14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

155. mál, ríkisborgararéttur

Emil Jónsson:

Á þskj. 785 hefi ég borið fram brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, og ætla ég að leyfa mér að fara nokkrum orðum um hana.

Í frv. er þess getið, að skilyrði fyrir því, að menn öðlist ríkisborgararétt hér á landi, sé að hlutaðeigendur hafi „aldrei notið fátækrastyrks um þann tíma“, sem þeir þurfa að hafa verið búsettir hér á landi til þess að geta fengið ríkisborgarárétt, en það eru 10 ár. Ég vildi leyfa mér að gera að till. minni, að í stað þessa orðalags kæmi: „standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk“. Mér þykir nokkuð hart að gengið, að það sé beinlínis gert að skilyrði, að hlutaðeigandi maður hafi aldrei þurft á styrk að halda, því að það getur vel verið ýmissa orsaka vegna, að hann hafi þurft þess, og alls ekki að honum sjálfráðum. Ef hann hefir greitt styrkinn að fullu eða hlutaðeigandi sveitarstjórn hefir gefið honum skuldina eftir, álít ég, að hann verðskuldi ekki, af þeim orsökum, að hafa einu sinni þurft á styrk að halda, að verða án þessa réttar. — Ég tel ekki þörf á að fara frekari orðum um þetta, það er svo augljóst mál.

Ég veit um góða og gegna menn, sem mundu geta komið til greina á þennan hátt, og þess vegna er till. framkomin. Vænti ég svo, að hv. dm. taki henni vel og sjái sér fært að samþ. hana.