30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Nú er orðið svo framorðið, að ekki er ástæða til að hafa langar umr., enda þarf ég ekki mörgu að svara.

Mér þótti leitt að heyra, að hæstv. fjmrh. hefir látið undir höfuð leggjast að láta þá menn, sem laun taka utan launal., vita, að þeir gætu átt von á launalækkun eða ella fara úr þjónustu ríkisins. Hæstv. ráðh. hlýtur þá að hafa hugsað sér, að laun þeirra, sem laun taka eftir launalögum, lækki strax í byrjun næsta árs, en laun þeirra, sem taka þau utan launalaga, haldist óbreytt. Ég sé ekki neina sanngirni í þessu. Það þýðir, að 6 fyrstu mánuði ársins getur engin niðurfærsla átt sér stað á launum utan launalaga, og verður þá sparnaðurinn lítill. Tel ég stj. mjög ámælisverða fyrir þessa vanrækslu. Mér skildist á hæstv. ráðh., að ekki væru líkur til, að mikið sparaðist á þessari lækkun launa utan launalaganna, en það er þá af því, að mönnunum hefir ekki verið sagt upp og fyrri hluti ársins 1935 fellur þess vegna undan.

Þá var það hv. 1. þm. N.-M., sem var reiður út af því, að við værum að ráðast á Eiðaskóla. Mér er ekki ljúft að flytja svona till. En ástæðurnar eru eins og allir vita, og ég lít svo á, þó að stjórnarflokkarnir geri það ekki, að nauðsyn sé á að spara, enda er þessi till. í samræmi við þá stefnu, sem stj. segist hafa, sem sé að spara sem mest erlend innkaup. Ég má víst ekki fara út í samgöngur á sjó vegna hæstv. forseta. Hann sagði, að það væru tvennir tímar hjá okkur með vegina eystra, því að í byrjun hefðu allir sjálfstæðismenn á þingi verið með Fjarðarheiðarveginum. En var hann ekki sjálfur með honum í byrjun? Ég held, að svo hafi verið. Og við sjálfstæðismenn erum honum meðmæltir enn þann dag í dag.

Þá skal ég snúa mér að hv. frsm. meiri hl., sem hélt hér langa ræðu. Kem ég þá fyrst að kvennaskólunum. Ég gerði honum það tilboð að taka aftur till. um skólana á Hallormsstað og Laugum, ef hann vildi taka aftur till. um lækkun til Blönduósskóla. Ef hann vildi sýna sanngirni, mundi hann ganga að þessu. Hann mun nú að vísu vilja læða inn þeim grun, að veitt sé tiltölulega meira til Blönduósskólans en hinna skólanna, en ég hefi sýnt, að það er rangt, og ég teldi það hróplegt ranglæti að samþ. þessa lækkun til Blönduósskólans, en hækka hjá hlutum kvennaskólunum. Nægir mér í því efni að vísa til ræðu hv. þm. A.-Húnv.

Viðvíkjandi Gagnfræðaskóla Reykjavíkur er sama að segja og um bygginguna á Eiðum. Ég álít, að við höfum ekki ráð á að gera slíkt nú. Hv. frsm. sagði, að það væri ekki meira þó að byggðir væru skólar heldur en „villur“ einstakra manna, sem byggðar væru upp á 100 þús. kr. En er það þá til eftirbreytni? Hann lagði áherzlu á, að það yki atvinnu að reisa skóla, en ætli líkt megi þá ekki segja um þessar „villur“?

Ég skal ekki mæta hér um Einar Helgason. En það er gott að heyra, að sá maður úr stjórn Búnaðarfél., sem á sæti hér á þingi, er á móti brtt. um Einar. Það er líka skiljanlegt, að félagið vilji ekki greiða manni laun, sem farinn er úr þjónustu þess fyrir löngu og hefir annað starf með höndum. Svipað er að segja um Jóhann Kristjánsson. Mér þykir óvíst, að Búnaðarbankinn vilji borga honum að öllu leyti.

Þá er elliheimilið á Grund. Það kom greinilega í ljós hjá hv. frsm., að hann hélt, að þetta væri burgeisaheimili og þess vegna mætti ekki sinna því neitt. Ég veit ekki, hvort hann hefir komið þarna, en ef hann hefir komið þar, þá skýrir hann vísvitandi rangt frá, því að vissulega eru þar engir burgeisar, heldur fátæklingar og ekkert annað fólk.

Þá ræddi hann síðast um till. á þskj. 582. Það var auðskilið, að hann áleit hana svo kænlega orðaða, að eftir henni væri hægt að lækka laun ýmissa manna, svo sem framkvæmdastjóra Eimskipafélagsins og framkvæmdastjóra Fisksölusamlagsins. Ég hefi athugað till. vandlega og finn þar enga stoð þess, að þetta sé hægt. Ég hefi líka heyrt forstjóra Eimskipafélagsins segja, að hann hefði haft hjá S. Í. S. sömu laun og þau, er hann hefir nú. Það var ekki við því að búast, að hann vildi fara til Eimskipafél. fyrir lægri laun, og ef ætti að lækka þau nú, væri svikið það loforð, sem hann hefir fengið í byrjun, því að allir vita, að hann var ekki rekinn frá S. Í. S. Þá talaði hann um launin á varðskipunum og hældi sér af því, að hann hefði sett þau niður 1928. Hann ætti að hætta að hæla sér af þessu, því að nú liggur fyrir þinginu frv., sem hækkar þau upp í það, sem þau voru í byrjun, og ég man ekki til þess, að þessi hv. þm. opnaði sinn munn í Ed., þegar frv. var þar til umr., svo að hann virðist hafa skipt um skoðun síðan 1928. Hann sagði, að einhver skipstjóri hefði sagt sér um annan skipstjóra, að hann hefði eitt sinn verið á 50 þús. kr. biðlaunum. Ég trúi því ekki, að sú saga sé sönn, en segjum, að svo sé. Heldur þá þessi hv. þm., að setja eigi lög eftir slíkum einstökum tilfellum? Mér hefir verið kennt, að lög ætti að setja með hliðsjón af því almenna, en ekki eftir undantekningum.

Hv. frsm. vildi gera lítið úr því, að Sogsvirkjunin kæmist á. Ég hygg nú, að það muni verða, og ég er á öfugri skoðun við hann um það, að hún verði byrði á útlendu viðskiptunum. Ég held, að svo mikið sparist á kolum og olíu, að það nemi því, sem þarf að greiða í vexti og afborgun af láninu árlega. Líkt er að segja um till. hv. þm. Snæf. Útreikningar hv. frsm. um þetta eru því tóm vitleysa.

Þá kem ég að atvinnubótafénu. Ég sagði, að ég hefði ekki trú á því, að ein millj. kr. mundi koma frá bæjarfélögunum gegn þessari hálfu millj. frá ríkinu. Það var auðfundið á hv. frsm., að hann er sannfærður um, að þetta er rétt hjá mér, enda er nú talið, að von sé á brtt. við 3. umr. Það er auðvitað óhætt að lofa svona háu framlagi úr ríkissjóði, þegar vitað er, að kaupstaðirnir geta ekki uppfyllt skilyrðin um framlagið á móti. En þetta er helzt til gagnsætt „bluff“ og við skulum sjá, hvort ekki kemur brtt. við 3. umr.

Hann sagði, að ég hefði séð við nánari athugun, að hér þyrfti að byggja, af því að fólkinu fjölgaði. Ég hefi alltaf vitað þetta. En kemur hann ekki auga á, að hér sé neitt byggt nema verkamannabústaðir? Hann talaði um „villurnar“, hvað þær væru dýrar. En heldur hann þá, að ekki sé búið í þeim? Hér er líka byggt mikið af öðrum húsum, og ef hann hefir ekki tekið eftir þeim, vildi ég biðja hann að líta á nýju göturnar ofan við Skólavörðuholtið. Ég hygg, að hann mundi ekki komast hjá að sjá þar mörg ný hús, þó að það séu kannske hvorki „villur“ eða verkamannabústaðir. Hann minntist á tóbakseinkasöluna og sagði, að það ætti að taka kaupmannagróðann og selja hann í húsbyggingar. Það má segja svo, en það getur þurft að taka hann til annars. Hér er heldur eigi eingöngu um kaupmannagróða að ræða. Hagnaður verzlunarinnar er líka tekinn með hækkuðu verði tóbaksins. Það féll í verði þegar einkasalan var afnumin. Hann sagði, að gerðir hefðu verið samningar um þetta fé, þegar einkasalan var stofnuð. Ég var ekki við þá samninga riðinn, og ef um svik er að ræða nú, þá hefir hann sjálfur svikið áður, eða hans flokkur.

Þá leiddi hv. frsm. mig norður í Skagafjörð og benti mér á hús, sem bændurnir hefðu byggt þar. En ég er hræddur um, að sumir, sem byggt hafa fyrir fé Byggingar- og landnámssjóðs, vildu nú gjarna, að þeir hefðu ekki gert það, og mér leikur grunur á, að maður sá, er hann nefndi, vildi nú fremur hafa byggt á annan veg.

Ég skal ekki ræða mikið um Búnaðarfél., því að um það er margt búið að segja. En að því er snertir samþykkt á áætluninni er það að segja, að þó að það hafi staðið í fjárl. áður, að hún skyldi samþ. af stj., þá hefir það ekki verið gert. Fjvn. hefir séð áætlunina, og við það hefir verið látið sitja. Þetta hefir því ekki verið annað en form, sem vel má sleppa. Aths. í frv. var svo úr garði gerð, að stjórnarflokkarnir gátu ekki samþ. hana, svo að það er bezt fyrir þá, að hún sé strikuð út. Það er heppilegt fyrir þá, að ekki sé mikið um hana rætt, því að hún er einsdæmi í sinni röð.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að handjárn hefðu verið lögð á Búnaðarfél. og Sig. Sig. 1923, sem hefði verið klaufi í verzlun þá. Ég man ekki betur en að öll landbn. væri þá sammála um, hvernig kosning í stjórn Búnaðarfél. ætti fram að fara. Annars mun hv. þm. Borgf. geta upplýst þetta, því að hann var í landbn. þá. En það er víst, að ekki kom fram í umr. eitt orð til andmæla þessu, og þáv. ráðh. Framsfl. lýsti því yfir, að hann gæti fylgt frv. vegna þessarar breyt., en hann gat ekki fylgt því áður, af því að Búnaðarfél. fengi þá of mikil völd. Ef um handjárn hefir verið að ræða, þá hygg ég, að hv. frsm. hafi nú tekið þau til notkunar í sínum flokki. Það var einkennilegt að heyra eina yfirlýsingu, sem hv. frsm. gaf í þessu sambandi, og ég held nú raunar, að það hafi slegið út í fyrir honum þá. Hann sagði, að hinir þingkjörnu menn í stjórn Búnaðarfél. hefðu alltaf síðan 1923 verið á móti bændum. Hver er það, sem hefir verið í þessari stjórn allan tímann? Það er Tryggvi Þórhallsson, maðurinn, sem hv. frsm. hefir hafið til skýjanna öll þessi ár fyrir bændavináttu. Nú segir hann 1934, að þessi maður hafi alltaf síðan 1923 verið á móti bændum. Það er ekki algengt, að menn éti ofan í sig á einni mínútu svo sem 100 blaðagreinar, eins og hv. frsm. meiri hl. hefir nú gert. Ég vona, að honum verði gott af þessari munnfylli.