15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að hv. þm. Borgf. sé farinn að skjóta nokkuð mikið yfir markið, þegar hann heldur því fram, að tveggja ára nám í vélstjóraskólanum sé minna virði en 6 vikna mótornámskeið. Hv. þm. Borgf. gerir lítið úr því, að nemendur í vélstjóraskólanum hafi 4 stundir á viku í mótorfræði. Ég geri ráð fyrir því, að þegar þetta stendur yfir í tvö ár, þá verði það meira, sem þeir læri, heldur en á námskeiðunum, þar sem aðallega mun vera veitt kennsla í verklegri meðferð mótora. Ég get sagt það, að það kom mér ekki á óvart, þótt útgerðarmenn stæðu bak við þessa kröfu um aukin réttindi fyrir þessa menn. Ég gat þess áður, að það væri því erfiðara að standa á móti þessu, þar sem kröfurnar væru bornar fram úr tveimur áttum, bæði frá þeim, er eiga að njóta þessara réttinda, og frá útgerðarmönnum, sem hafa þessa menn í þjónustu sinni og halda, að þeir þurfi að borga þeim lægra kaup. En ég álít, að þetta eigi ekki að ráða úrslitum. L. verða að hafa það fyrir augum að tryggja sem bezt kunnáttu þeirra manna, sem með vélarnar fara. Ein af höfuðástæðunum, sem skipaskoðunarstjóri kom fram með móti frv., var skortur á smíðakunnáttu þessara manna. Í stórum mótorskipum, sem hafa upp undir 500 hestafla vél, er allt að því eins nauðsynlegt, að vélstjórarnir hafi smíðakunnáttu eins og í gufuskipum. Í stórum mótorskipum eru margar aðrar vélar, sem þeir þurfa að bera skyn á og er því sambærilegt við gufuskipin. Annaðhvort er því krafan um smíðakunnáttu vélstjóra á gufuskipum óþörf, eða hún er líka nauðsynleg á mótorskipunum. — Má þá fella niður smíðakunnáttu vélstjóra á gufuskipum? Hvers vegna þarf að heimta hana í öðru tilfellinu, en ekki í hinu? Ég álít, að hv. þm. sé skyldugur að sanna, hvaða munur er hér á, en það hefir hann ekki reynt. Í þessu sambandi hefir verið talað um leppa, eins og ég gat um áður.

Kröfur hafa verið gerðar um að veita skipstjóraréttindi ýmist pungaprófsmönnum (Hlátur) — já, þetta orð þykir kannske ekki vel þinglegt, en það er alkunnugt úr íslenzku alþýðumáli — eða gersamlega próflausum mönnum, sem stundað höfðu þessa atvinnu áður en l. voru sett um þetta efni. Það hafa þráfaldlega komið fram kröfur hér á Alþingi um það, að þessir menn fengju þessi réttindi, en ég segi fyrir mig, að ég hefi jafnan staðið á móti því. Þá hefir það verið sagt, að þeir yrðu látnir halda áfram skipsstjórn, þó að þeir fengju ekki réttindi, en aðeins látnir hafa „leppa“. En þessir svonefndu „leppar“ eru menn, sem réttindi hafa til skipstjórnar, svo þá ber allt að sama brunni. Með því er þá búið að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru um nauðsynlega þekkingu manna um borð í þessum skipum.