19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

148. mál, stimpilgjald

Magnús Torfason:

Mér hefir verið borið það á brýn, að ég væri fylgispakur við fjáraflatill. stjórnarinnar. Ég skal játa þetta, en ég hefi mér til afsökunar, að kjördæmi mitt hefir jafnan verið nokkuð frekt til farsællegra hluta, og hefir mér því fundizt hvíla nokkur skylda á Árnesingum um það, að aftra ekki sæmilegum tekjum fyrir stjórnina.

Hvað þessu máli viðvíkur, þá má náttúrlega um það deila, hvort tími sé til þess kominn að láta slíkt frv. frá sér fara. Viðskiptalíf okkar er á eftir tímanum, samanborið við önnur lönd. Vöruskiptaverzlun er þekkt hér enn og reikningsverzlun meiri en æskilegt væri. Býst ég og við, að á þessum seinustu kreppuárum hafi reikningsverzlunin heldur aukizt en þverrað. Samkv. grg. virðist mér, að slíkt gjald sem þetta tíðkist ekki á Norðurlöndum. Ég skal þó eigi leggjast gegn frv., en vildi skjóta því til hæstv. fjmrh., hvort eigi væri ástæða til þess að breyta frv. Ég sé, að undanþága er veitt í 11. gr. um framkvæmd laganna og framkvæmdaleysi, og það í samræmi við ákvæði stimpilgjaldslaganna frá 1921, nema þar er veittur lengri tími, eða 10 ár, en nú í þessu frv. ekki nema 3 ár. Ég vil vekja athygli á því, sem um getur í grg., að sumstaðar, t. d. í Englandi, sé fylgt þeirri reglu, að taka víst stimpilgjald af hverri ávísun eða kvittun án tillits til fjárhæðar. Ég álít þá aðferð þægilegri og einfaldari og datt því í hug, hvort eigi væri athugandi fyrir hæstv. ráðh. og hv. fjhn., að sett yrðu ákvæði inn í 3. gr., sem heimila stj. að hafa eitt stimpilgjald a. m. k. fyrstu árin, meðan menn eru að venjast gjaldinu. Ég mun samkv. þessu greiða frv. atkv. til 3. umr. Ég býst við, að ég sem hálfgerður einstæðingur hér í þessari hv. d. muni ekki bera fram till. í þessu máli, en ég vildi mælast til þess, að hv. fjhn. eða hæstv. fjmrh. gerðu það.