03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. var að kvarta yfir því, að hann hefði ekki getað vakið eins mikla athygli á sér með málflutningi sínum við fyrri hluta þessarar umr. eins og hann hefði viljað, og hugur ýmsra, sem hlustuðu, hefði hvarflað meira til hv. þm. Vestm. heldur en hans, þó hann væri nú að tala um málið. Ég get ekkert að því gert, þó hv. þm. tækist nú ekki betur í þessu efni að láta menn leggja hlustirnar við því, sem hann var að segja. En ég vil taka það fram, að ég beindi ekki orðum mínum til hv. þm. Vestm., af þeirri einföldu ástæðu, að hann tók ekkert til máls. Það litla, sem fram kom til meðmæla frv. auk framsöguræðunnar, var frá hv. þm. Ísaf., og hann getur ómögulega farið að kenna mér það, þó lítið kunni að hafa verið á hann hlýtt; það var ekki mér að kenna.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að hann hefði ekki haft með höndum neina prédikunarstarfsemi um þetta mál þarna fyrir vestan. Hann prédikar nú einna mest um það hér í d., ef prédikun skyldi kalla, og úr því að hann sýnir þennan brennandi áhuga á því, að hér syðra verði ekki komið á héraðabanni gegn dragnótaveiðum, þá var ekki undarlegt, þó ég minntist á, því hann ekki beindi orðum sínum til sinna næstu nábúa á sama tíma sem hann ber svo mikla umhyggju fyrir sjómönnum annarsstaðar.

Út af því, sem hv. þm. var að segja, að ég ætti að snúa mér til þeirra á Akranesi og hvetja þá til að fara að stunda dragnótaveiðar, skal ég geta þess, að þeir hafa fyrir löngu síðan gert út á dragnótaveiðar, en það borgaði sig svo illa, að þeir hættu við það aftur. Það er aðeins einn bátur, sem til skamms tíma hefir eitthvað fengizt við dragnótaveiðar, og hjá honum mun hafa staðizt nokkuð á tekjur og gjöld, en hjá öllum öðrum varð tap af þessum veiðum, og lögðust þær þar af leiðandi niður. Ennfremur var mönnum vel ljóst, að öðrum fiskiveiðum stóð hætta af þessari veiðiaðferð.

Eins og kunnugt er, hafa dragnótaveiðarnar einnig verið reyndar suður í Garðsjó, en þær gáfu einungis tap. Þar er mjög eindregin andstaða gegn því, að dragnótaveiðar séu leyfðar, eins og bezt kom fram á fundi, sem haldinn var nýlega í Gerðum, þar sem 200 manns voru saman komnir og samþ. var með hverju einasta atkv. ályktun um að banna dragnótaveiði. — Getur hv. þm. Ísaf. ekki verið kyrr í d. augnablik? (FJ: Ég þarf í síma). Jæja. Ég held það sé þá sama, hvorum megin hryggjar hann liggur. — Reynslan hefir líka orðið sú, að þeir, sem fiskveiði stunda þar með öðrum veiðitækjum, þorskaneti, línu og handfæri, hafa tapað sínum lífsbjargarmöguleikum vegna dragnótaveiðanna, — og er þá undarlegt, þó þeir, sem byggja framtíðar-lífsmöguleika sína á fiskiveiðum, snúist öndverðir gegn þessari veiðiaðferð?

Hv. þm. Ísaf., sem nú er farinn í síma, bað mig að benda sér á, hvort nokkrar aðrar fiskiveiðar hefðu farið fram hér við Faxaflóa á þeim tíma, sem dragnótaveiðar væru nú leyfðar. Þarna kemur nú fram hið frámunalega þekkingarleysi hv. þm. á því, hvernig til hagar um fiskiveiðar við strendur landsins. Hér við Faxaflóa, t. d. í Garðsjónum, var mesti uppgripaaflinn, þegar frá er talin vetrarvertíðin, einmitt á þeim tíma, sem dragnótaveiðarnar eru leyfðar nú, seinni part sumars og framan af hausti: Auk þess sem menn veiddu þorsk í net, veiddu menn aðrar verðmætari fisktegundir, svo sem smálúðu og ýsu, á lóðir. Svipað má segja af fiskveiðunum hér við innanverðan Faxaflóa, þegar nokkurt hlé varð á ágangi togaranna, var þar æfinlega nokkur slík veiði. Þá ætla ég, að Snæfellingar hafi ekki síður sömu sögu að segja. Við vestanvert Snæfellsnes og inn undir Ólafsvík hafa togararnir einkum lagzt að og togað nætur og daga. Má nærri geta, hver áhrif það hefir haft á fiskiveiðar þar yfirleitt. Ég ætla þess vegna, að ég hafi gert þessu máli full skil.

Ég vil aðeins endurtaka það, að hv. þm. Ísaf. er frámunalega ófróður um það, hvernig tilhagað er fiskiveiðum hér við Faxaflóa. Ef hann vildi afla sér upplýsinga um það efni, sem hann ætti að gera, þótt ekki væri í sambandi við þetta mál, þá mundi ég verða manna fúsastur til að veita honum fræðslu um þetta, ef hann vill gerast minn lærisveinn í þessu efni.