08.11.1934
Efri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er aðeins örstutt mál, sem ég þarf að tala að þessu sinni, og ætla ég aðeins að svara hv. 2. þm. S.-M., og vil þá leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, það, sem landssímastjórinn segir um Dalatangalínuna: „Lína þessi hefir sérstaka þýðingu fyrir veðurathuganir, og því er mikilsvert, að hún standi allan sólarhringinn í beinu sambandi við ritsímastöðina á Seyðisfirði. Annars verða veðurskeytasendingar dýrari og ótryggari, þegar þær þurfa að ganga gegnum fleiri stöðvar. Fyrir þá 3 bæi, sem eru á leiðinni frá Brekku. hefir hún heldur ekki verulega þýðingu, því að vitanlega er ekki hægt að hafa landssímastöð á hverjum bæ.“

Fjarlægðirnar eru svo 9½ km. frá Skálum að Dalatanga, en frá Brekku að Dalatanga 13 km.

En það, sem ég vildi svo benda hv. flm. á, er það, að Mjóifjörður er skyldugur til þess að loka Brekkulínuna út strax, þegar hennar starfstíma er lokið, vegna þess, að hún truflar sambandið frá suðlægari fjörðunum.

Um það atriði, hvor leiðin sé öruggari, get ég ekki dæmt, nema eftir því, sem landssímastjóri segir. Hann segist telja tryggara línustæði yfir fjallgarðinn, frá Skálanesi. Þar þyrfti hinsvegar að leggja kabal á litlum spotta, en það mundi hleypa kostnaðinum lítið eitt fram. En svo er aftur á móti miklu hættara við snjóflóðum í hlíðinni frá Eldleysu til Dalatanga.