13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Vestm. var eitthvað að tala um það, að inn í þau lög, sem hér er farið fram á að framlengja, hefði komizt einhver meinloka í Ed., þegar þetta mál var afgr. þar á þinginu 1933. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi átt þar við það ákvæði, að á Faxaflóa og Breiðafirði skyldi eingöngu heimilt að veiða þeim skipum, sem lögskráð væru í þeim lögsagnarumdæmum, sem að þessum fjörðum liggja. En þetta ákvæði var vitanlega sett í l. í ákveðnum tilgangi og út frá ákveðnum forsendum. Eins og menn vita, er mikið um það deilt, hvort dragnótaveiðar skuli leyfðar í landhelgi eða ekki. Ef svo er, að þessar veiðar valdi skaða þeim, sem stunda aðrar fiskiveiðar á þeim svæðum, þar sem þær eru stundaðar, þá eru það fyrst og fremst þeir, sem búa kringum þá firði og flóa, sem fyrir skaðanum verða, og er því eðlilegt, ef undanþága er veitt frá þessu banni, þá sé hún aðeins veitt íbúum þeirra héraða, sem að viðkomandi fjörðum liggja. Þar við bætist, að sé heimildin veitt almennt, þá eru það ekki einungis landsmenn, sem heimilt verður að veiða á þessum svæðum, heldur njóta erlendar þjóðir sömu hlunninda.

Í sambandi við brtt. hv. þm. Vestm. á þskj. 315 vil ég taka það fram, að þó ég hafi verið á móti því að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi fram að þessu, þá geri ég ráð fyrir, að ég sjái mér ekki fært að greiða atkv. á móti framlengingu laganna nú, vegna þess að menn hafa nú í mörg ár stundað þennan veiðiskap og aflað sér veiðarfæra og þekkingar á veiðiaðferðinni, svo að menn eru nú færari um að stunda hann sér til gagns heldur en í fyrstu.

Ég get að vissu leyti viðurkennt réttmæti brtt. hv. þm. Vestm. En ég mundi þó hiklaust greiða atkv. gegn frv. svo breyttu. Hv. þm. talaði um misrétti það, sem kæmi fram í því, að skip, sem skrásett eru á Faxaflóa eða Breiðafirði, skuli mega veiða fyrir sunnan land, en að hinsvegar skuli skip, sem skrásett eru í Vestmannaeyjum eða annarsstaðar við Suðurland, ekki mega stunda veiðar á Faxaflóa eða Breiðafirði. Ég myndi fúslega ljá lið hverjum þeim, sem vildi koma inn í l. þannig löguðum ákvæðum, að þeir einir, er hefðu skráð skip sín í Vestmannaeyjum eða við suðurströndina, mættu stunda þar dragnótaveiðar í landhelgi. Veit ég því ekki, nema réttara kynni að vera að taka málið af dagskrá að þessu sinni, ef hægt yrði með því að fá fram slíkt samkomulag. Að öðrum kosti held ég, að málinu gæti verið hætta búin. Ef till. hv. þm. Vestm. yrði samþ., er hætt við, að margur myndi greiða atkv. á móti frv. í blóra við það, og gæti þá svo farið, að það yrði fellt.

Ég tek undir þá ósk hv. þm. Borgf., að málið verði tekið af dagskrá. Það getur ekki tekið langan tíma að ljúka umr., og ætti það að vera sama þó málinu yrði frestað til morguns.