03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Gísli Guðmundsson:

Ég skal lofa því að lengja ekki mikið þessar umr. En ég get ekki látið ómótmælt því, sem fram kom í ræðu hv. þm. Ísaf. áðan, að samþykktir þær, sem gerðar hafa verið í Norður-Þingeyjarsýslu um bann gegn dragnótaveiðum á fjörðum inni, væru ekki á rökum byggðar. Þær eru vitanlega á miklum rökum byggðar, því í þessu héraði eru margir sjómenn, sem þekkingu hafa á þessum hlutum. Og ég hefi heyrt það á þeim, að þeir telja, að dragnótaveiðarnar hafi þarna m. a. haft mikil áhrif í þá átt að spilla þorskveiði inni í fjarðarbotnum.

Annars get ég sagt það, að í raun og veru hefi ég ekki ástæðu til þess sem fulltrúi míns kjördæmis að láta mig þetta mál sérlega miklu skipta, því það skiptir ekki beinlínis nema suðvesturhluta landsins. En ég hefi verið þeirrar skoðunar, að eðlilega væri, að héruðin réðu talsvert miklu um þetta sjálf, og því mun ég mjög hlusta eftir því, sem fram kemur úr þeim héruðum, sem hér er um að ræða. Sakna ég að hafa ekki heyrt álít hv. þm. G.-K., þar sem hans kjördæmi er eitt af þeim, sem þarna eiga hlut að máli.