11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

176. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er sjálfsagt að verða við þessum tilmælum hv. þm. Um þessi erlendu lán er það að segja, að um þau hefir verið samið frá ári til árs og bankanum gefið í skyn, að þau yrðu fljótlega greidd. Vextir af þessum lánum eru nú 4—4½%, og má búast við, að ríkissjóður hefði einhvern kostnað af því að fá lán til lengri tíma til greiðslu þeirra. Ég tel þó rétt að búa sig undir að breyta þessum lánum. Bankinn vill áreiðanlega, að það sé gert, og honum hefir verið gefið í skyn, að það mundi verða gert. — Um skuldirnar við innlendu bankana er það að segja, að ætlazt var til, að þær yrðu greiddar við fyrsta tækifæri. Það er svo um þetta víxillán í Landsbankanum, að þó að það sé innlent á pappírnum, hefir bankinn vitanlega fest í því hluta af lánstrausti sínu erlendis, og getur verið óþægilegt fyrir bankann, að það standi svo lengi. Annars kom þetta allt til athugunar í fjhn., og fékkst samkomulag um að flytja málið vegna þessarar aðstöðu Landsbankans. Hinsvegar hafði einn nm. aths. að gera, ef ætlunin væri að taka nýtt erlent lán til þess að greiða skuldir, sem raunverulega væru innlendar.