08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég skal nú ekki lengja mikið umr.

Ég verð að biðja d. að virða mér það til vorkunnar, að ég er ekki þaullesinn í þingsköpum, en eftir því sem mér virðist, þá er hér verið að deila um frv., sem alls ekki er á dagskránni. Það er frv. hv. 4. landsk., á þskj. 266, sem er sjálfstætt frv., og ef á að ræða það með frv. á þskj. 19, þá ætti að taka það fram á dagskránni. — Ég vildi aðeins benda á þetta atriði, hvort rétt væri að greiða atkv. um mál, sem ekki stendur á dagskránni.

Svo að ég snúi mér að því máli, sem ég ber mest fyrir brjósti, þá þakka ég góð orð hv. frsm. um síma í Hörðudal. Hv. frsm. hefir séð það, þegar hann fór að athuga málið, að þetta er í raun og veru mjög sanngjörn till. og á fullan rétt á sér. Svo virðist mér um hina till. okkar um Saurbæjarsímann, að það gæti orðið samkomulag um að stytta línuna og hafa hana bara að Staðarhóli. Þó línan verði stytt, þá er þetta til mikilla þæginda, og gæti maður þá horfið frá því að hafa línuna svona langa aðeins fyrir 2—3 bæi.