11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2292 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

148. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að hann væri ekki mjög ákveðið á móti þessu máli í sjálfu sér, en fyndist það illa undirbúið, og því ástæða til að láta samþykkt þess dragast. En í þeim rökum, sem hann færði gegn frv., var ekkert, sem sýndi það, að málið væri illa undirbúið, heldur var það þannig, að hann sneri sér meira að því að mæla gegn frv. í grundvallaratriðum þess. Ég skal minnast á þau 2—3 atriði, sem hann taldi því til foráttu, þótt hann segði í upphafi sinnar ræðu, að hann væri frv. ekki mótfallinn frá efnislegu sjónarmiði. Hann talaði um það, hv. þm., að frv. myndi draga úr tékkaviðskiptum og minnka starfsfé bankanna á þann hátt. Nú er bent á það í áliti Landsbankans, sem fyrir liggur, að þótt eitthvað kynni að draga úr tékkaviðskiptunum, þá mætti jafna það upp með aukinni seðlaútgáfu, þannig að ekki rýrnaði starfsfé bankanna. En viðvíkjandi aðalatriðinu í hans ræðu, að frv. væri illa undirbúið, þá er það vitanlegt, að þótt yfir frv. væri legið 2—3 mánuði enn, þá mundi það engu breyta, og á engan hátt hægt að þeim tíma liðnum að gera það betur úr garði. Þá sagði hv. þm., að frv. gæti verkað á þann hátt, að það yrði til þess að heiðra trassaskapinn, þar sem menn myndu síður taka kvittanir fyrir greiðslum sínum vegna stimpilgjaldsins. Það má vel vera, að einhverjir hliðri sér hjá að greiða þetta gjald, þótt ekki sé hátt, en ég vil minna á það, að þeir, sem eiga að veita viðtöku kvittununum, eiga ekki að greiða stimpilgjaldið, svo að þetta getur alls ekki verkað eins og hv. þm. hélt fram. Þessi tvö atriði eru ekki þannig vaxin, að þau séu rök gegn því, að frv. nái samþykki nú. — Þá sagði hv. þm., að frv. fylgdi aukin vinna. Ég geri ekki mikið úr því. Það er ákaflega fljótlegt að setja þessi merki á, alveg eins og að frímerkja bréf, og ég er viss um, að hægt er að setja á mörg hundruð á klukkustund. Ef gjaldið væri aðeins eitt — en ég hefi hugsað mér að nota heimild í l. til þess að ákveða, að svo skuli vera, — verður fyrirhöfnin hverfandi lítil. Með þeim tækjum, sem nú eru á skrifstofum, þá er hægt að líma þessi merki á á svipstundu. Ekki get ég heldur fallizt á, að þess l. komi sérstaklega rukkurum í koll. Þeir yrðu ekki lengi að setja merkin á reikningana. — Það er talað um það, að Landsbankinn hafi lagt á móti þessu frv. vegna þess, að það sé nýtt af nálinni og ekki vel undirbúið. Bankinn hefir lagt til, að málinu yrði frestað, eins og hv. 1. þm. Reykv. réttilega tók fram, en bankinn hefir ekki fremur en hv. þm. fært rök fyrir máli sínu. Það, sem hv. þm. hefir tekið fram, snertir nfl. ekki undirbúningsatriði frv., heldur grundvallaratriði þess, alveg eins og hjá bankanum. Það er auðvitað eðlilegt, að bankinn leggi á móti málinu vegna þess, að það eykur honum dálitla fyrirhöfn, en það er ekki hægt að leggja á nokkurn skatt eða toll án þess að einhversstaðar komi fram aukin fyrirhöfn hans vegna. Um álit Landsbankans og álit bankanna yfirleitt vil ég aðeins segja það, án þess að ég sé á nokkurn þátt að gera lítið úr þeim, að ég hefi orðið var við, að menn leggja misjafnlega mikið upp úr þeim, eftir því hvaða málstað þau styðja. Ég segi þetta ekkert til hv. 1. þm. Reykv., en þetta er algild regla, að menn reyni að gera eins mikið úr þeim stuðningi, sem þeir fá, og unnt er. En ég tel, að rök þau, sem komið hafa fram í bréfi Landsbankans, hafi fyllilega verið tekin til greina og þeirra vegna ástæðulaust að fresta málinu.