03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það var fyrir nokkru reynt að fá breytingar á dragnótaveiðalöggjöfinni í þá átt, að breyta orðalagi 8. gr. l. frá 1928, sem heimilar héruðum eða sveitarfélögum að banna algerlega þessa veiði á vissum svæðum þrátt fyrir það, þó almennt væri þessi veiði leyfð yfir vissan tíma ársins. Þessu átti að breyta þannig, að gefa líka einstökum héruðum leyfi til að opna landhelgina hjá sér á þeim tímum, þegar hún væri almennt lokuð. Það átti m. ö. o. að gera þessi ákvæði gagnkvæm með því að leggja valdið yfir landhelginni svo mikið sem hægt var í hendur hvers einstaks byggðarlags. Hv. þm. Borgf. barðist mjög á móti þessari breyt., þó hér væri farið fram á fyllsta jafnrétti, sem mögulegt var að koma við, með því að láta byggðarlögin sjálf ráða um það, hvort þau vildu nota veiðina eða loka landhelginni. Mér finnst framkoma þessa hv. þm. nú vera í mótsögn við aðstöðu hans áður gegn þeirri breyt. á l., sem ég nú hefi talað um. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. segir, að það væri skemmtilegast, að sömu lög giltu alstaðar um dragnótaveiðina, en það var nú svo, að þegar löggjafinn vildi leyfa veiði almennt takmarkaðan tíma úr árinu, mig minnir í 3 mánuði, þá hljóp kergja í þennan hv. þm. og aðra, sem fengu því til vegar komið, að héruðunum var leyft að banna veiðina jafnvel á þeim tíma, sem löggjöfin ætlaðist til, að hún væri opin, en þegar farið er fram á gagnkvæm réttindi í þessu efni með því að leyfa héruðunum einnig að opna sínu landhelgi, eins og þau máttu loka henni, og gefa þeim þannig fullt sjálfsforræði í þessu efni, þá var það ekki leyft og ekki tekið tillit til þess, þó sjómennirnir sjálfir gerðu kröfu til þessa jafnréttis, heldur var valin sú leið, sem er harla óviðkunnanleg og Alþingi til lítils sóma, að afgr. þetta mál á síðasta þingi með því að auka misréttið. Ég skal að vísu játa það, að þessi hv. þm. átti ekki hlut í því, að það fráleita ákvæði var þá sett í l., að í landhelgi við Breiðafjörð og Faxaflóa mættu ekki veiða önnur skip en þau, sem skrásett væru í héruðunum kringum flóann, en aftur á móti máttu þau skip líka veiða við Vestmannaeyjar, þó skip frá Eyjunum mættu ekki veiða á Faxaflóa eða Breiðafirði. M. ö. o., Vestmannaeyingum var bannað á sama tíma að veiða í landhelgi þeirra manna, sem höfðu fullkomið leyfi til þess að veiða í landhelgi Vestmannaeyja. (PO: Frv. er ekki annað en tómt misrétti; þess vegna á að fella það). Þessu sérstaka misrétti var komið inn í l. í hv. Ed. á elleftu stundu, og reyndar seinna en það, svo að engin tók voru að leiðrétta það. Ég mun nú reyna á réttlætistilfinningu hv. þm. Borgf. með því að koma með brtt. við 2. umr. um að lagfæra þetta misrétti, og ég ætla að vona, að hann sýni þá þann þegnskap að hjálpa til að samþ. hana.

Ég ætla ekki að fjölyrða um dragnótaveiði yfirleitt að þessu sinni. En það er auðséð á þeim áskorunum, sem fyrir liggja, að sjómennirnir hvorki vilja eða geta misst þessa veiði, og þó ekki sé enn komin full reynsla í þessum efnum, þá er það alveg augljóst, að hér er um framtíðaratvinnuveg að ræða, enda er ég viss um, að hv. þm. Borgf. er nú farinn að sjá þetta með sjálfum sér. Sjómennirnir eru nú smám saman að læra að nota þessi ágætu og þó ódýru veiðarfæri, til þess að hagnýta sér auðæfi úr djúpi hafsins. Þess vegna eru kröfurnar um að fá að nota þessi auðæfi háværari nú en þær hafa verið á undanförnum þingum.