30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Pálmason:

Ég á enga brtt. við fjárlfrv. við þessa umr., og mun því ekki fjölyrða mjög um þau í heild sinni. Þetta er þó vissulega ekki af því, að ég sé ánægður með fjárlfrv. eins og það kemur fyrir frá stj. eða fjvn. En ef ég ætlaði að leggja út á þá braut, að fara að ræða um það, hvað ég tel athugavert við þá stefnu, sem kemur fram í þessu fjárlfrv., þá mundi ég þykja nokkuð langorður, og skal ég því ekki þreyta hv. þm. með því, með því líka að hér eru fáir við og stjórnarliðið sýnilega á því að halda sínu striki án tillits til þess hvað aðrir segja. Ég skal þess vegna reyna að takmarka mál mitt við fáein atriði, sem sérstaklega koma við þann kafla fjárlfrv., sem hér er til umr. nú.

Ég skal þá víkja að því, sem hv. fjvn. hefir að vissu leyti vel gert og stendur í sambandi við rafveitu Austur-Húnvetninga á Blönduósi. Ég tel skylt að þakka það, að hún hefir lagt til, að ríkisábyrgð verði veitt fyrir 60 þús. kr. láni fyrir þetta fyrirtæki. Hv. frsm. meiri hl. tók það að vísu fram í því sambandi, að þetta væri í raun og veru talsvert athugavert fyrirtæki, og að n. hefði, að mér skildist, gert það með samvizkunnar mótmælum að mæla með þessari ábyrgð. Í því sambandi vil ég víkja dálítið nánar að þessu atriði. Eins og kunnugt er, þá hefir þetta fyrirtæki farið mjög fram úr áætlun þeirri, sem upphaflega var gert ráð fyrir, og þess vegna var farið fram á þessa ríkisábyrgð. En ég lít svo á, og þannig munu margir Húnvetningar líta á, að ríkisvaldið eigi að mjög miklu leyti sök á því, að þetta fyrirtæki hefir farið svo fram úr áætlun, sem raun ber vitni um, og því fremur beri þinginu nokkur skylda til þess að veita þá ábyrgðarheimild, sem hér um ræðir. Ég skal taka það fram, að ég á engan þátt í því, hvorki beint eða óbeint, hvað meiri hl. fjvn. segir um rafmagnseftirlit ríkisins í nál., en ég get þó látið það í ljós, að eftir þeirri reynslu, sem við Húnvetningar höfum fengið af þeim eftirlitsmönnum, þá held ég, að fjvn. hafi ekki gengið of langt í nál. Því að sannleikurinn er sá, að það er almennt álitið, að þeir hafi í sínu starfi, hvað þetta fyrirtæki snertir, reynzt illa. Annars er það svo, að þó að þetta fyrirtæki hafi farið um 1/3 fram úr áætlun, þá er sú orka, sem framleidd er þarna, svo mikil, að þrátt fyrir alla óstjórn á framkvæmdinni mun þetta vera ein allra ódýrasta raforka, sem framleidd er í landinu. En að útkoman er ekki verri, stafar fyrst og fremst af því, að framúrskarandi góð aðstaða er þarna til virkjunar, og það er sannarlega eigi framkvæmdinni að þakka.

Þá gerir hv. fjvn. till. um, að lækkaður verði styrkur til kvennaskólans á Blönduósi um 3000 kr. Og þetta er, eftir því sem ég kemst næst, eini skólinn, sem fjvn. leggur til, að minnkaður sé styrkur við. Um þennan skóla er það að segja, að hann er í svo miklu áliti, að nú þegar er búið að neita mörgum stúlkum um upptöku, sem sótt hafa um skólavist fyrir næsta vetur. Yfirleitt hefir þessi skóli verið í almennum metum síðan hin fjölmenntaða og ágæta forstöðukona frú Hulda Stefánsdóttir tók þar við skólastjórn. Það er því í raun og veru ekki aðeins mál Austur-Húnvetninga, sem hér er um að ræða, heldur miklu fremur mál allrar þjóðarinnar, því að það eru ekki fremur stúlkur úr þessu héraði, sem skólann sækja, en úr öllum sýslum landsins, og jafnvel héðan úr Rvík. Ég hefi, síðan till. kom fram, talað við tvo menn úr skólan. Segja þeir það sama báðir, að það sé sama og að leggja skólann niður, ef styrkurinn verður lækkaður um 3000 kr. Ég hefi hér nokkrar tölur úr síðustu reikningum skólans:

Gjaldamegin:

Stjórnarkostnaður ..................

1132 kr.

Laun fjögurra kennslukvenna ......

6570 —

Vinnufólk (karlmaður og kona) ...

1811 —

Eldsneyti og ljós ..................

2744 —

Ýmislegt, svo sem flutningar o. fl. ..

682 —

Vátryggingargjöld ..................

244 —

Keypt ýmislegt viðvíkjandi náminu ..

3051 —

Samtals

16198 kr.

Tekjur skólans:

Styrkur úr ríkissjóði ...............

14000 kr.

Skólagjöld .........................

2010 -

Styrkur úr sýslusj. Húnavatnsýslna

1000 —

Samtals

17010 kr.

Það verður ekki séð, að hægt sé að draga úr gjöldum skólans, svo að nokkru nemi, nema ef sú er ætlun n. að lækka laun kennslukvenna, en það virðist í fullu ósamræmi við þá stefnu, sem nú er uppi á Alþingi, að lækka engin laun, bókstaflega engin. Og við þetta get ég bætt miklu enn. Í fyrsta lagi kemur þarna upp rafmagnsveita á árinu 1935. Við það hækkar liðurinn ljós og hiti. Sýslufélag Austur-Húnvetninga á 1/3 í þessari rafveitu og er það vissulega ekki til að draga kostnaðinn niður vegna skólans og sjúkrahússins. Þá vil ég geta þess, hv. fjvn. og Alþingi til leiðbeiningar, að sýslun. Vestur-Húnavatnssýslu hefir neitað að greiða sitt tillag, 500 kr., vegna þess að á síðustu fjárl. var það ekki gert að skilyrði fyrir ríkisstyrknum, að sýslun. legði fram þetta fé.

Ennfremur má geta þess, að þegar hin nýja forstöðukona tók við fyrir nokkrum árum, þá var kennslukonum fækkað úr 5 niður í 4, og tók hún við þeim störfum, sem tvær kennslukonur höfðu áður haft. Skólan. ákvað nú á þessu ári að bæta við 5. kennslukonunni aftur, og sannar það með öðru, að ekki er fært að lækka þennan styrk.

Ég skal geta þess, að mér finnst vert að nefna fleiri skóla en Hallormsstaðaskóla, þegar rætt er um þessa styrki. Þann skóla þekki ég eigi nema af afspurn, en ég leyfi mér að efast um, að nemendafjöldi sé þar eins mikill eins og hv. frsm. vill vera láta. Þó kann að vera, að hann hafi minni styrk en þörf er á. Til eftirfarandi fimm skóla eru veittir þessir styrkir:

— Hvanneyrarskóla ...............

21800 —

— Stýrimannaskólans í Reykjavík

21100 —

— Vélstjóraskólans í Reykjavík

21600 —

— Kvennaskólans í Reykjavík

28000 —

Fjvn. hefir ekki gert tilraun til að lækka nokkurn þessara styrkja, þó að þeir séu hærri en til kvennaskólans á Blönduósi. Annars hefði þetta verið skiljanlegt, ef tekin hefði verið upp sú regla í fjárl. að lækka skólastyrki. En af því að svo virðist ekki vera, þykir mér undarleg þessi till., er hér um ræðir.

Þá er rétt að nefna þá upphæð, sem meiri hl. fjvn. leggur til, að veitt sé til að reisa nýja skóla, sem er 35 þús. kr. auk þess, sem er í frv. stj. Ég held nú, að landinu sé meiri þörf á öðru en nýjum skólum. Auk þess skiptir hv. fjvn. niður 60 þús. kr. í hina og þessa persónulega styrki, nauðsynlega og ónauðsynlega, til viðbótar því, sem í frv. er.

Þá vil ég að lokum grípa í þann streng, sem mjög hefir verið handleikinn hér í kvöld, og minnast fáum orðum á Búnaðarfél. Ísl. Þarf ég ekki að fara að lýsa nytsemi félagsins og framkvæmda þess undanfarin ár, en mun halda mér við það, sem er aðalumræðuefnið hér, hvert eigi að vera skipulag málefna landbúnaðarins og Búnaðarfél.

Hv. forsrh. sagði í kvöld, að fé það, sem Búnaðarfél. hefði fengið undanfarin ár, hefði ekki komið að fullu gagni, og mætti því segja, að stofnunin væri ekki starfhæf. Ég efast um, að hann geti sannað, að fé, sem ríkið hefir lagt í ýmsar stofnanir, hafi alltaf komið að fullu gagni. Hvað Búnaðarfél. snertir, þá er það umbótafélag, tilrauna- og leiðbeiningafélagsskapur, og ekki nema að nokkru leyti framkvæmdafélagsskapur. Um slíkt félag verður aldrei hægt að segja fyrir víst, hvort það fé, sem því er veitt, komi að fullu gagni, a. m. k. ekki fyrr en eftir mörg ár. Segjum þó, að ég gerði þeim, sem þetta segja, til geðs að viðurkenna þetta last þeirra um félagið. Hver á þá sökina? Ég myndi segja, að Alþingi og undanfarnar ríkisstj. ættu hana. Alþingi hefir kosið meiri hl. stj. félagsins, þann meiri hl., sem hefir vald til að taka ráðin af búnaðarþinginu eða þverskallast við að framkvæma till. þess og fyrirmæli.

Hv. frsm. n. talaði mikið um söguleg drög í sambandi við Búnaðarfél. Honum tókst vel að sanna, að það, sem hér er farið fram á af ríkisstj. hálfu, sé ekki annað en vitleysa. Hann lýsti því, að allt frá 1923 og fram á þennan dag hefði annarsvegar staðið Sigurður Sigurðsson og meiri hl. búnaðarþingsins, en hinsvegar Alþingi. Þetta hefir gert Búnaðarfél. að þeirri stofnun, sem þeir hallmæla svo mjög. Hvað sannar þetta? Það sannar, að um leið og þeir eru að lýsa þeirri baráttu, sem á sér stað þarna á milli, þá vilja þeir þvinga félagið undir Alþingi og ríkisvaldið og taka þar með ráðin af bændum sjálfum. Rök hv. frsm. miða því öll að því að sanna, að því meiri afskipti sem Alþingi hefir af þessum félagsskap, því verr hefir stefnt.

Aths. sú, sem sett er í fjárlfrv. stj. og skilyrðin fyrir styrkveitingunni til Búnaðarfél., hafa þrennt að geyma. Í fyrsta lagi kemur þar fram vantraust á Búnaðarfél., í öðru lagi er þar gert ráð fyrir, að landbrh. verði að samþ., hver vera skuli búnaðarmálastjóri, og í þriðja lagi er þessi aths. full af vantrausti á búnaðarþinginu, en búnaðarþingið á eitt að hafa yfirráðin í því efni, sem hér um ræðir.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir komið fram frv. frá hv. 2. þm. Rang. þess efnis, að búnaðarþing kjósi alla stj. félagsins, en Alþingi aðeins annan endurskoðenda. Þetta hefði ég talið hið eina rétta í því sambandi, sem hér er um að ræða. En það hefir verið tafið fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga gegnum þingið. Tel ég það illa farið, ef stj. og þingmeirihl. kemur í veg fyrir, að búnaðarþingið hafi þarna ráðin, eins og því ber. Bændur eru því yfirleitt samþykkir, að búnaðarmálastjóri eiga að vera einn og að búnaðarþing ráði skipun stj. Búnaðarfél.

Hv. frsm. hélt því fram, að það væri ákveðnum stjórnmálamönnum, sem á undanförnum árum hefðu starfað á Alþingi, að kenna, að þessi höft voru sett á búnaðarþing Íslands. Vildi hann kenna sjálfstæðismönnum og Bændaflokksmönnum um þetta. Ég get viðurkennt, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa verið á móti því að gera hér eðlilega breytingu á. En þó að allir sjálfstæðismenn hefðu verið þessu mófallnir, hefði það ekki dugað til, ef á hina hliðina hefði verið vilji á að breyta þessu, því að Framsókn ásamt sósíalistum hefir undanfarið haft meiri hl. á Alþingi. Annaðhvort hafa framsóknarmenn unnið á móti því, að stj. Búnaðarfél. væri kosin af búnaðarþinginu, eða þeir hafa borið kápuna á báðum öxlum og látizt vilja annað en þeir vildu í raun og veru.

Hvað sem liður allri flokkaskiptingu, tel ég búnaðarfélagsskapinn eiga að vera óháðan félagsskap bænda landsins. Ég mótmæli því, að ástæða sé til að breyta þeirri skipan, sem höfð hefir verið við uppbyggingu búnaðarþingsins, því að það er hið eina eðlilega skipulag.

Eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. Mýr., sem er í stj. Búnaðarfél., undraði mig að heyra niðurlag þessarar á marga lund skýru ræðu. Það var gagnstætt því, sem hann var áður búinn að segja. Hann ætlaði að sættast á að fresta þessu til næsta þings og láta allt vera í sama horfinu þangað til. Harma ég, að hv. þm. skyldi komast út á slíkar villigötur.

Ég get gengið inn á till. hv. þm. V.-Húnv., því að hún er ekki óeðlileg. Annars tel ég þessum málum vel fyrir komið, ef tryggt er, að búnaðarþing kjósi stj. Búnaðarfél., því að þá ræður búnaðarþing yfir þessum málum og getur gert þær breytingar, sem bændur almennt óska. Og ég held það tryggt, að ef fulltrúar búnaðarþings framkvæma ekki vilja bænda, þá ráði þeir ekki lengi. Þá verður skipt um menn, eins og vera ber. Alþingi getur ráðið því, hversu mikið fé Búnaðarfél. er veitt, en búnaðarþing og búnaðarfélagsstj. á að ráða, hvernig því er ráðstafað.

Það er skoðun sumra manna, að Búnaðarfél. eigi að vera deild í stjórnarráðinn. Ég held, að það geti ekki orðið happasælt, og er því eindregið mótfallinn.

Mun ég svo ekki segja fleira um þetta mál, nema mér gefist til þess nýtt ákveðið tilefni, enda þótt ýmislegt sé eftir, sem ég myndi kjósa að minnast á. En nú tekur að líða á nóttina, og læt ég því hér staðar numið.