07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

58. mál, Kreppulánasjóður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég fór á fund landbn., þegar málið var rætt þar. Má segja um þetta frv., að nauðsyn er á því að setja l. sem þessi. Það hefir komið í ljós við framkvæmd l. um Kreppulánasjóð, að ábyrgðarmenn verða sérstaklega hart úti. Þetta misrétti verður að leiðrétta, og þýðir lítið að létta hag skuldunauta, ef ábyrgðarmenn komast í sama fenið.

Ég hefði kosið, að fyrir n. hefðu legið upplýsingar um það, hversu miklar þessar ábyrgðir væru og hvernig þeim væri fyrir komið. Vandinn í málinu er að finna meðalhófsreglu um uppgerð þessara skulda, svo að ekki séu greiddar ábyrgðir fyrir þá, sem færir eru um að standa undir þeim sjálfir.

Ef þessar brtt.samþ., er frv. nokkuð breytt frá því, sem upphaflega var. Samt hefði ég kosið, að hægt hefði verið að hafa í l. reglur um það, hvernig skuldirnar skyldu gerðar upp.

Þá er annað atriði, sem ekki er minna um vert, hvort Kreppulánasjóður er fær um að standa undir þessum ráðstöfunum. Væri fróðlegt að heyra það frá hv. 2. þm. Rang., hvað hann álítur um þetta, því að ef sjóðurinn getur ekki staðið undir þessum byrðum, þá koma þær yfir á ríkissjóð.

Ég get mælt með frv. í heild. Mætti athuga fyrir 3. umr., hvaða breytingar hægt væri að gera á því til þess að finna þá meðalhófsreglu, sem ég gat um áðan, en það er vandasamt að koma slíkum ákvæðum fyrir.