11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Í ræðu minni áður í þessu máli batt ég mig við að gera grein fyrir brtt. meiri hl. fjhn. Það hefir ekkert verið mælt á móti þessum till., heldur hefir það komið fram, að hv. dm. teldu þær frekar til bóta, og hefi ég því engu að svara í því sambandi. Hvað almenn andmæli gegn frv. sjálfu snertir, er hæstv. fjmrh. hér til andsvara, og hirði ég því eigi um að taka þau til athugunar. Ég kvaddi mér hinsvegar hljóðs út af þeim orðum hv. 1. þm. Reykv., að frv. hefði ekki verið lesið í fjhn. meðan n. var óklofin um málið. Þetta gæti nú gefið til kynna, að þessi n. væri nokkuð óvandvirk, og sé ég því ástæðu til að gera aths. við þessi ummæli hv. þm.

Ég hefi hér fyrir framan mig gerðabók n. Fundargerð 23. fundar hefst svo, með leyfi hæstv. forseta. „Mánudag 5. des. kl. 9 árdegis. Allir á fundi. Tekið fyrir: 1. Frv. til l. um viðauka við 1. nr. 75 27. júní 1921, um stimpilmerki. Frv. lesið og samþ. að mæla með því með breytingum. Frsm. kosinn Bernharð Stefánsson. M. J. er mótfallinn frv.“ — Nú voru á þessum fundi tekin fyrir fleiri mál, og þar á meðal mál, sem hv. 1. þm. Reykv. var sammála n. um. Þessi ummæli hv. þm. fá því ekki staðizt. N. veitti frv. þá athygli, er hún taldi nauðsynlega, og það var fyrir tilmæli n., að athugun fór fram á því í bönkunum, hvernig þetta mundi verka.

Ég býst við, að þessi orð hv. þm. byggist á misminni, og vænti því þess, að hann kannist við, að rétt sé með farið hjá mér.