16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Meiri hl. n. hefir vitanlega séð þetta bréf bankastjóranna, en að því afhuguðu, þá virtist meiri hl. röksemdirnar ekki vera sterkar. Ef þessar röksemdir, sem bankastjórarnir flytja fram, ættu að halda, þá væri óhugsandi, að slíkt stimpilgjald á ávísanir og kvittanir væri gildandi í jafnmiklu bankalandi eins og England er. En það verður ekki séð, að í því landi hafi þetta haft spillandi áhrif á bankastarfsemina. Um það atriði, að okkar stimpilgjalds. séu nátengd gildandi l. á Norðurlöndum, þá er það út af fyrir sig rétt. En stimpilgjaldsl. á Norðurlöndum eru ekki heldur fast kerfi, sem engu má breyta í, taka af eða bæta við. Það er alveg rétt, sem bankastjórarnir segja, að tékkar eru orðnir algengir hér á landi, en ég efast þó um, að þeir séu algengari hér heldur en víða í nágrannalöndum vorum, einmitt þar, sem slík stimpilgjöld eru greidd.

Við skulum segja, að þessi l. leiddu m. a. til þess, að seðlaútgáfa þyrfti að vera öllu meiri en verið hefir. En þó svo væri, þá er vitanlega engin þörf á hinu, að minnka útlán fyrir það, því að það, hvort tékkar ganga manna millum sem gjaldeyrir eða bankaseðlarnir sjálfir, hefir ekki minnstu áhrif á hag þjóðarinnar eða á bankapólitíkina í landinu, eins og hún á að vera á hverjum tíma. Það eru til góðir fræðimenn í þessum efnum, sem halda því fram, að það sé yfirleitt ekki æskilegt fyrir seðlabanka, ef tékkar skyldu verða svo almennir, að mjög dragi úr seðlaútgáfunni. Það er fjarstæða, að útlán þurfi að minnka við þetta, og hinsvegar hafa sjálfir bankarnir eins gott af því að hafa seðla í umferð, með þeim tekjum, sem þeim fylgja, eins og að láta menn gefa út peninga sjálfa, eins og menn gera með notkun tékka. Vitanlega mundi hlaupareikningsfé bankanna minnka eitthvað, ef þetta yrði að l., en það gerir lítið til, vegna þess að hlaupareikningsfé eru svo stuttir peningar, að bankarnir þurfa jafnan að hafa meira fé í sjóði, ef mikið stendur inni á hlaupareikningi. Mismunurinn á því, hvort notaðar eru tékkar eða seðlar, verður því sá, að ef tékkar eru notaðir, þá hafa bankarnir meira fé í kassa, en ef seðlarnir eru notaðir, þá hafa þeir meiri seðla í umferð.

Viðvíkjandi því sem bankastjórarnir segja um það, að gott muni vera að athuga málið betur til næsta þings, þá var það skoðun meiri hl. fjhn., að þetta mál yrði bezt rannsakað með því að láta reynsluna skera úr, og að öll frekari athugun en hægt er að fá nú af reynslu annara þjóða yrði ekki fengin, fyrr en reynslan innanlands segði til um það, hvernig þetta verður í framkvæmd. Ég hefi tekið það fram áður, að við því megi búast, að einhverju þurfi að breyta í slíkri löggjöf sem þessari á fyrsta þingi eftir að hún er samþ.