11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

148. mál, stimpilgjald

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla ekki að þrátta mikið um þetta mál. En ég álít, að tekjurnar af þessum lögum verði tæplega miklar og borgi sig ekki vegna þeirra óþæginda, sem þau valda. Ég skal viðurkenna, að það er leiðinlegt að karpa um einstök atriði, og ég skal gera sem minnst að því. Ég er óánægður með undirtektir hæstv. ráðh. um það, er ég sagði viðvíkjandi 4. gr., og er ég hræddur um, að hann hafi misskilið mig. Ég talaði um, að ákvæði 4. gr. síðari málsgr. væri óþarft. Það er óþarfi að taka það fram, að óstimpluð ávísun sé stimpilskyld, ef gefin sé út erlendis, og að erlendar ávísanir séu stimplaðar íslenzkum stimpilmerkjum er svo fjarlægur möguleiki, að það þarf ekki að reikna með honum, en ef það er tekið fram, getur það gefið undir fótinn um, að ekki þurfi að stimpla með íslenzkum merkjum, ef stimplað er með útlendum.

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um, hvað átt er við í 1. gr. með orðinu „vöruávísanir“, hvers vegna þetta er tekið fram. (Fjmrh.: Ég skal skýra það; þetta er dálítið sérstakt). Hefir ráðh. athugað, hvað hægt er að koma miklu undir þetta, ef engin nánari ákvæði eru til skýringar, t. d. mánaðarviðskiptin hér í Rvík? Einnig er orðalagið í B-lið óheppilegt. Þar stendur: „Allar viðurkenningar fyrir greiðslu eða innborgun á ákveðinni fjárhæð.“ Ef þetta er ekki nánar tekið fram, get ég komizt af með að gefa viðurkenningu eitthvað á þessa leið: „N. N. er skuldlaus við mig með öllu til þessa dags.“ Engin ákveðin fjárhæð er nefnd. (Fjmrh.: Það er ómögulegt). Hæstv. ráðh. má vita það, að þegar um skattalög er að ræða, reyna menn að smjúga um þau göt, sem á l. kunna að vera. Svo stendur hér í niðurlagi B-liðs, að sama sé, „hvort kvittun er undirrituð eða eigi.“ Ég held, að ekki sé hægt að tala um kvittun, sem ekki er undirrituð. Ég skal náttúrlega ekki fortaka, að hægt sé að koma því einhvernveginn svoleiðis fyrir, t. d.: „Í dag hefir N. N. greitt A. A.“ o. s. frv. og skrifa svo ekki undir, en það er a. m. k. ekki venjulegt kvittanaform. (Fjmrh.: Það mætti nota það til þess að skjóta sér undan). Ef ráðh. heldur, að svona atriði verði notuð til að skjóta sér undan, þá held ég, að þau atriði verði ekki síður notuð, sem eru jafnskýr eða óákveðin eins og ég benti á áðan. Svo stendur hér líka í þessum sama lið, að stimpilskyldar séu kvittanir, hvort sem þær séu „færðar á reikninga eða önnur skjöl.“ Nú tek ég á móti greiðslu í peningum og færi í bók, en gef enga sérstaka kvittun, þá sýnist mér, að ekki sé hægt að stimpla, því að venjulega kassabók er ekki hægt að stimpla. (Fjmrh. Það verður fært í reikning). Á þá að stimpla í bókina? (Fjmrh.: Nei). Alveg rétt, upphæðin er færð í reikning í bók, og þá er ekki hægt að stimpla, af þeirri einföldu ástæðu, að þá er ekkert skjal gefið út, sem hægt er að stimpla. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að í rauninni eru þetta heimildarlög, og fjmrh. er ekki eingöngu gefin heimild til að ákveða, hvenær þau skuli koma til framkvæmda eða ganga í gildi, heldur líka gefin heimild til að ákveða, hvað hátt gjaldið skuli vera.