11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

148. mál, stimpilgjald

Pétur Magnússon:

Ég álít, að sú tekjuöflunaraðferð, sem ráðgerð er í þessu frv., hafi einn mikinn kost. Hann er sá, að greiðslan er lítt tilfinnanleg fyrir gjaldendurna. En það er mikill kostur á allri skattalöggjöf. En tveggja atriða þarf sérstaklega að gæta í sambandi við löggjöf, slíka sem þessa. Í fyrsta lagi verður að krefjast þess, að framkvæmd löggjafarinnar sé einföld.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fjármálaráðuneytið láti gefa út ávísanahefti og kvittanahefti með áletruðu greiðslumerki, og þessi eyðublöð séu notuð í stað þess að líma merkið á ávísunina eða kvittunina. Þetta miðar að því að gera lögin einfaldari í framkvæmd, og ég efa ekki, að margir munu fara þessa leið, t. d. verzlanirnar. En það er þó einn galli á þessari tilhögun, og hann er sá, að greiðslumerkin eru þrennskonar. Að vísu er heimilt að víkja frá þessu og hafa gjaldið aðeins eitt, en engin vissa er fyrir því, að sú leið verði farin, enda er hún ef til vill hæpin. (Fjmrh.: Ráðuneytið mundi þó fara þessa leið). Mér hafði nú dottið í hug, hvort eigi mætti fara hér milliveginn og hafa gjöldin tvennskonar; það yrði ekki svo flókið. Ég er hinsvegar í vafa um, hvort nokkrar ávísanir eða kvittanir eiga að vera stimpilgjaldsfrjálsar, nema þær, er snerta hið opinbera, því að þegar gjaldið er komið niður í t. d. 5 au., láta fáir sig muna um það.

Annað skilyrði, sem krefjast ber, að uppfyllt sé í sambandi við þessa löggjöf, er það, að gjöldunum sé stillt svo í hóf, að þau verði mönnum ekki tilfinnanleg. Ég tel vafa á, að þessa sé nægilega gætt. Í frv. er gert ráð fyrir 50 au. gjaldi sem hámarksgjaldi, af 500 kr. og þar yfir. (Fjmrh.: Fasta gjaldið mætti ekki vera svo hátt). Nei, það yrði kannske lægra, en væri það eitthvað nálægt þessu, yrðu þetta líka talsvert tilfinnanleg útgjöld, t. d. fyrir þá, sem nota mikið tékka til greiðslu. (Fjmrh.: Samkv. þeirri rannsókn, er gerð var í Útvegsbankanum, er meðalgjaldið þar 25 au.). Nú, það yrðu þá 12.50 kr. á hefti samkv. því, en engin sönnun er fyrir því, að gjaldið geti ekki orðið meira að meðaltali.

Ég vildi því beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann ásamt hv. fjhn. vildi ekki athuga, hvort eigi megi færa hámarksgjaldið niður, en hafa hinsvegar greiðslumerkin tvennskonar.