03.10.1934
Sameinað þing: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (Sigfús Jónsson):

Frá því er síðasta Alþingi sleit hefir einn fyrrverandi alþingismaður fallið frá, og vil ég samkvæmt venju sem aldursforseti minnast þessa látna manns með nokkrum orðum.

Einar Þorgilsson fæddist 25. ág. 1865 í Ásmúla í Holtum í Rangárvallasýslu og var af bændaættum kominn þar eystra. Á barnsaldri fluttist hann með foreldrum sínum að Hlíð í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst þar upp. Í Flensborgarskóla stundaði hann nám á árunum 1891—1894, en við búsforráðum tók hann í Hlíð 1895 og bjó þar til ársins 1900. Þá fluttist hann að Óseyri við Hafnarfjörð og rak þar bú, kaupmennsku og útgerð til 1911. Á búskaparárum sínum á Óseyri var hann jafnframt framkvæmdarstjóri Þilskipafélagsins við Hafnarfjörð (1905—1909) og hreppstjóri í Garðahreppi 1906—1908. Árið 1911 fluttist hann í kaupstaðinn í Hafnarfirði og rak þar verzlun og stórútgerð til dauðadags. Hann mun hafa verið einn af fyrstu frumkvöðlum togaraútgerðar hér á landi.

Hann var 1. þm. G.-K. kjörtímabilið 1920—1923, en bauð sig ekki fram aftur.

Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sat hann 1911—1923, og mörgum fleiri trúnaðarstörfum gegndi hann í almenningsþarfir.

Hann lézt í Landakotsspítala 15. júlí þ. á. Einar Þorgilsson var framtakssamur atorkumaður, hygginn og aflasæll og um langt skeið einn af máttarstólpum atvinnulífsins í Hafnarfirði. Átti hann þar og miklum vinsældum að fagna, enda var rausn hans og hjálpsemi við brugðið.

Ég vil biðja háttvirta þm. að votta minningu þessa manns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum].