03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er náttúrlega rétt af hv. þm. Ísaf. að bregða fyrir sig útúrsnúningum í þessu máli, því það er nú einasta leiðin, sem hann á til. Ég er nú búinn að sýna hér og sanna, hvað það ber vott um frámunalega vanþekkingu og glópsku hjá honum að vera að tala um, að héraðabönnin hafi verið sett á þar, sem engin reynsla var fengin á þessu sviði, þar sem þau eru einungis byggð á þeirri slæmu reynslu, sem fengizt hefir af dragnótaveiðunum. Hv. þm. vill gera lítið úr Þingeyingum í þessu máli. Það sé ekki mikið takandi mark á því, sem sveitamenn norður í Bárðardal eða Ljósavatnshreppi segi um þetta efni. Mér er nú ekki kunnugt um, að áskoranir hafi komið frá mönnum úr þessum hreppum, en hitt er mér kunnugt, að áskoranirnar, sem fram komu og urðu þess valdandi, að banni gegn dragnótaveiðum var komið á, þær komu vitanlega frá þeim mönnum, sem verið var að taka lífsbjargarmöguleikana frá, að meira eða minna leyti, með þessum hamslausu dragnótaveiðum, sem aðallega voru stundaðar af útlendingum. Það var ekki af því, að þeir öfunduðu þá, sem dragnótaveiðina stunduðu, af aflanum, heldur af því, að þessar veiðar höfðu svo skaðlegar afleiðingar fyrir þeirra eigin möguleika til fiskveiða, að þeir töldu sér hagsmunaatriði, að lokað væri fyrir þær, og það þó um leið væri lokað fyrir veiði þeirra manna sjálfra á þessum slóðum, sem kynnu að vilja nota dragnætur. Það er því alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að reyna að gera lítið úr Norður-Þingeyingum í sambandi við þetta mál, eða öðrum, sem hafa komið á hjá sér slíku héraðabanni.

Ég skal benda á það í þessu sambandi, að hv. þm. Barð., sem á einhvern undarlegan hátt hefir gerzt flm. að þessu frv., segir, að það sé stefna í sínu kjördæmi að loka öllum fjörðum fyrir dragnótaveiðum, og ef með þessu ætti á einhvern hátt að skerða framkvæmdamöguleika sinna kjósenda í þessu efni, þá mundi hann snúast hart og öfluglega á móti því. Mér þykir þessi afstaða hans til sinna kjósenda réttmæt, en hitt er ekki rétt af honum, að vilja taka samskonar rétt af mönnum í öðrum héruðum landsins.

Hv. þm. Ísaf. virðist ekki gera mikið úr þekkingu nábúa sinna, Vestur-Ísfirðinga, í þessu máli, og því, sem þeir hafa gert til þess að styrkja sína aðstöðu til fiskiveiða, frekar en annara, sem farið hafa inn á þessa braut. Það er annaðhvort, ef hv. þm. er alvara að vilja vaka svo yfir hag einstakra manna sem hann lætur, að hann hefir vanrækt að opna augu þessara nábúa sinna fyrir skaðsemi þess að loka fyrir dragnótaveiðar, eða að þeir hafa ekki viljað leggja mikið upp úr ráðleggingum hv. þm. í þessu efni, og það þykir mér líklegra.

Hv. þm. sagði, að ég hefði haldið fram, að ekki mætti tala um málið almennt. Ég sagði ekkert um, að það mætti ekki, heldur að það ætti ekki við í sambandi við þetta frv., sem ekkert felur annað í sér heldur en að skapa mismunandi rétt manna til þess að gera ráðstafanir, innan þeirra takmarka, sem löggjöfin setur, sér og sínum til hagsbóta.

Hv. þm. talaði um, að mér bæri skylda til, þar sem ég væri að tala á móti þessu frv., að sjá 200 manns fyrir atvinnu, sem töpuðu atvinnu sinni, ef frv. væri fellt. Ég hefi bent á það hér áður, að meginþorri þeirra áskorana, sem fram hafa komið um flutning þessa frv., er víst frá Vestmannaeyjum. Og ef Vestmannaeyingar vilja endilega halda öllu galopnu upp á gátt, þá held ég þeir hafi fulla heimild til að stunda dragnótaveiðar framundan Vestmannaeyjum, þó frv. verði ekki samþ. En hv. þm. finnst e. t. v. ekki réttlátt, að til sé heimild fyrir menn hér við Faxaflóa til þess að sporna gegn því, að heilir herskarar af skipum komi frá Vestmannaeyjum eða jafnvel útlöndum til þess að skafa hér upp í varir og landsteina hjá þeim. Með því að fella frv. er skapaður möguleiki til þess að sporna við því, og Færeyingar og Danir komi hingað í hópum og trolli í landhelgi. Það hafa þeir gert og geta það jafnt ennþá, ef allt er látið standa opið fyrir þeim. Það voru einmitt veiðar Dana og Færeyinga við strendur Þingeyjarsýslu, sem urðu til þess, að þar var lokað algerlega fyrir dragnótaveiðar. Og það er alveg víst, að þar, sem lokað er fyrir dragnótaveiðarnar, skapar það mönnum á þeim svæðum bætta aðstöðu til annara fiskiveiða, sem nema miklu meiru heldur en þeir ímynduðu hagsmunir, sem dragnótaveiðarnar eiga að skapa.

Hv. þm. Vestm. fór að minnast á gang þessa máls á undanförnum þingum. Það er rétt, að það hefir verið fellt á mörgum þingum að rýmka ákvæði laganna um dragnótaveiðar. Og þingið hefir gert svo rækilega hreint fyrir sínum dyrum, að þegar einu sinni hafði tekizt á undarlegan hátt að safna undirskriftum nokkurra þm. í þinglokin undir áskorun til stj. um að gefa út bráðabirgðalög um þetta efni, þó fellt væri á þinginu samskonar frv., og stj. hafði gengið á lagið og gefið slík bráðabirgðalög út, þá var það fyrsta verk næsta þings að fella þau úr gildi. Þessi hefir verið afstaða þingsins til dragnótaveiðamálsins yfirleitt. Það var fyrst þegar þeir, sem búa við 3/4 af strandlengju Íslands, máttu búa við löggjöfina um bann gegn dragnótum óbreytta, að hægt var að fá samþ., að þeir, sem búa við þann ¼ strandarinnar, sem eftir var, skyldu sviptir þeim rétti, sem meiri hl. átti að fá að halda. Þá kom þetta undarlega fram, að þeir, sem búnir voru að bjarga hagsmunum sinna kjósenda, létu til leiðast að fylgja þeim, sem vildu leyfa að trolla við strendurnar hjá hinum. Það var með hliðsjón af þessu, sem ég beindi þeim orðum til hv. d. í gær, að ég treysti því, að hið nýkosna þ. léti ekki eftir sig liggja að framlengja slíka löggjöf sem þessa, eins og hún er úr garði gerð og eins og hún er til komin. Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði áðan, að þessi löggjöf er ekkert annað en misrétti; misrétti hvað það snertir, að menn á tilteknu svæði eru sviptir þeim rétti, sem aðrir hafa til þess að setja héraðabönn. Það er líka misrétti, miðað við það, sem er annarsstaðar, að hér á Faxaflóa og Breiðafirði megi ekki fiska nema þau skip, sem gerð eru út af þessum stöðvum. Hv. þm. boðaði, að hann mundi koma fram með brtt. við þetta ákvæði. Ég skal geta þess, að ég átti engan þátt í að koma því inn í lögin. Till. um það kom fram í Ed. og var gerð til þess að reyna að bjarga málinu. Hv. þm. kvaðst ætla að reyna þegnskap minn í þessu efni. Ég vænti, að hann þurfi ekki að reyna neitt í því efni, því ég treysti svo þegnskap þessarar hv. d., að hún felli það frv. þegar í stað, sem ekkert er annað en misrétti frá upphafi til enda, svo hv. þm. Vestm. losni við það ómak og amstur að koma með brtt., sem engin bót yrði á þessu máli.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti, að hv. d. veiti frv. þá einu meðferð, sem því hæfir og þinginu er samboðin, og felli það umsvifalaust.