07.12.1934
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

58. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. hefir ekki sannfært mig um það, að ekki beri allt að sama brunni, jafnvel þó brtt. sú, er fyrir liggur, verði samþ. Í frv. er verið að ræða um þá, sem eiga kröfur á ábyrgðarmenn fyrir lántakendur úr Kreppulánasjóði. Ég geri ráð fyrir, að það séu ekki allt lánstofnanir, heldur muni sumt vera einstakir menn. (PM: Það er alveg hverfandi og hefir enga praktíska þýðingu). Margir bændur eru þannig gerðir, að þeim mun þykja leiðinlegt að láta aðra taka á sig ábyrgðir þeirra vegna, aðra menn, sem eru þá oft kunningjar og venzlamenn, og þeir reyna oft að borga þessum ábyrgðarmönnum, eða bæta þeim upp skakkaföllin. Mér þykir þetta sennilegt, að svo sé, enda benti hv. 2. þm. Rang á, að þetta væri svo.

Ég veit, að hv. þm. meinar það, að þessir ábyrgðarmenn, sem hér um ræðir, fái eftir gefið hjá bönkunum. Ég veit ekki, hvort bönkunum þykir rétt að gefa eftir 75%; ég er ekki viss um það eftir að hafa gefið eftir af lánum lántakenda sjálfra, sem hlýtur að hafa hreinsað eitthvað til, þegar það var gert upp og kreppulánin voru veitt. (PM: Þetta eru sömu lánin). Við skulum gera ráð fyrir, að það sé t. d. 1000 kr. víxill, sem ábyrgðarmaður er látinn taka á sig hjá lánstofnun og álízt, að ábyrgðarmaður geti borgað, en sá maður, sem tók kreppulánið og hinn var í ábyrgð fyrir, tæki samt sem áður á sig að greiða ábyrgðarmanni sínum víxilinn. Nú mundi verða eftir gefið 750 kr., skulum við segja, en standa eftir 250 kr. Er þá nokkur trygging fyrir því, að ekki verði haldið áfram að borga þessar 750 kr., sem voru eftir gefnar, á sama hátt og hinn upphaflegi lántakandi greiðir ábyrgðarmanni sínum? Ég er alls ekki viss um, að þetta gengi á þann hátt, sem hv. þm. vill vera láta, um eftirgjöf frá hálfu bankanna. Þeir hafa þegar gefið eftir stórar fjárupphæðir til kaupmanna, sem voru þeirra viðskiptavinir, en urðu að fá eftirgjöf vegna þess, að strikaðar voru út skuldir bændanna hjá þeim. Ég er hræddur um, að þetta geti ekki gengið í það óendanlega. Það er náttúrlega rétt, að þessar 250 þús. kr. mundu jafna eitthvað í bili, eða létta undir, en ég sé ekki, að það sé svo mikilsvert, að þetta mál gangi fram nú á þessu þingi, þegar bíða úrlausnar jafnmikilsverð mál og vandamál sjávarútvegsins. Hv. 2. þm. Rang. segir, að það muni ekki miklu þessi upphæð. En þó það sé ekki hærri upphæð en 250 þús. kr., sýnist það ekki muna svo litlu, þegar lítið er í skýrslu mþn. í sjávarútv.málum, þá sýnist mega gera eitthvað með kvart milljón. Ég trúi því auðvitað vel, sem hv. þm. sagði, að hann mundi ekki verða þrándur í götu fyrir málum sjávarútvegsins.

Ég sé ekki, hvaða þýðingu þessi hjálp getur haft um að koma rekstri landbúnaðarins á heilbrigðan grundvöll, og það er einmitt verkefni til viðreisnar, sem skiptir máli, en þó skal ég viðurkenna, að það er skemmtilegra að losna við þessa ábyrgðarflækju. Það þarf miklu stærri átök og fjárfrekari til að koma sjávarútveginum á réttan kjöl, en það er að því leyti meira áríðandi, eins og nú standa sakir, þar sem ríkið byggir afkomu sína miklu meira á sjávarútveginum, og að honum steðja nú miklir örðugleikar. Þó ég viti, að ríkið byggir líka á landbúnaðinum, þá sé ég enga ástæðu nú til að veita honum þessa hjálp, þó að það væri skemmtilegra, ef efni væru til þess, að gera upp þessar gömlu og dauðu ábyrgðarskuldir.