08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Út af ræðu hv. 4. landsk. vil ég taka það fram, að það er ekki okkur að kenna, sem höfum flutt brtt. á þskj. 149, þótt orðalagið á fyrirsögn hennar sé á þann veg, sem hv. þm. taldi, að vera mundi rangt. Við urðum eðlilega að orða fyrirsögn hennar í samræmi við frv. það, sem hún er miðuð við.

Annars vildi ég með örfáum orðum minnast á þessa brtt. okkar hv. 10. landsk., sem ekki hefir fundið náð hjá hv. samgmn. eða landssímastjóra. Mér finnst ekki nema eðlilegt, þó að hv. n. hafi snúizt gegn brtt. þessari, ef hún hefir eingöngu byggt á till. og umsögn landssímastjóra, þar sem hann segir, að landssímalínur á þessum stöðum komi ekki að notum nema einum bæ hvor. En þetta er bara algerlega rangt, því að hvor línan út af fyrir sig kemur u. m. k. 10 bæjum að notum, því að svo hagar til, að stöðvarnar yrðu settar í bæjarhvirfingu, og myndi því eðlilega verða notaður sími þar frá öllum nærliggjandi bæjum. Önnur línan er 10 km. löng, og er yfir vonda á að fara frá endastöðinni til næstu stöðvar, svo að oft er ekki hægt að komast þangað í leysingum á vetrum eða þegar miklar rigningar eru á haustin. Þeir, sem þarna eru kunnugir staðháttum, eru á einu máli um það, að mjög sé nauðsynlegt að hafa símastöð í Hörðudalnum þar, sem hér er farið fram á. Menn munar líka um minna en að fara 8—10 km. til þess að ná í síma. Ég skal játa, að það er ekki eins mikil nauðsyn á þessum línum eins og símalínunum, sem síðast voru lagðar í Dalasýslu, því að þær voru sem sagt óumflýjanlegar.

Hafi hv. samgmn. aldrei athugað línur þessar í sambandi við kort af sveitinni og aðeins farið eftir hinni villandi frásögn landssímastjóra, þá er aðstaða hennar skiljanleg, en með öðru móti ekki.