04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki þreyta langar umr. um þetta mál. Ég get ósköp vel játað, að ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, en er hræddur um, að þeir aðrir, sem um málið hafa fjallað í d., séu ekki heldur allir miklir sérfræðingar. Mér er t. d. sagt, að heldur sé ónákvæmt að miða aðeins við hestöfl, eins og í þessum ákvæðum er gert, án þess að taka fram, hvernig þau skuli reiknuð, til þess að öruggt sé, við hvað sé átt. Það er svo, að afl vélar er miðað við ýmislegt fleira en hestöfl, og þarf þá að taka það fram, hvernig hestöflin eru reiknuð. (SÁÓ: Ekki frekar nú en í gildandi l.). Nei, það getur verið, en ég tek þetta sem dæmi um það, að sérþekkingin hjá n. muni ekki svo ýkjamikil, að mér ekki leyfist hér einnig um að tala. — Hv. þm. notar hér sömu rökin og alstaðar eru viðhöfð þegar verið er að tala gegn sérþekkingunni á einhverju sviði, að benda á einstaka menn án sérþekkingar og spyrja, hvort þeir hafi ekki reynzt nógu vel í starfi sínu, og það jafnvel betur en sumir sérfræðingarnir. Það er alveg hreint satt; það eru til menn, margir duglegir menn og ágætir í sínum störfum án sérþekkingar. En hvar á að setja mörkin, þegar löggjafarvaldið er að ákveða, hver eigi að hafa þessi réttindi og þessar skyldur? Það er gildi stéttasamtakanna, sem gera sterkar kröfur um sérþekkingu á einhverju sviði, að þau útiloka þessi undantekningardæmi, sem að vísu getur verið hart að útiloka, en verður eigi að síður að gera, ef nokkrar kröfur á að gera. Við skulum taka dæmi, t. d. frá kennarastéttinni. Dettur nokkrum manni í hug, að ekki séu til margir menn, sem ekki hafa kennarapróf og eru þó fullfærir um að kenna í skólum? Hefði ekki Björn Olsen getað sagt eins vel til í íslenzku og einhver maður úr kennaraskólanum? En hann hafði ekki réttindi til þess. Það verður að setja einhver mörk. Í sambandi við það, að hv. þm. var að tala um lærðan vélstjóra, sem hefði verklega ólærðan mann með sér í sínu starfi og teldi hann ómissandi, þá minnir það mig á það, sem Jón Þorláksson borgarstjóri sagði mér einu sinni. Þegar hann kom hér fyrst sem vegamálastjóri eftir að hafa leyst af hendi prýðilegt próf í verkfræði, sagðist hann ekkert hafa gert fyrsta árið annað en læra af vegavinnustjóranum hið praktíska í starfinu. En þar fyrir dettur engum í hug, að það hefði átt að afhenda vegavinnustjóranum umsjón með hinn verkfræðilega starfi. Það eru til menn, sem hafa aflað sér svo og svo mikillar þekkingar í störfum, án þess að hafa fengið sérþekkingu, — en hvernig á að þekkja þá úr?

Hv. þm. sagði, að á vélstjóraskólum væri kennt lítið í mótorfræði. Ég skal trúa því, að þar sé ekki kennt svo miklu meira í þessari grein en á þessum námsskeiðum. En að hinu þarf líka að gæta, hvað mennirnir hafa lært, áður en þeir byrja á námskeiðunum. Það eru t. d. til í Ameríku snöggsoðnir prestar, þannig, að einhver, sem hefir enga undirbúningsmenntun til að bera, fer að nema á prestaskóla jafnhliða stúdentum. En engum dettur í hug, að hann hafi jafnmikið gagn af þeim lærdómi og þeir, sem lagt hafa á sig 7—9 ára undirbúningsnám. Og enginn þarf að segja mér, að menn verði eins vel að sér í mótorfræði af því að ganga á þessi námskeið og ef þeir hefðu lokið við vélstjóraskóla. En aðalatriðið er þó það, hvort slá beri af kröfunum eða ekki. Það er enginn vandi að fá mann, sem getur stjórnað mótorvél. En ef kröfunum verður sleppt, þarf enginn að halda, að menn fari að leggja mikið á sig, eða meira en þarf. Sú undantekning, að maður, sem kann að stjórna smávél, verður stundum að stjórna stórri vél, verður að reglu.

Svo er annað: hvort hv. dm. telja forsvaranlegt að slá af þessum kröfum. Hv. þm. reyndi að sýna fram á, að ólærðir menn væru oft alveg eins góðir til þessara hluta og þeir, sem lært hefðu. En þeir, sem eru góðir ólærðir, hefðu auðvitað orðið ennþá betri, ef þeir hefðu lært. Það eina, sem afsakað gæti svona ráðstafanir, væri það, að kjör þeirra manna, sem hér koma til greina, væru svo bágborin, að ekki væri leggjandi á þá sá aukni kostnaður, sem af frekara námi leiddi. En margir þessara manna búa við kjör, sem eru betri en kjör háskólamanna, sem þurfa 10—14 ára nám til að fá sín réttindi. Er því alveg óþarft að slaka hér á.