15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég var ekki viðstaddur er hv. 6. þm. Reykv. hélt ræðu sína, en mér er sagt, að hann hafi verið að tala um, að það væri hart, að þeir, sem talað hefðu í málinu áður, þyrðu ekki að horfast í augu við þau mótmæli, er fram kæmu í þessu efni. Ég held, að það hafi ekki verið af ótta, að ég var ekki viðstaddur, og gæti ég skotið því til hv. forseta, hvort ég hefi ekki heldur ýtt undir það, að málið væri tekið hér fyrir, og það fyrr en seinna. Annað mál er það, að ég bjóst við löngum umr. um málið, sem rætt var um hér á undan, og var því að ljúka nokkrum erindum mínum.

Ég get ekki gengið inn á að svara hv. 6. þm. Reykv., því að ég heyrði ekki ræðu hans, en ég vil hinsvegar víkja nokkuð að frv. Það er fullljóst, að hér er ekki stefnt í óvænt efni, þar sem það er sett að skilyrði, að þessir menn hafi lengi stundað þessa atvinnu, og gangi ennfremur undir próf áður en þeir fái réttindi sín. Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. eða einhverjum öðrum, að ekki væri vel frá þessu prófi gengið í frv. Ég ætla, að það liggi fyrir yfirlýsing frá hæstv. ráðh. í Ed. um, að hann muni leita till. þeirra, er hér eiga hlut að máli, við samningu reglugerðarinnar um, hvernig prófum skuli háttað. Hygg ég því, að sæmilega sé frá þessu gengið og eigi hægt að byggja rök sín gegn frv. á því.

Það hefir verið allmikið talað um það, að mótoristana skorti smíðakunnáttu. Það er kunnugt, að þeir sem lengi hafa farið með slíkar vélar, hafa allgóð tök á því að lagfæra þær, eftir því sem þeir hafa tæki til. Ég ætla, að þeir geti yfirleitt framkvæmt þær aðgerðir, sem hægt er að framkvæma um borð í skipunum.

Það er vitanlegt, að það mikla kapp, sem þeir, sem útskrifaðir eru frá gufuvélaskólanum, leggja á að koma í veg fyrir þetta mál, er af því, að þeir vilja í skjóli síns prófs fá óhindraðan aðgang að því að ryðja þessum mönnum frá sínu starfi, enda þótt þeir kunni ekkert betur til um meðferð mótora en mótoristarnir. Þetta er atvinnuspursmál fyrir þessum mönnum, og þeir hafa átt töluvert greiðan aðgang inn í þingið með það. En það er ekki sanngjarnt, að þeim sé leyft að nota aðstöðu sína til þess að ryðja burtu mönnum, sem kannske kunna á þessum hlutum betri skil en þeir. Það er enda svo, að eigendur skipanna vilja heldur þrautreyndan mótorista en mann, sem er nýútskrifaður af skólanum og hefir enga reynslu að baki sér. Af þessu má marka, hvernig útgerðarmenn líta á málið. Þeir standa á bak við óskirnar um það, að færð séu út réttindi mótoristanna og þeim leyft að fara með stærri vélar en þeir mega nú, og þeir telja fullkomins öryggis gætt í frv. með þeim reynslutíma, er þar er ákveðinn, og með prófinu.