16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

148. mál, stimpilgjald

Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að fara að rökræða um þetta mál við hv. þm. V.-Ísf. Hann hefir tjáð sig vera á annari skoðun í þessu efni en stjórn Landsbankans. Hann hefir til þess fulla heimild, sem enginn getur skert á nokkurn hátt. En ég veit, að hann skilur það, að mér verður á, eins og fleirum, að meta ennþá meira það, sem bankastjórarnir segja um þetta mál, en það, sem hann segir, og er ég þar ekki að gera upp á milli manna, heldur þeirrar reynslu, sem hlutaðeigandi menn hafa. Mér finnst það eðlilegt, að þennan hv. þm., þó að hann hafi mikil kynni af fjármálum þjóðarinnar, skorti í þessu efni ýmislegt á við bankastjóra Landsbankans, og ég get vel trúað því, að það sé reynsla bankastjóranna, á grundvelli þeirrar þekkingar, sem þeir hafa á öllu innsta eðli þessara mála, sem veldur ágreiningnum milli þeirra og hans. Það er ekki á mínu færi að kveða upp rökstuddan dóm um það, hvor hefir á réttu að standa, en ég veit, að hann skilur það, að ég og margir fleiri taka ennþá meira tillit til þess, sem bankastjórarnir segja um þetta. a. m. k. á meðan málið er eins lítið rannsakað og það nú er. Og án þess að ég ætli að rökræða einstök atriði, sem hann færði fram, þá vil ég leyfa mér að vekja athygli hans á því, að sjálfir bankastjórarnir færa fram rök fyrir því, að þetta geti vel staðizt skaðlaust í Englandi, þó að það geti valdið óþægindum hér á landi, og það er af því, að það er áreiðanlega rétt, sem bankastjórarnir segja, að tékkar eru notaðir hér hlutfallslega miklu meira heldur en í Englandi, og það af þeirri ástæðu, sem bankastjórarnir færa fram. Mér er líka kunnugt um það, að í allri verzlun manna á milli í Englandi geta þeir einir borgað með tékkávísunum, sem eru þekktir vel, eða þá hafa einstaklega heiðarlegt útlit! Þeim einum líðst að rétta tékka yfir búðarborðið. Og ég get sagt frá því svona til fróðleiks, að ég hefi heyrt það sagt, að í mörgum stærri verzlunum þar væru hafðir sérfræðingar til þess að lifa framan í þá menn, sem óska að borga með tékkum, og ef menn borga með 50 punda nótu, eða jafnvel þó að það sé ekki nema 10 punda nóta, þá eru þeir látnir árifa þær.

Ég hefi svo engu við að bæta, en þar sem ekki sýnist vera brýn nauðsyn fyrir hendi til þess að flýta þessu mjög, og hinsvegar liggja fyrir tilmæli um það frá reyndustu mönnum í þessum efnum, að málið verði rannsakað betur, þá álít ég, að það sé í raun og veru alveg sjálfsagt að verða við þeim tilmælum.