11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

148. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að kasta neinni rýrð á hv. fjhn. og það má vel vera, að mig misminni það, að frv. hafi eigi verið lesið þar. Það má vera, að frv. hafi verið lesið í n., en ég hefi veitt því minni athygli vegna þess, að mér hefir fundizt, að taka bæri ráðleggingar stjórnar Landsbankans til greina, en hún hefir varað við að setja slík l. að lítt rannsökuðu máli. Það er því vegna þess að ég hefi viljað fresta þessu máli, að ég hefi veitt lestri frv. minni athygli. Bókunina tek ég fullkomlega gilda, þótt þetta „M. J.“ ætti kannske frekar að standa á undan en eftir.

Hv. 2. þm. Rang. sagðist ekki vera andvígur hugsun þessa frv. En mér fannst hv. þm. afsanna þau ummæli sjálfs sín, að menn munaði ekki um þetta gjald, með því að sýna fram á það síðar í ræðu sinni, hve kostnaðarsöm kaupin á tékka- og kvittanaheftum yrðu. Það getur svo farið um menn, sem mikið nota þetta, að það slagi hátt upp í tekjuskatt þeirra.

Út af fyrirspurn minni um það, hvort stofnanir, sem bæjarfélögin reka, en eru reikningslega sjálfstæðar, eins og t. d. gasstöðin og rafmagnsstöðin hér í Rvík, falla undir 2. brtt. n., vildi ég bæta við símanum, hvort kvittanir fyrir símagjöldum falla hér undir, eða útvarpsgjöld t. d. Þá er það atriðið í 5. gr. B. 4.: Kvittanir eða viðurkenningar fyrir móttöku íslenzkra afurða beint frá framleiðendum skulu vera undanþegnar þessu gjaldi, enda nemi þær ekki yfir 600 kr. Ég sé nú ekki, hvaða ástæða er til að undantaka þessar greiðslur, og virðist þetta frekast bera keim af því að gera þetta gjald pólitískt. Ef ég kaupi mér t. d. kjöttunnu, eins og ég eigi ekki alveg eins að borga þetta gjald í sambandi við það eins og hvað annað. Eða ef ég kaupi fisk eða hval, hvaða ástæða er til að undantaka þetta gjaldinu frekar en annað? Þá er það B. 6. í 5. gr., að kvittanir fyrir víxlum eða ávísunum, sem afhent er til innheimtu eða til sýningar, skulu vera undanþegnar þessu gjaldi. Póstkröfur eru eitt form þessarar innheimtu. Á að stimpla þær? Oft er óvissa um, hvort póstkröfur verði greiddar, en ef þær eru greiddar, afhendir póstmaðurinn kvittunina. Hver á nú að stimpla í þessu tilfelli, er það pósthúsið eða einhver annar? Leynihólfin í þessum l. eru nokkuð mörg.

Viðvíkjandi vöruávísunum er það að segja, að mér finnst, að þetta ætti að fella niður. Þetta er bara yfirlýsing um, að maður megi taka út vörur. Því er álíka farið og ef ég skrifaði kunningja mínum úti á landi, að hann skyldi senda son sinn suður til náms t. d., ég skyldi lána honum 50 kr. á mánuði. Mér skildist, að þetta væri ávísun, og skildi því ekki, hvers vegna stimpilgjald átti ekki að greiðast.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Það, sem ég sérstaklega vildi fá upplýst, er það, hvort ávísanir, sem gefnar eru út af stofnunum, sem bæjarfélögin reka, eru undanþegnar þessu gjaldi, og hvort t. d. útvarpsgjöldin eru það.