21.11.1934
Neðri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (3031)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefir borið fram brtt. við þetta frv., sem ekki eru stórvægilegar. Tvær af þeim eru fram komnar eftir bendingum, sem n. fékk við síðustu umr. Önnur er sú, að setja 3 ára frest í 11. gr. í stað 3 ára, er fjmrn. getur veitt linun á sektarákvæðum l. Hin brtt. er sú, að ef ekki reynist vel að hafa stimpilgjaldið mishátt, þá skuli fjmrh. heimilt að ákveða eitt og sama stimpilgjald af öllum gjaldskyldum ávísunum og kvittunum, enda fari það aldrei fram úr 40 aurum. Sömuleiðis á ráðh. einnig þá að ákveða lágmarksupphæð gjaldskyldra ávísana og tékka. Auk þess ber n. fram brtt. um að ávísanir Alþingis skuli vera undanþegnar stimpilgjaldi á sama hátt og ávísanir þær, er stjórnarráðið gefur út. Er hér átt við ávísanir forseta Alþingis og ávísanir skrifstofustjóra, sem fara til greiðslu á hverskonar þingkostnaði.

Fyrir utan brtt. n. á þskj. 523 leyfir meiri hl. sér að bera fram tvær skrifl. brtt., sem eru smávægilegar og hún vill vona, að geti komið til atkv. að þessu sinni, ef enginn ágreiningur verður um þær, en verði hinsvegar ágreiningur um þær, er meiri hl. fús til að taka þær aftur til 3. umr. Hin fyrri brtt. er við 14. gr. frv., um það, að sölumenn stimpilmerkjanna skuli hafa 2% þóknun fyrir sölu þeirra. Þetta er samskonar ákvæði og gildir um núgildandi stimpilmerki, og er vitanlega sjálfsagt, að þessi þóknun sé greidd, því þessari sölu fylgir aukin fyrirhöfn og mistalningarhætta.

Hin skrifl. brtt. er um það, að ráðuneytið ákveði með reglugerð, hvenær lög þessi öðlist gildi. Það er vitanlega nauðsynlegt að veita fjmrh. nægilegan undirbúningstíma til þess að láta gera stimpilmerkin og hafa annan undirbúning. — Ég vænti svo, að ekki verði ágreiningur um þessar brtt. fremur en hinar fyrri, og óska því, að þær verði samþ.