15.12.1934
Neðri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Páll Þorbjörnsson:

Ég verð að byrja á að taka fram, að brtt. á þskj. 759, sem er þannig orðuð, að hún sé frá sjútvn., er aðeins frá 4 mönnum í n., eða öllum nema mér. Ég vildi vekja athygli á þessu hér, því það er dálítið frekt hjá meiri hl. að gera tilraun til þess að láta svo sýnast sem enginn ágreiningur sé um málið.

Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um minna próf. Vil ég vekja eftirtekt hv. þdm. á því, að hér er ekki rétt að tala um minna próf, því hér er um alveg óskyld mál að ræða. Er ómögulegt annað að sjá en að öll löggjöfin sé miðuð við gufuskip. Öll undirstaða fyrir náminu er miðuð við gufuskip; t. d. er gerð krafa um það, að menn hafi verið kyndarar. En hvaða ástæða er til þess, að menn, sem eiga að fara með dieselvél, hafi mokað kolum í nokkra mán.? Lögin eru gömul og úrelt og eingöngu miðuð við gufuvélar í stærri skipum.

Hv. 6. þm. Reykv. fór inn á að lesa umsagnir úr ýmsum skjölum, er sjútvn. hafa borizt. Meðan málið var í n. var mjög gengið á rétt annars aðila, því félagi mótorvélstjóra var gert erfitt fyrir að mæta, en leitað álits gufuvélstjóra og nefnd frá Vélstjórafél. fengin til viðtals. Umsögn tryggingarfélaganna fullyrði ég, að sé samin af einstökum mönnum frá Vélstjórafél. og farið með inn í skrifstofur félaganna, og forstöðmenn þeirra látnir skrifa undir. Afrit af þessu skjali hafði ég í höndum áður en skrifað var undir af vátryggingarfélögum.

Hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að ekki yrði lagzt á móti umsögn fagmanns eins og skipaskoðunarstjóra. En þau ummæli minna lítið á mann, sem sanna þekkingu hafi á þessum efnum. Hann fjölyrti mikið um, að þegar skipin stækkuðu og vélarnar færu upp í 300—400 hö., þá væri farið að nota ýmsar aukavélar, rafmagnsvélar, vindur og því um líkt. Á fiskiskipum eru þetta aðallega þilfarsvindur, og þá undir flestum kringumstæðum knúðar með eimi. Vil ég taka fram, að það er ekki farið fram á, að mótorvélstjórar fái rétt til að annast það, heldur aðeins til þess að fara með stærri dieselvélar en l. nú heimila. Mér er kunnungt um, að smiðjur hér í Rvík, sem hafa haft lærlinga, sem síðan hafa farið í vélstjóraskólann, hafa aldrei gert við neina vél, og ekki get ég skilið, að sá maður sé miklu betur undirbúinn til að vera vélstjóri, sem hefir verið við skeifusmíði eða lóðað göt á pottum o. þ. h. Hvaðan eiga nú þessir menn að fá sína vélaþekkingu? Hvernig eiga þeir að bæta sér upp, ef þeir hafa varla vél séð, þegar þeir koma úr skóla? Ég get ekki betur séð en að það sé aðalatriði, að mennirnir hafi öðlazt sanna þekkingu, og ef það sannast, að þeir standist tilskilin próf, eiga þeir að fá rétt til að stjórna 400 ha. vél. Vitanlega eru margir skólalærðir menn ágætlega færir og standa vel í stöðu sinni, en mér er ekki kunnugt um, að þeir, sem eingöngu hafa lært af reynslunni, hafi ekki staðið fullvel í stöðu sinni, og jafnvel eins vel og hinir. Og það, sem hér er farið fram á, er, að krefjast þess eins, að mennirnir hafi fengið sanna þekkingu á starfinu, án tillits til þess, hvernig hún er fengin, og að veitz þeim mönnum rétt til að fara með 400 ha. vél, sem fullnægja þeim kröfum, sem um það eru gerðar.