkingin er fyrir hendi. Þegar svo er komið, mun lítil ástæða til að veita undanþágur. Hinsvegar höfum við ekki gert neinar till. um að fella undanþáguheimildina niður, svo að það er tómt mál að tala um, en ég hygg, að það sé betra fyrir hvern ráðh. að þurfa ekki að veita undanþágur, þótt fyrir geti komið, að þær séu nauðsynlegar, eins og í því dæmi, sem hent var á, að hefði undanþága ekki verið veitt, myndi starfið hafa lent á erlendum manni. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir að fella þessa undanþáguheimild úr gildi nú, og ekki fyrr en búið er, eins og hv. þm. N.-Ísf. orðaði það, að marka nánar línurnar milli undirbúnings gufuvélstjóra og mótormanna. — Það er ætlun n., að þessi löggjöf verði endurskoðuð, en þangað til það verður gert finnst okkur þessar till. eiga rétt á að vera í gildi, sem við berum hér fram.