11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að áhrif svona skatts á tékkanotkunina verða þau sömu, hvort sem gjaldið er lögfest nú eða ekki fyrr en eftir þrjá mánuði. En þetta var nú hálfgerður útúrsnúningur. Fyrir mér vakti, að þetta atriði yrði athugað nánar en gert hefir verið og gerður betri undirbúningur fyrir framkvæmd þessarar löggjafar. Nú sem stendur eru ýmsir agnúar á henni. Mér þykir það t. d. hart að gengið, þegar maður greiðir skuld með tékk, að þurfa þá að borga tvöfalt stimpilgjald; tékkinn sjálfur verður auðvitað að vera stimplaður, en svo kvittunin líka. Þetta skapar talsverða örðugleika á slíkum greiðslum. Þetta álít ég, að þyrfti að athuga betur áður en löggjöfinni er skellt á, og svona er það með ýms fleiri atriði frv. En það er hugsunarvilla að heimta af mér, að ég bendi á öll þau atriði nú. Það eru einmitt þau atriði, sem dyljast í fljótu bragði, sem á að athuga betur, finna og ráða bót á. T. d. veitti ekki af að athuga betur undantekningaákvæði 5. gr. Mér dettur í hug í því sambandi hliðstæð undantekningarákvæði verðtollsl. Og ár eftir ár, þegar þessi l. lágu fyrir, var komið með nýjar og nýjar vörutegundir, sem mönnum fannst, að yrðu að vera undanþegnar tollinum. Svona má lengi leita. Þannig hefir hv. meiri hl. tekið eftir því, að ekki er sanngjarnt að undanskilja kvittanir frá ríkissjóði, en ekki bæjar- og sveitarsjóðum og ávísanir til gjalda í sömu sjóði, og ber fram brtt. því viðvíkjandi. En nú getur nokkur vafi leikið á því, hvað er greiðsla í bæjar- og sveitarsjóði. Hvernig er með það t. d., þegar bærinn kostar gas- og rafmagnsstöð? Er það ekki greiðsla í bæjarsjóð að borga gas og rafmagn? Ég fæ ekki betur séð en að svo sé; þótt þetta séu talin sjálfstæð fyrirtæki, eru þau rekin beint af bænum. Slík löggjöf sem þessi græðir alltaf á nýrri athugun, t. d. í bönkunum, og hjá þeim aðilum öðrum, sem mest fá með þessi mál að gera. Ég er hræddur um, að enn séu í þeim ýmsar smugur; ég tók í fyrri ræðu minni dæmi um innheimtumennina, og hæstv. ráðh. tók það í gamni. Ég get vel hugsað mér, að menn kjósi heldur að borga tvisvar inn á reikning með lítilli upphæð, t. d. ef greiða á 39 kr., og sleppa svo við stimpilgjaldið, en að borga þetta allt í einu. Í 9. gr. er talað um, að ekki megi gefa út ávísun eða kvittun í meira en einu lagi fyrir sömu fjárhæð eða greiðslu til þess að komast hjá stimpilgjaldi samkv. l. þessum. Þetta rækist auðvitað á. En hvernig á að eltast við það að hafa upp á slíku? Ég get sem bezt greitt sömu upphæðina, segjum 39 kr., með tveimur tékkum, sem hvor um sig hljóðaði upp á 19.50 kr.

Ekki væri hægt að sjá það á þeim, að þeir hefðu farið til þess að greiða sömu upphæðina. En með þessu móti losna ég við að greiða stimpilgjaldið.

Í 8. gr. er heimild til þess að láta stimpla tékkaheftin í prentsmiðjunni. Þetta er mjög hentugt, einkum ef gjaldið væri ekki nema eitt, og mætti þá hafa heftin tvennskonar, bæði stimpluð og óstimpluð.

Eitt er óvenjulegt og sérkennilegt við þetta frv. — Fjmrh. á að ákveða í reglugerð, hvenær l. öðlist gildi. Ég man ekki til, að slíkt hafi átt sér stað fyrr. Þetta yrðu þá nokkurskonar heimildarl., og ég býst ekki við, að frá lagalegu sjónarmiði sé neitt út á þetta að setja, en þetta er dálítið einkennileg aðferð.

Ég verð að taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að mér finnst ákvæði fyrri málsgr. 4. gr. allhörð. Ef mér er skrifað óstimplað bréf, og mér vísað á einhverja upphæð, þá dugir ekki að ég stimpli bréfið; sendandi fær samt sektir, viðvíkjandi ávísunum, sem koma erlendis frá, skildist mér á hæstv. ráðh., að 4. gr. ætti við íslenzk stimpilmerki. Ég er ekki viss um, að nokkur þörf sé á því, að taka þetta fram. Mér finnst það vera hverjum manni augljóst, að sé ávísunin eða kvittunin stimpluð með íslenzkum stimpilmerkjum, þurfi ekki að stimpla hana aftur.

Mér finnst, að í þessari umr. hafi verið bent á sitt af hverju, sem þurfi athugunar við. Það má kannske segja, að bezti skólinn og bezti undirbúningurinn sé að samþ. lögin og láta þau svo reynast og láta reynsluna vera kennara um, hvernig sé þörf á að laga þau. En mér finnst, að jafnframt eigi að athuga frv. og undirbúa þau sem bezt áður en þau eru gerð að lögum. Ég vil segja það, að frv. var ekki lesið í fjhn. meðan ég starfaði með meiri hl., en það getur vel verið, að meiri hl. hafi ekki talið þess þörf, þar sem n. klofnaði strax. Ég læt fylgja þá aths. frá mér, að ef frv. verður samþ. og gert að l., þá er nauðsynlegt að framfylgja þeim l. með lipurð og lagni. Ég hygg, að stimpilgjöld samkv. l. hafi jafnan verið svo í innheimtu, að embættismenn eða stofnanir hafi borið ábyrgðina, og það hefir aðeins verið tekið af sérstökum skjölum, sem menn gá vel að sér, er þeir fara með. En þessi l. ná yfir allt mögulegt, og það er ómögulegt, að almenningur glöggvi sig til fulls á þessum l. eða skilji þau svo fljótt, að ekki verði fullt af lögbrotum, án þess að menn ætlist til þess eða geri það viljandi, og það þarf langan tíma til þess að fólk geri það.

Þess vegna finnst mér mikilsvert, að hæstv. fjmrh. hefir hugsað sér að hafa ekki nema eitt gjald og hækka þá lágmarksupphæðina, og lækka gjaldið lítilsháttar. Það má þá færa sig upp á skaftið, ef þetta gefst vel og breyta til aftur.